Skip to main content

Pistlar

„vorkynna“ höfundar Íslendingasagna „konunum“?

Íslendingasögur fjalla, eins og alþjóð veit, um vígaferli og eilífar þingreiðir og þingsetur karla. Á meðan sitja konur heima og gæta bús og barna og reyna að jafna sig eftir strembið ráðabrugg. Örsjaldan er sjónarhorninu beint inn á heimilið þar sem þær sitja og dilla barni eða skara eld að köku sinni. Þó koma stöku myndir upp í hugann, t.d. af Guðrúnu Ósvífursdóttur þar sem hún situr og spinnur tólf alna garn.

Aldrei sést kona gefa barni brjóst í Íslendingasögum og aðeins eitt dæmi úr Fljótsdæla sögu er um konu sem venur meybarn af brjósti:

„Og á hinum þriðja vetrinum beiddist hún [þ.e. Þorlaug] að fara á kynnisleit upp á Bessastaði að finna föður sinn. Hún lét eftir meyna og vandi af brjósti. Hún var uppi þar viku og þá þótti Helga mál að hún færi heim og sendir eftir henni [...]“ (Íslendinga sögur I 1985:688)

Brjóstagjöfin virðist hvorki vefjast fyrir Þorlaugu né höfundi, enda sér hann ekki ástæðu til að eyða frekari orðum að líðan móður eða dóttur. Sennilega léti ég mér þetta einnig í léttu rúmi liggja ef ekki væri eitt dæmi til viðbótar um barn sem vanið er af brjósti í Íslendingasögum. Svo kynlega vill til að brjóstgjafinn og brjóstbarnið eru ekki mæðgur líkt og í fyrra dæminu, heldur feðgar. Í Flóamanna sögu segir frá því að Þorgils örrabeinsstjúpur venur Þorfinn son sinn á geld karlmannsbrjóst sín til að halda í honum lífinu, eftir að móðir hans deyr frá honum ungum. Eins og nærri má geta er þetta hin mesta karlmennskuraun:

„Um nóttina vildi Þorgils vaka yfir sveininum og minntist þá drengilega á karlmennsku og kvaðst eigi sjá mega að barn það mætti lifa nema mikið væri til unnið og vill hann eigi að það deyi. Lætur hann nú saxa á geirvörtuna á sér og kemur þar blóð út. Síðan lætur hann teygja það og kom þar út blanda og eigi lét hann af fyrr en það var mjólk og þar fæddist sveinninn við.“ (Íslendinga sögur I 1985:750)

Þegar Þorfinni er síðan fengin brjóstmóðir, neitar hann að drekka nema við myrkur, föðurmjólkin hefur annan lit en mjólkin úr brjósti konunnar, og er hann þá vaninn af brjósti. Við dauða Þorfinns dregur Þorgils nokkurn lærdóm af brjóstagjafareynslu sinni:

„Þorgils kvaðst mundu vorkynna konunum þótt þær ynnu brjóstbörnunum meira en öðrum mönnum.“ (Íslendinga sögur I 1985:759)

Hér mætti ætla að fundinn væri karl sem skildi konur með líkama og sál, en er það víst? Séu þessi dæmi um brjóstagjöf í Íslendingasögum borin saman vandast málið nokkuð. Er föðurmjólkin e.t.v. kjarnmeiri en móðurmjólkin, er hún blandinn sterkari tilfinningum eða eru karlmenn viðkvæmari þegar búið er að opna brjóstkassann. Aukinheldur mætti og spyrja hvort þetta gefi vísbendingu um höfunda þessara sagna. Hlýtur höfundur Flóamanna sögu ekki að vera karl og er höfundur Fljótsdælu þá ekki kona. Það kæmi fyllilega heim við þá staðreynd að Fljótsdæla saga er eina Íslendingasagan sem hefst á nafni konu:

„Þorgerður hét kona. Hún bjó í Fljótsdal austur.“ (Íslendinga sögur I 1985:674)

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Íslendinga sögur I. 1985. Ritstj. Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Reykjavík.