Skip to main content

Pistlar

​​​​​​​Athyglisvert

Orðið athygli var fyrrum ýmist í hvorugkyni (eignarfall: athyglis) eða í kvenkyni (eignarfall: athygli) en í dag er það nær alltaf í kvenkyni. Til marks um það má nefna að aðeins tvö raunveruleg dæmi um hvorugkynseignarfallið athyglis fundust í Risamálheild Árnastofnunar (annað frá 1946 og hitt frá 1983) en í málheildinni eru um 245 þúsund dæmi um orðið athygli.  

Dæmi um þetta orð í hvorugkyni eru fleiri í eldra máli, t.a.m. í 18. aldar dæmum á borð við „með hvílíku athygli“ (1745, úr þýðingu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík á Nikulási Klím eftir Ludvig Holberg). Og dæmi um athygli sem kvenkynsorð, frá sömu öld, er t.a.m. að finna hjá Lærdómslistafélaginu (1780): „af nákvæmri athygli“.

Svo er að sjá sem samsetningar með athygli sem fyrri lið hafi framan af haft -s-. Samsettu nafnorðin athyglisleysi og athyglisvottur koma t.d. fyrir í textum frá miðri 19. öld, sbr. eftirfarandi dæmi um síðarnefnda orðið:  „Oss virtist það „tákn tímanna" og athyglisvottur í fyrra, að Larsen háskólakennari, sem nú er dauður, ritaði um landsrètt vorn Íslendínga“ (Skírnir 1857).

Túlka má s-ið í slíkum dæmum sem eignarfallsendingu hvorugkynsorðsins athygli en það kann einnig að vera tengistafur. Tengistafssamsetning þarf alls ekki að byggjast á hvorugkynsorðinu athygli heldur má allt eins vera að kvenkynsorðið athygli búi að baki; sambærilega orðmyndun með kvenkynsorð í fyrri hluta má sjá í dæmum eins og leikfimishús, kurteisisvenja o.fl.

Orð á borð við athyglisbrestur í nútímamáli eiga sér sem sé gamlar og góðar fyrirmyndir með -s. Enda þótt nú sé venjan að hafa nafnorðið athygli í kvenkyni, og þar með endingarlaust í eignarfalli, þá er tengistafssamsetning með -s- eigi að síður fullgild orðmyndunaraðferð.

Hverfum nú frá nafnorðssamsetningum og hugum að algengu lýsingarorði með athygli- í fyrri lið. Eins og kunnugt er hafa sumir -s- og aðrir ekki í lo. athygli(s)verður, athygli(s)vert. (Hér eru til umfjöllunar samsett orð en ekki orðasambönd, t.d. þetta er vert allrar athygli, þetta er (allrar) athygli vert.)

Ef marka má tímasetningar dæma á tímarit.is virðast orðmyndir með athyglis- eiga sér heldur lengri sögu en með athygli. Dæmin eru þó ekki mörg og ekki skeikar miklu í tíma svo að ekki má leggja of mikið upp úr þessum vitnisburði. Finna má dæmi um lo. athyglisverður úr blöðum og tímaritum frá allra fyrstu áratugum 20. aldar, t.d. þetta hér úr Vísi 1914 (þýdd grein um páfakjör):

„og láta ógetið ýmsra aukaatriða sem annars væru þó mjög svo athyglisverð“ (27. ágúst 1914, bls. 2).

Elsta dæmi um samsetninguna athygliverður, þ.e. án -s-, á tímarit.is, er síðan frá árinu 1926, í fyrirsögn í Verði, blaði sem Íhaldsflokkurinn gaf út og Kristján Albertsson ritstýrði. Fyrirsögnin er þessi:

„Afmælisgjöfin. Athygliverð sjóðstofnun.“ (Vörður 17. júlí 1926, bls. 3).

Orðmyndunina athygliverður má svo áfram finna í dæmum frá fjórða áratugnum og síðar. Slík dæmi á tímarit.is eru raunar hlutfallslega fá í heildina en þó eru merkilega mörg þeirra fengin úr sömu átt; úr tímariti Ungmennafélags Íslands, Skinfaxa. Á fjórða áratugnum t.a.m. 4 dæmi (frá 1930, 1934 og 1938). Ritstjóri Skinfaxa var Aðalsteinn Sigmundsson kennari og eru þrjú af þessum fjórum dæmum beinlínis úr textum sem hann þýddi sjálfur. Freistandi er að álykta að tímaritið Skinfaxi og forsvarsmenn þess hafi átt nokkurn þátt í því að styðja við útbreiðslu s-lausu orðmyndunarinnar athygliverður enda þótt fleiri blöð og tímarit hafi komið við sögu. 

Aðalsteinn Sigmundsson (1897-1943)

Vel má vera að hvati til samsetningarinnar lo. athygliverður (fremur en athyglisverður) hafi verið sá misskilningur að orðmyndir á borð við athyglisvert væru málvillur (rökstutt þannig að kvenkynsorðið athygli sé endingarlaust í eignarfalli). Þarna gæti því verið um að ræða ofvöndun.

Birt þann 13. júní 2019
Síðast breytt 24. október 2023