Skip to main content

Pistlar

Snæfoksstaðir

Birtist upphaflega í maí 2013.

Í Grímsnesi í Árnessýslu stendur bærinn Snæfoksstaðir sem svo heitir nú, ekki langt frá sumarbústaðahverfunum í Öndverðarnesi og Vaðnesi, rétt suður af Kerinu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708 – sem reyndar var skrifuð upp á Snæfoksstöðum 19. júní það ár og næstu daga á eftir – er bærinn nefndur Snæfuglsstaðir eða Snjáfuglsstaðir. „En í gömlum skjölum heitir jörðin Snæfoksstaðir“ segir þar einnig. „Öll þessi þrjú nöfn meina sama“, stendur í Jarðabókinni.

Í fornu íslensku máli voru í nokkrum orðum til tvímyndir sem höfðu ýmist -u- eða -o- í stofni. Þannig voru bæði til myndirnar gull og gollsunur og sonurfugl og foglguð og goð o.fl. Í sumum þessara orða hefur -u- orðið ofan á (gull, fugl), í sumum -o- (sonur) en guð og goð er hvort tveggja til enn en í mismunandi merkingu. Þessi víxl sérhljóða eru upphafið að miklum ruglingi með nafnið Snæfoksstaðir og reyndar fleiri nöfn af sama toga.

Elstu dæmi um nafnið í skjölum eða handritum eru á einn veg. Í máldaga frá 1356 (Diplomatarium Islandicum III, bls. 113) stendur þetta: „Snæfuglsstaðir. Kirkja á Snjófuglsstöðum vorrar frú á átján ær og eina kú. 2 merkur metfé.“ Í máldaga frá 1397 (DI III, bls. 113) eru sambærilegar myndir: „Snjófuglsstaðir. Maríukirkja á Snjófuglsstöðum á heimaland allt.“

Máldagi frá því fyrir 1500 (DI VII bls. 455–457) sýnir nokkrar mismunandi útgáfur: „Snæfuglsstaður. Item voru svo miklir fríðir peningar með kirkju á Snævoxstöðum þá er Eysteinn Guðmundsson afhenti en Eilífur Guðmundsson meðtók. ... Snæfoggsstaður. Svofelldur kirkjureikningur á Snæfogsstöðum sem hér segir ... Snæfulgsstaðalandamerki. Sagði mér síra Arnór Halldórsson er staðinn hélt ... þessi landamerki á Snæfogsstöðum“. Þarna eru sem sé komnar upp myndirnar Snævox-, Snæfogs- og Snæfoggs sem vísa allar fram til nútímamyndarinnar Snæfoksstaðir. Yfirskriftin er þó enn með gamla laginu, Snæfuglsstaður (að vísu í eintölu, -staður) og fyrir kemur líka myndin Snæfulgs- sem gæti þó verið einföldum pennaglöpum um að kenna.

Seðill með rithönd Árna Magnússonar þar sem skrifað er orðið Snæfoglsstöðum.
AM Apogr. 2670 með hendi Árna Magnússonar.

Máldagi frá árabilinu 1491–1518 (DI VII, bls. 47) hefur gömlu myndina Snæfogl-: „Halldór Brynjólfsson hefur gefið guði og ungfrú Maríu á Snæfoglsstöðum jörðina Hrygg í Flóa í Hraungerðiskirkjusókn.“ Landamerkjabréf frá 1515 (DI VIII, bls. 571) sýnir að upp er kominn ruglingur varðandi hvort í nafninu eigi að vera -l- eða ekki: „Landamerkjabréf milli Miðengis og Snæfo[g]lsstaða. Það gjörum við [kunnugt] að vér vorum þar hjá [og] heyrðum á að Ástríður Össurardóttir, ærleg dándikvinna hver er var heil að skynsemi en lítið miður en áttræð að aldri ... lýsti svodan örmerkjum og landamerkjum millum Snæfoxstaða neðan að en Ásgarðs ofan að.“ Mögulegt er að -g- hafi fallið niður í fyrra dæminu af vangá en ekki er óhugsandi að myndin „Snæfolsstaðir“ hafi skotið upp kollinum.  Jarðaskiptabréf frá 1554 (DI XII bls. 741) hefur myndina „Snafhólsstaðir“ sem minnir óneitanlega á „Snæfolsstaði“ hér að framan.

Í landamerkjabréfi frá 1567 (DI XIV, bls. 580-581) ber Björn Ólafsson sem var prestur á Snæfoksstöðum í níu ár vitni um landamerki. Nafnmyndin Snæfuglsstaðir kemur alloft (10 sinnum) fyrir í bréfinu þannig að líklegt er að það sé sú mynd nafnsins sem séra Björn notaði.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá um 1200 (DI XII, bls. 8) hefur nokkrum sinnum verið minnst á Snæfoksstaði. Þessi skrá er ekki til í frumriti heldur aðeins í þremur afritum sem Björn Jónsson á Skarðsá gerði 1619. Nafnmyndirnar í þessum afritum bera með sér að vera frá 17. öld frekar en þeirri tólftu. Ritarinn hefur sennilega ekki verið viss um nafnið sjálfur því hann ritar það á þrjá mismunandi vegu: „Snæólfsstöðum“, „Snæfolksstöðum“ og „Snæfellzstöðum“ en ósvarað er hversu gamlar myndirnar eru.

Í sýslu- og sóknalýsingum Bókmenntafélagsins fyrir Árnessýslu frá 1840 er bærinn nefndur Snæfoksstaðir og svo hefur verið síðan. Sú mynd er notuð á okkar tímum, bæði á skiltum og kortum.

Fullyrðingin í Jarðabókinni sem nefnd var hér að ofan, um að bærinn heiti um 1700 Snæfuglsstaðir en hafi áður („í gömlum skjölum“) heitið „Snæfoksstaðir“ er því ekki allskostar rétt, reyndar er því alveg þveröfugt farið. Bærinn hefur upphaflega heitið Snæfuglsstaðir, eða öllu heldur Snæfoglsstaðir. Almenna þróunin í tungumálinu var sú að orð sem höfðu -o- í sumum beygingarmyndum en -u- í öðrum, eins og fugl/fogl, þróuðust flest í þá átt að hafa alltaf -u-, eins og gull, fugl o.fl. Undantekning er orðið sonur. Í örnefninu Snæfoglsstaðir gerðist þetta ekki enda lúta örnefni oft ekki sömu lögmálum og önnur orð í málinu þegar kemur að málbreytingum. Örnefni sýna þannig oft eldra stig málsins. Um það er að ræða að í örnefninu Snæfoksstaðir og misskilningur á nafninu síðari tímum er sprottinn upp af þessu.

Bæjarnafnið umrædda er augljóslega mjög gamalt í málinu, kemur fyrir í skjölum frá miðri 14. öld en er ekki að finna í Íslendingasögum eða öðrum sögubókum frá miðöldum. Bærinn hefur samt örugglega byggst fyrir 1200 úr því að hann er nefndur á nafn í Kirknatali Páls biskups. Elsta myndin nafnsins hefur verið Snæfoglsstaðir eða því um líkt en stundum sjást myndir með Snjó- eða Snjá-. Eftir að almenna orðið fogl hefur alfarið orðið fugl í málinu fer bæjarnafn með -fogl- að eiga á hættu að misskiljast. Strax kringum 1500 sjást dæmi í skjölum um þennan misskilning. Myndir eins og SnævoxstaðirSnævoggsstaðirSnæfulgsstaðirSnafhólsstaðir koma fyrir en þróunin endar í Snæfoksstöðum. Gömlu myndinni, Snæfuglsstöðum, skýtur þó upp kollinum lengi fram eftir og á síðari hluta 16. aldar er hún einhöfð af prestinum á staðnum, sbr. hér að ofan.

Þeirri spurningu er alveg ósvarað hvaða merkingu orðið snæfugl hefur. Samkvæmt Íslenskri orðabók (undir snjófugl) merkir orðið það sama og snjótittlingur. Orðið kemur raunar fyrir í kvæði eftir Stephan G. Stephansson (Andvökur I, 27): „og vonirnar lágfleygu líða/sem snjófuglar eftir í akranna skjól/af aðköstum skammdegishríða“. Björn J. Blöndal getur þess í riti sínu Vinafundir, rabb um fugla og fleiri dýr (1953, bls. 25, 85) að snjófugl sé einkum vestfirskt nafn. Ekki er mér kunnugt um heimildir sem styðja það en eitt dæmi er til um annað íslenskt örnefni sem hefur orðið sömu breytingum að bráð og Snæfoksstaðir. Það er Snæfoksey á Hvammsfirði.

Afsalsbréf frá 1451 (DI VI, bls. 52) getur nokkurra eyja úti fyrir Skógarströnd. Þar á meðal er „Snæfoglsey“. Í annarri heimild nokkrum áratugum síðar hefur nafnið breyst. Í reikningsskaparplaggi fyrir Snóksdalskirkju frá 1524 (DI IX, bls. 212) stendur: „Eyjar er liggja undir Eyrarkirkjusókn og svo heita: Stafey og Gjarðeyjar ... Hrútsey og Húsey með Flettuey og Hryggjum og Snjófaxey með öllum þeim hólmum og skerjum sem greindum eyjum fylgja að fornu og nýju.“ Í sýslu- og sóknalýsingum fyrir Snæfellsnes frá 1875 er getið nokkurra eyja undan Skógarströnd. Þar á meðal er „Snæfoksey“. Í dag heitir þessi ey Snæfoksey bæði á kortum og í örnefnaskrám (sjá líka Byggðir Snæfellsnes 1977, bls. 238).

Í báðum þessum tilfellum, hjá Snæfoksstöðum og Snæfoksey, hefur þróunin orðið alveg sú sama. Upphafleg nöfnin hafa verið Snæfoglsstaðir og Snæfoglsey en báðar nafnmyndirnar staðnað í málinu og á endanum orðið óskiljanleg. Þegar það gerist fara menn að nefna staðina upp á nýtt, lesa í málið, misskilja nöfnin og breyta heitunum. Þetta er kallað alþýðuskýring. Lesin er ný merking í nafnið og það breytist í eitthvað sem fólki finnst skiljanlegra. Mjög merkilegt er að sjá að nákvæmlega sama þróun hefur orðið á tveimur stöðum á landinu, í orðum sem eru allt annað en hversdagsmál.

Snæfugl er raunar til sem sérstakt örnefni á Íslandi. Það er heiti á fjalli sem stendur yst við Reyðarfjörð að norðan. Næsta fjall við er Hesthaus og neðan hans eru Folöld, klettabríkur sem kallast á við fjallið. Af myndum að dæma gætu bæði fjöllin dregið nafn af lögun sinni, Hesthaus af hesthaus en Snæfugl er kúptur eins og fuglshöfuð og mun vera hvítari lengur en önnur fjöll þar um kring. Snæfugl við Reyðarfjörð ber því nafn sitt sennilega af lögun og snjóalögum en ekki af því að fjallið tengist snjótittlingi sérstaklega.

Birt þann 3. janúar 2023
Síðast breytt 24. október 2023