Skip to main content

Pistlar

Örnefni á alþjóðlegum vettvangi

Hlutverk örnefna og meðhöndlun þeirra

Örnefni eru hluti af kjarna tungumálsins og sameiginleg öllum tungumálum og menningu. Þau gegna praktísku hlutverki með því að gera okkur kleift að vísa til ákveðinna staða en þar að auki eru þau oft hlaðin merkingu og með táknrænar skírskotanir og því getur verið mikil pólitík í örnefnum. Hver fær að velja eitt nafn fram yfir annað? Eða skipta eldra nafni út fyrir nýtt? Hvaða nöfn komast á kort og hvaða nöfnum er hafnað eða þau þurrkuð út? Hvaða skilaboð felast í því að nota það ríkjaheiti sem tíðkast í viðkomandi landi (innnafn (e. endonym)) eða alþjóðlega útgáfu af nafninu (útnafn (e. exonym). Hvernig á að umrita með latínuletri nöfn úr til að mynda arabísku og grísku sem nota önnur letur?

 

Uppruni og tilurð UNGEGN

Skjáskot af fréttabréfi UNGEGN. Forsíðuna prýðir mynd af jörðinni þar sem búið er að fylla inn í heimsálfur og höf með orðum.
Fréttabréf UNGEGN
UNGEGN

Nafnfræðingar fást við spurningar sem þessar ásamt mörgu öðru í fræðilegum rannsóknum sínum en örnefni gegna einnig mikilvægu hlutverki á alþjóðasviðinu, ekki síst hjá Sameinuðu þjóðunum, en á vettvangi þeirra hefur frá árinu 1959 verið starfræktur svonefndur Samstarfshópur Sameinuðu þjóðanna um landfræðiheiti (United Nations Group of Experts on Geographical Names, UNGEGN) sem hluti af Efnahags- og félagsmálaráði stofnunarinnar. Starfsemi samstarfshópsins hefur verið í sífelldri þróun síðan og nú koma sérfræðingar um örnefni frá öllum heimshornum saman á tveggja ára fresti í höfuðstöðvum SÞ í New York. Þetta eru m.a. nafnfræðingar, landfræðingar, málfræðingar, kortagerðarmenn og skipulagsfræðingar sem hittast og ráða ráðum sínum um ýmis málefni, til að mynda söfnun, stöðlun, miðlun; þetta er vettvangur til að deila reynslu og leita að sameiginlegum lausnum við áskorunum. Opinbert markmið UNGEGN er þríþætt: (1) stöðlun; (2) miðlun; (3) umritun.

 

Fundarhöld og skipurit UNGEGNs

Síðasti fundur UNGEGN var haldinn í byrjun maí (1.–5. maí 2023) og auk fulltrúa frá yfir 100 löndum mættu einnig fulltrúar fyrir hönd alþjóðasamtaka og fyrirtækja, svo sem International Hydrographic Organisation, International Cartographic Association og Google. Þjóðir taka þátt í starfsemi UNGEGN í gegnum eina eða fleiri deildir (e. divisions) sem skilgreindar eru á grundvelli tungumála eða staðsetningar í heiminum og eru nú starfræktar 24 slíkar deildir. Í þeim fer einnig fram starfsemi á milli funda og þar vinna fulltrúar saman að markmiðum UNGEGN. Ísland tilheyrir Norden Division ásamt Danmörku, Færeyjum, Grænlandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Sjö konur og tveir karlar stilla sér upp fyrir mynd í miðju alþjóðlegu fundarherbergi
Fulltrúar í deild Norðurlanda - Norden Division
Emily Lethbridge

Efni fundarins og framlag Íslands

Dagskrá funda tekur mið af öllum þeim mikla fjölda skjala og skýrslna sem þátttakendur senda inn til UNGEGN fyrir fundinn. Allt þetta efni er aðgengilegt á vef samstarfshópsins. Einnig er gestum boðið að halda sérstök erindi og á þessum fundi var til að mynda flutt erindi um frumbyggjanöfn í Kanada, erindi um vinnu með stafræn gögn um örnefni og kortagerð og erindi um gögnin á bak við kortaviðmót Google. Á hverjum degi voru stuttar kynningar frá fulltrúum nokkurra þjóða um ákveðin þemu:

  • stöðlun örnefna í einstökum ríkjum;
  • örnefni og menningararfur;
  • tækni, nýsköpun og gæðastjórnun á sviði stafrænna gagna;
  • samvinna, þjálfun og kynningarstarf á sviði örnefnamála.

Í kynningu sinni fjallaði fulltrúi Íslands um áhuga og þekkingu almennings á örnefnum á Íslandi og samstarfsverkefnið „Hvar er?“ sem Landmælingar Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum unnu að í fyrra (sjá nánar um verkefnið á vefnum nafnið.is). Þá sögðu formenn samstarfshópa um sértæk málefni frá starfi þeirra frá síðasta fundi árið 2021 og héldu einnig sérstaka atburði utan megindagskrár fundarins. Þar var í forgrunni hin stærri stefnumörkunaráætlun UNGEGN fyrir árin 2021–2028 sem hægt er að kynna sér á vef samstarfshópsins.

Unnt var að fylgjast með fundinum í beinu streymi og upptökur af honum má jafnframt finna á vef samstarfshópsins. Það var mikill heiður að mæta á fundinn fyrir hönd Íslands og líkt og búast mátti við veitti það mikinn innblástur að vera í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna og hitta örnefnasérfræðinga hvaðanæva að úr heiminum. Vinna í málefnum sem varða Ísland heldur áfram, bæði í samstarfi við kollega okkar á Norðurlöndunum og við UNGEGN sem heild. Von okkar er að þátttaka Íslands í starfinu haldi áfram að aukast og að við verðum virkur og veigamikill hluti af samstarfshópnum til framtíðar.

Kona stendur fyrir framan merki og tvo fána Sameinuðu þjóðanna.
Emily Lethbridge í höfuðstöðvum SÞ í New York
Emily Lethbridge
Birt þann 22. maí 2023
Síðast breytt 24. október 2023