Skip to main content

Pistlar

Skáletur

Saga skáleturs

Skáletur (e. italics) kom fyrst fram sem sérleturgerð árið 1499. Fræðimaðurinn og útgefandinn Aldus Manutius (1449/1452–1515) bað þá leturgerðarmanninn Francesco Griffo (1450–1518) um að búa til slíkt letur. Elstu skáletrin voru uppréttari en nútímaskáletur og voru notuð sem sérletur. Bækur voru þá annaðhvort prentaðar með skáletri eða venjulegu letri.[1] Það var ekki fyrr en löngu síðar sem menn fóru að nota skáletur sem áhersluletur.

Hér er dæmi um skáletur sem Ludovico degli Arrighi (1475?–1527?) hannaði um 1523 og sést þar vel hversu uppréttir stafirnir voru í elsta skáletri.            

https://en.wikipedia.org/wiki/History_of_Western_typography#/media/File:Arrighi_italic.png

Skáletur hefur alllengi verið notað sem áhersluletur í mörgum tungumálum og þar á meðal í íslensku. Notkun þess fellur ekki beint undir stafsetningarreglur né greinarmerkjasetningu en þó hafa myndast hefðir um notkun þess.

Oft getur leikið vafi á því hvort á að skáletra orð eða tákn og hefur hefð þar ekki verið skýr um allt, til að mynda hvort á að skáletra orð eða tákn sem fjallað er um ef það er hluti af stærra orði og tengt við það með striki (t.d. i-hljóðvarp eða i-hljóðvarp). Í væntanlegu rafriti eftir mig um stafsetningu (Íslensk réttritun) er kafli sem fjallar um þetta og byggist það sem hér fer á eftir mikið á honum. Það sem á eftir fer eru því tillögur mínar um samræmingu á þessu sviði.

Hvenær á að skáletra orð og tákn?

Skáletur getur verið gagnlegt til að auðkenna orð eða stafi sem rætt er um, heiti ritverka o.s.frv. eða til áherslu. Einnig til að auðkenna fyrirsagnir eða heiti.

Skáletrun orða, bókstafa og hljóða

Í almennum texta er rétt að auðkenna orð, bókstafi eða hljóð sem rætt er um með skáletri ef þau standa sjálfstæð.

Bókstafurinn á stendur fyrir tvíhljóð í íslensku.
Upprunaleg þátíðarmynd sagnarinnar róa er reri.

Greinarmerki sem eru hluti af þeim eða nauðsynleg fyrir táknun þeirra eru einnig skáletruð.

Forskeytið ör-. (Bandstrikið er einnig skáletrað.)
Endingin -na. (Bandstrikið er einnig skáletrað.)
Orðið beygist þannig í eignarfalli: (til) morguns. (Skáletraðir svigar: eiga aðeins við dæmið og fjölda orða í því.)
Ritað er f(f) í ýmsum tökuorðum, t.d. koffort. (Skáletraðir svigar: eiga aðeins við táknin f(f).)
Á skiltinu stóð og/eða. (Skáletrað skástrik!)

Ef greinarmerkin þjóna hlutverki í setningunni en standa ekki með tákni eða orði þá eru þau ekki skáletruð.

Setan (z) var lögð niður í íslensku árið 1974. (Svigarnir ekki skáletraðir.)
Mörg orð enda á -an eða -in: gaman, megin. (Tvípunkturinn ekki skáletraður.)

Ef vísað er í stafi eða endingar í almennum texta er einnig hægt að sleppa því að skáletra þau og það er nokkuð algengt í textum. Frekar er þó mælt með því eins og áður sagði að skáletra þau til auðkenningar.

Bókstafurinn i.
Stafirnir ð og þ tilheyra íslenska stafrófinu.

Skáletur og bandstrik

Ef einstök orð, stafir, endingar o.s.frv. eru tengd við orð með bandstriki þá er óþarfi að skáletra þau. Þetta á til að mynda við ef endingum er bætt við stafi (n-um). Bandstrikið nægir þar til auðkenningar og það mælir einnig á móti því að skáletur sé notað í slíkum tilvikum (til dæmis innskots-ð) að ekki fer vel á því að skáletra aðeins hluta orðs:

Þetta orð er með mörgum n-um.
innskots-ð
auka-t
hástafs-e
Veikt d-hljóð heyrðist í orðinu.

Þetta á sérstaklega við ef orðið í heild myndar ákveðið hugtak:

n-ta (í n-ta veldi)
steins-reglan
i-hljóðvarp
ri-sagnir
na-kvenkynsorð
ypsílon-ey
ng-framburður
að- og hv-setningar

Ef heilt orð sem er til umfjöllunar er hluti af lengri samsetningu með bandstriki þá er þó einnig hægt að skáletra það. Yfirleitt er þó óþarfi að gera það þar sem strikið er nægilegt auðkenningarmerki í slíkum orðum.

Ýmis Þórs-örnefni eru algeng hér á landi.
Ýmis Þórs-örnefni eru algeng hér á landi.

Skáletrun heita

Gott getur verið að skáletra heiti tímarita, blaða, bóka, kvikmynda, listaverka o.s.frv. í texta til að auðkenna þau. Þetta á sérstaklega við þegar vísað er í ákveðnar útgáfur. Oft nægir þó stór stafur í heiti þeirra til aðgreiningar.

Hann var blaðamaður hjá New York Times í tíu ár.
Ritið var fyrst gefið út í Flateyjarbok (1860).

Hún var lengi áskrifandi að Morgunblaðinu.

Yfirleitt er óþarfi að skáletra almenn heiti verka ef ekki er vísað í ákveðna útgáfu.

Í Egils sögu eru margar vísur.
Grágás og Járnsíða eru elstu lögbækurnar.

Skáletrun útlendra orða

Þegar tilgreind eru nýleg eða framandi orð og hugtök er algengt að vísa í upprunalegt orð úr veitimáli innan sviga. Heppilegt getur verið og hefð er fyrir því að skáletra erlenda orðið til að greina það betur frá íslenska textanum.

æskilegt verð (e. desired price)


[1] Sjá Bringhurst (2002:124–125).

Birt þann 19. mars 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Bringhurst, Robert. 2002. The Elements of Typographic Style. Version 2.5. Hartley & Marks.

The Chicago Manual of Style. The Essential Guide for Writers, Editors, and Publishers. 2003. 15. útg. The University of Chicago Press: Chicago og London.

Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.). 2011. Handbók um íslensku. Reykjavík: JPV útgáfa.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021 (væntanlegt). Íslensk réttritun (rafbók).

Italic type. Í: History of Western typography. Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/History_of_Western_typography#Italic_type (sótt 22.1.2021)

Ludovico Vicentino degli Arrighi. Wikipedia. https://en.wikipedia.org/wiki/Ludovico_Vicentino_degli_Arrighi (sótt 22.1.2021)