Skip to main content

Pistlar

Sagan af bjargvætti Hlina kóngssonar

Ævintýri eru oft til í mörgum mismunandi tilbrigðum líkt og Kristín Anna Hermannsdóttir skrifaði um í þjóðfræðipistlinum „Upprunaligast og fornligast“ sem birtist hér á vef Árnastofnunar í fyrra. Meðal þeirra sem varðveist hafa í fleiri en einu tilbrigði er Sagan af Hlina kóngssyni. Áður en ég kynntist því ævintýri var ég vön ævintýrum þar sem kvenhetjurnar voru iðnar, fallegar og hjartahreinar en karlhetjurnar voru hugrakkar, klókar, fyndnar og traustar. Það er ekki að undra enda er til mikið úrval af rannsóknum sem renna stoðum undir að ævintýri endurspegli og styðji við ríkjandi menningu. Ekki síst hefur verið bent á hvernig þau styðji við kynhlutverk feðraveldisins og undirstriki mikilvægi hjónabands. Í tilbrigðinu af sögunni um Hlina kóngsson sem ég kynntist fyrst er kvenhetjan aftur á móti kjörkuð, klók og ögrar hugmyndum um kynhlutverk sitt.

Áður en lengra er haldið er vert að geta þess að í þessum heimildum, ekki síst þeim rituðu, vantar okkur ýmislegt: tónn, svipbrigði og hreyfingar geta gefið ýmislegt í skyn. Það er því ávallt mikilvægt að túlka, og lesa túlkanir, með fyrirvara. Svo er það líka þannig að fólk tekur eftir mismunandi efnisatriðum og heimsmynd þess sem túlkar í hvert sinn skiptir máli rétt eins og heimsmynd sagnamannsins.

Tilbrigðið sem ég kynntist fyrst er úr safni Jóns Árnasonar og er í grófum dráttum svona:

Hlini kóngssonur hverfur við veiðar og lofar kóngur hálfu konungsríkinu í fundarlaun. Almúgastúlkan Signý leggur í kjölfarið af stað í leit að prinsinum. Hún finnur hann í haldi tveggja tröllskessa sem nota töfraorð til að halda honum sofandi á milli þess sem önnur þeirra reynir bæði að fá hann til að borða og til að giftast sér. Með því að liggja í leyni og fylgjast með lærir Signý að vekja og svæfa Hlina að hætti tröllanna. Hún vekur hann og ráðleggur honum hvað hann skuli segja við tröllin er þau vekja hann næst. Þau eyða því sem eftir er af deginum saman og þegar dimmir svæfir Signý Hlina. Þegar ein tröllskessan vekur Hlina fylgir hann síðan ráðum Signýjar og aflar þannig upplýsinga sem gera þeim kleift að drepa skessurnar og flýja.

            Þau fara heim til Signýjar og bíður Hlini þar á meðan hún fer á fund kóngsins. Signý spyr kónginn hvernig henni yrði launað ef hún kæmi með kóngssoninn en kóngurinn segist ekki þurfa að svara því þar sem henni myndi aldrei takast það sem engir af hans mönnum hafi getað. Signý spyr hann þá hvort hún fengi ekki sömu laun og aðrir og játar kóngurinn því. Eftir fundinn fer Signý heim og sækir Hlina. Kóngurinn fagnar og Hlini segir honum farir sínar. Þegar Hlini hefur lokið frásögn sinni biður hann kónginn leyfis til að giftast Signýju. Kóngurinn gefur blessun sína og Hlini og Signý gifta sig.

Í öðrum tilbrigðum sögunnar í safni Jóns Árnasonar og í tilbrigðum sem varðveitt eru á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kemur fram annar hvati að björgunarleiðangrinum auk þess sem ýmis önnur atriði eru ólík. Í sumum þeirra fær kvenhetjan aðstoð, ýmist í formi galdrahlutar eða hittir verur sem veita henni aðstoð. Þá er annaðhvort ekkert talað um verðlaun eða sérstaklega tekið fram að þau fari eftir kyngervi bjargvættarins, sé það karl þá hljóti hann hálft kóngsríkið en kona fái að kvænast Hlina, en fær þó stundum hálft kóngsríkið með. Í flestum þeirra þekkjast ungmennin jafnframt áður og er það hvatinn að björgunarleiðangrinum. Í nokkrum tilbrigðum hefur kóngurinn bannað þeim að hittast því honum þykir karlsdóttir ekki hæfa prinsinum og í einu þeirra reynir kóngurinn jafnframt að neita kvenhetjunni um launin (hjónabandið), en prinsinn maldar í móinn og sannfærir kónginn um að standa við orð sín.

Í tilbrigðinu sem ég kynntist fyrst virðist Signý aftur á móti leggja af stað í björgunarleiðangurinn með launin að markmiði. Hún er greinilega meðvituð um stöðu sína í samfélaginu og leitar því staðfestingar á að hún fái sannarlega launin sem lofað var, en viðbrögð kóngsins staðfesta að hún hafði ríka ástæðu til. Það er þó óvíst hvort til þess komi að kóngurinn neyðist til að gefa henni hálft ríkið þar sem hún giftist kóngssyninum og ekki kemur fram hvort þau ríki sem jafningjar. Í ljósi þess sem við vitum um viljastyrk og djörfung hennar er þó varla ástæða til að efast um áhuga hennar á ráðahagnum, en hvort hún hafi heillast af kóngssyninum, hugnist staða hans eða finni fyrir pressu samfélagsins er erfitt að segja til um.

Sagan af Hlina kóngssyni og Signýju ögrar feðraveldinu lítils háttar með því að setja fram hugrakka kvenhetju sem tekur áhættu og stígur inn á svið karlmannsins en endar samt sem áður á því að halda á lofti gildi hjónabandsins. Ekki svo ólíkt dægurmenningu nútímans þar sem algengt er að kvenhetjur elti drauma sína og sýni hvað í þeim býr en þegar til kastanna kemur skiptir þó mestu máli að hljóta ást og skuldbindingu karlmanns. Vertu sterk, vertu sjálfstæð – en bara ekki kjósa að lifa lífinu án karlmanns.

Ævintýrið er aðgengilegt á vefnum í ýmsum tilbrigðum, til dæmis í rituðu formi hér og hægt er að hlusta á það hér.

 

Birt þann 17. nóvember 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Heimildir

Baker-Sperry, Lori og Grauerholz, Liz. The Pervasiveness and Persistence of the Feminine Beauty Ideal in Children's Fairy Tales, Gender and Society, vol. 17 nr. 5, 2003, bls. 711–726.Jones, Steven Swann. The Fairy Tale: The Magic Mirror of Imagination. New York: Twayne Publishers.  

Jón Árnason. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. (Ný útgáfa). Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfu. Reykjavík: Þjóðsaga, 1954–1960.

Lieberman, Marcia R. "Some Day My Prince Will Come": Female Acculturation through the Fairy Tale, College English, vol. 34 nr.3, 1972, bls. 383–395.

Tatar, Maria. Off With Their Heads!: Fairy Tales and the Culture of Childhood. New Jersey: Princeton University Press,1992.

Segulbandsafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, upptökur: SÁM 85/221 EF, SÁM 89/1730 EF, SÁM 89/2036 EF, SÁM 91/2455 EF, SÁM 92/3213 EF.

Hér er hægt að hlusta á fleiri tilbrigði af ævintýrinu:

https://www.ismus.is/i/audio/id-1001719.

https://www.ismus.is/i/audio/id-1005870.

https://www.ismus.is/i/audio/id-1009672.

https://www.ismus.is/i/audio/id-1014298.

https://www.ismus.is/i/audio/id-1029174.