Skip to main content

Pistlar

landtaka og landnám

Í íslensku nútímamáli er nafnorðið landnám notað í merkingunni ‘það að nema, kasta eign sinni á og byggja, áður óbyggt land’. Það hefur meðal annars verið notað í tengslum við komu norrænna manna til Íslands og Evrópubúa til Ameríku og Ástralíu. Á undanförnum árum hafa ýmsir haldið því fram að þessi orðanotkun eigi ekki alltaf rétt á sér þar sem t.d. hvorki Ameríka né Ástralía hafi verið óbyggð lönd þegar Evrópumenn stofnuðu sínar nýlendur. Í pólitískri umræðu sést þó æ oftar orðið landtaka sem virðist vera að festa sig í sessi um yfirtöku á landsvæði í óþökk þeirra sem fyrir voru. Þó að þessi merking komi hvergi fram í íslenskum orðabókum er orðið fjarri því að vera nýjung í málinu.

Notkun orðsins landtaka í eldra máli

Samkvæmt Íslenskri orðabók hefur orðið landtaka tvær merkingar sem báðar tengjast sjóferðum: ‘lending, það að taka land’ og ‘lendingarstaður’. Orðið hefur verið notað í þessari merkingu óslitið frá miðöldum og fram á okkar daga eins og sjá má á eftirfarandi dæmum:

  • þa het Orlygr a Patrek byskup fostra sinn til landtokv þeim ok hann skylldi af hans nafni geva ornefni þar sem hann tæki land. (Landnámabók ca 1302–1310)
  • Landtaka er ill meðfram allri ströndinni. (Tímarit Verkfræðingafélagsins 1922)
  • Skemmtiferðaskip með landtöku í friðlandi. (RÚV 2018)

Ef litið er á notkun orðsins landtaka kemur þó fljótt í ljós að orðabókaskýringarnar ná ekki utan um öll dæmi í íslensku nútímamáli. Frá því um 1900 var orðið notað meðal Íslendinga í Kanada í merkingunni að kaupa sér jarðskika (af yfirvöldum).

  • Eins og áður hefur verið opinberlega auglýst, þá hefir verið leyfð landtaka á sectionum með ójafnri tölu, og öðlast lög um það gildi 1. September næstkomandi. (Lögberg 1908)
  • norskur prestur sem stuðlað hafði að landtöku vorri hér. (Stephan G. Stephansson 1953–1958)

Í dæmum frá fyrri hluta síðustu aldar má svo sjá enn eina merkinguna. Þar virðist landtaka merkja yfirtöku þjóðar á landsvæði annars ríkis með hervaldi.

  • En landtaka Þjóðverja af Frökkum með stríðinu 1870–71 gerði vináttu milli þjóðanna óhugsandi. (Skírnir 1914)
  • Landtaka Ungverja í Tjekkoslovakiu byrjuð. (Morgunblaðið 1938)

 

Notkun orðsins landtaka eftir 2000

Ef litið er á notkun orðsins landtaka í rituðum textum eftir 2000 kemur í ljós að það er enn notað um lendingar og lendingarstaði báta og skipa. Í fréttum og í umræðum á Alþingi er orðið þó oftar notað um yfirtöku þjóða á landsvæði annarra.

  • Landtaka Ísraelsmanna á Vesturbakkanum er mjög strategísk […] (Alþingisræða 2012)
  • […] uppskar hlátur blaðamanna á blaðamannafundi þar sem landtaka Rússa á Krímskaga var til umræðu. (mbl.is 2014)
  • Hans er nú helst minnst fyrir að hafa fyrirskipað brottrekstur frumbyggja [...] frá löndum sínum [...] til að rýma fyrir landtöku hvítra manna. (Kjarninn 2017)

Eins og þessi stutta umfjöllun sýnir endurspeglast samfélagsbreytingar og breytt viðhorf oft í orðanotkun. Ef til vill má segja að í kjölfar nýrra hugmynda um nýlendustefnu vestrænna þjóða hafi skapast þörf á að gera skýrari greinarmun á landnámi í óbyggðum og landtöku svæða sem þegar eru byggð. Að sama skapi hefur færst í aukana að gerður sé greinarmunur annars vegar á landnemum og landtökufólki og hins vegar á landnemabyggðum og landtökubyggðum. Orðin landtökufólk og landtökubyggð koma til dæmis ekki fyrir í Risamálheildinni fyrr en eftir 2000. Færa mætti rök fyrir því að landtaka í merkingunni ‘að taka land ‘ veki nú á tímum neikvæð hugrenningatengsl á meðan landnám sé oft jákvætt í huga Íslendinga (m.a. landnám Íslands). Með því að velja á milli þessara tveggja orða geta málhafar því, með einföldu orðavali, látið í ljós skoðun sína á flóknum milliríkjadeilum.

Birt þann 28. maí 2019
Síðast breytt 24. október 2023