Skip to main content

Pistlar

Fjalldalafífill pistill Dóru Jakobsdóttur Guðjohnsen

Pistillinn um fjalladalafífil er eftir Dóru Jakobsdóttur Guðjohnsen grasafræðing sem hefur unnið ómetanlegt starf í þágu íslenskrar tungu með því að taka saman íðorðasöfn á sínu fræðasviði,  þ.e. PlöntuheitiNytjaviði og Nöfn háplöntuætta. Þessi orðasöfn eru öll birt í Íðorðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (idord.arnastofnun.is) og nýtast öllum þeim sem vinna á sviði grasafræði og ræktunar, við kennslu í náttúrufræðum, þýðendum o.fl.

Orðasafnið Nöfn háplöntuætta kom nýverið út í bókarformi og er hægt að panta hana hjá höfundi á nofnhaplontuaetta@gmail.com. Orðasafnið hefur verið endurskoðað í samræmi við nýjar rannsóknir og þá þekkingu sem nú liggur fyrir og  breytingar sem hafa orðið á skilgreiningum margra ætta.

 

Fjalldalafífill

Nafnið kemur fram í Grasnytjum Björns Halldórssonar frá 1783 sem fialldala eða fiallafífill. Í 1. útgáfu Flóru Íslands 1901 er notað nafnið fjalldalafífill og hefur það nafn haldist á þessari plöntu til þessa dags.  Séra Björn getur þess einnig að nokkrir hafi tekið það eftir dönskum og þýskum að kalla plöntuna Benediktsurt, en flestir gefi henni ekkert nafn. Í 3. útgáfu Flóru Íslands 1948 bætist þó við nafnið biskupshattur, þótt fyrrnefnda nafninu sé haldið. Ekki er vitað um neinar aðrar ritaðar heimildir en þessar fyrir nöfnunum Benediktsurt og biskupshattur.

Þótt fjalldalafífill sé þrísamsett orð er það einkar lipurt og hljómfagurt. Það vekur hins vegar furðu hvers vegna jurtin ber fífilsnafn. Um það segir séra Björn “Af því að þessi jurt líkist nokkuð fíflinum að skapnaði, þótt hún hafi rautt og hangandi blómstur, þá hefir hún fengið hjá oss fífils nafn, og er hún honum þó fjarskyld urt.” Og það er rétt því fjalldalafífill er af rósaætt og mun skyldari plöntum eins og engjarós, gullmuru og jarðarberi  heldur en körfublómum eins og jakobsfífli eða túnfífli.

Í ættkvíslinni Geum eru auk fjalldalafífilsins um það bil fimmtíu aðrar tegundir og ýmsar þeirra ræktaðar í görðum til skrauts. Margar þeirra vaxa villtar í Evrópu, Asíu, Norður- og Suður- Ameríku, Afríku og á Nýja-Sjálandi.

Nafngiftir þessa tegunda hér á landi hafa valdið nokkrum vandræðum, þar sem mikil óvissa hefur ríkt um hvort betra væri að nefna þær með endingunni -fífill eða -hattur. Þannig hefur ein og sama tegund gengið bæði undir nafninu skarlatshattur og skarlatsfífill. Í orðasafninu Plöntuheiti eru nú nöfn 17 tegunda af ættkvíslinni Geum, auk þriggja blendinga. Þar hefur verið valið að nefna þær allar með endingunni -dalafífill. Til dæmis var tegundin Geum reptans nefnd skriðufífill í Dýra- og plöntuorðabók sem kom út árið 1989. Í Plöntuheitunum er valið að nefna hana skriðdalafífil og er þá skriðufífill talinn samheiti. 

 

Birt þann 23. júlí 2019
Síðast breytt 24. október 2023