Skip to main content

Pistlar

Sögustaðir tveggja sagnamanna í Sagnagrunni

Sagnagrunnur er gagnagrunnur yfir flestar íslenskar sagnir sem birst hafa á prenti. Í grunninum eru skráðar upplýsingar um rúmlega 10 þúsund sagnir úr 21 þjóðsagnasafni. Auk útdráttar og upplýsinga um í hvaða riti sögnin er prentuð má þarna finna lista yfir staði sem minnst er á í sögnunum ásamt upplýsingum um heimildarmenn og safnara og heimili þeirra. Viðmót grunnsins hefur ýmsa leitarmöguleika og býður meðal annars upp á birtingu á landfræðilegri dreifingu sögustaða og heimila.

Dreifing sögustaða úr sögnum ákveðinna sagnamanna birtir okkur gjarnan áhugaverð mynstur sem kalla á nánari skoðun. Hermann Jónasson (22. nóvember 1858 – 6. desember 1923) var búfræðingur og skólastjóri Búnaðarskólans á Hólum í Hjaltadal á árunum 1888 til 1896 og síðar alþingismaður fyrir Heimastjórnarflokkinn. Hann var heimildarmaður sjö sagna í þjóðsagnasafni Ólafs Davíðssonar, Íslenzkum þjóðsögum og var búsettur á Hólum þegar Ólafur skrifaði upp eftir honum sagnirnar.[1]


Sögustaðir í sögnum Hermanns Jónassonar. Heimili Hermanns er sýnt með grænum lit.

 

Ef dreifing sagnanna er skoðuð á korti sést að Hermann minnist á staði á Norðurlandi í sögnum sínum. Nokkrir eru í Skagafirði, nálægt heimili hans, en flesta staðina er þó að finna í Suður-Þingeyjarsýslu, frá Fossseli suður að Mýri í Bárðardal og í Reykjadal og Mývatnssveit.

Foreldrar Hermanns voru Sigríður Jónsdóttir (1828–1894) og Jónas Hallgrímsson „Brasilíufari“ (1822–1870). Sigríður er skráð til heimilis á Lundarbrekku í Bárðardal um 1852 en býr svo á Litluströnd í Mývatnssveit frá 1859 og hefur Hermann þá verið um eins árs. Jónas bjó víða í Suður-Þingeyjarsýslu, Hraunkoti í Aðaldal, Engidal og Víðikeri í Bárðardal og loks á Litluströnd í Mývatnssveit ásamt Sigríði konu sinni og Hermanni syni þeirra.

Þessi búsetusaga passar á ýmsan hátt við dreifingu sögustaða í sögnum Hermanns. Sögnin Huldufólkskýrnar er reynslusögn og fjallar um Hermann sjálfan og atburði sem eiga að hafa gerst í kringum bæinn Mýri í Bárðardal og virðist hann þá hafa verið þar í vinnumennsku. Sögnin Huldufólkshrúturinn fjallar um fjármanninn á Lundarbrekku, þar sem móðir hans bjó, og sögnin Brandur á Grænavatni fjallar um kynni bóndans á Grænavatni í Mývatnssveit við tröll, en bærinn Grænavatn er ekki langt frá Litluströnd þar sem Hermann var ungur að árum. Einungis ein sögn fjallar um staði í Skagafjarðarsýslu en það er sögnin Kaupstaðarferðin. Í þeirri sögn er tekið fram að atburðir í henni hafi átt sér staði í kringum 1880 eða nokkru áður en Hermann fluttist að Hólum. Þessi dreifing sögustaða Hermanns gefur ákveðnar vísbendingar um sagnasjóð hans og uppruna. Mögulegt er að Hermann hafi sumar sagnir sínar eftir foreldrum sínum, eða þær sem fjalla um staði í nágrenni heimila þeirra áður en Hermann fæddist.

Sumarliði Guðmundsson (21. desember 1843 – 27. janúar 1919) er heimildarmaður átta sagna í safni Ólafs Davíðssonar og einnar í safni Odds Björnssonar, Þjóðtrú og þjóðsagnir.[2]

Sumarliði þessi bjó á Örlygsstöðum í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Hann gegndi hlutverki landpósts og annaðist póstferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar á árunum 1882–1885. Síðar hætti hann að flytja póst frá Reykjavík og ferðaðist þess í stað milli Staðar í Hrútafirði og Akureyrar fram yfir aldamótin 1900.


Sögustaðir í sögnum Sumarliða Guðmundssonar. Heimili Sumarliða er sýnt með grænum lit.

 

Landfræðileg dreifing sagna Sumarliða endurspeglar að miklu leyti það svæði sem hann ferðaðist um lengst af. Sögustaðir í sögnum hans dreifast frá enda Snæfellsness austur að Mývatni en flestir staðirnir eru í Dalasýslu, Húnavatnssýslum og Skagafjarðarsýslu. Allmargir staðir í Strandasýslu koma fyrir en þeir koma þó allir úr einni sögn, Drauga-Hallur og Mussuleggur, en þar er Sumarliði einn af fimm heimildarmönnum. Þá verður líka að nefna að hinir mörgu staðir í Skagafjarðarsýslu tengjast allir sögninni Ábæjar-Skotta en sú sögn er einnig samsett úr mörgum heimildum og Sumarliði er aðeins einn af fimm heimildarmönnum. Í sögninni um Ábæjar-Skottu er meðal annars minnst á atburði sem gerðust er „Sumarliði póstur“ gisti á Silfrastöðum í Skagafirði og verður sjálfur fyrir því að einn hestur hans drepst og er Kúskerpisskottu kennt um. Á ferðum sínum sem landpóstur hefur Sumarliði gist víða og má ímynda sér að hann hafi tekið þátt í sagnaskemmtunum á kvöldvökum.

Hér hafa verið tekin tvö dæmi um það hvernig landfræðileg dreifing sögustaða getur gefið vísbendingar um uppruna og ferðir sagnafólks. Dreifingarkort eins og þessi ætti því ekki að túlka sem endanlegar niðurstöður heldur ákveðið upphaf á frekari heimildaleit.

 

[1] Sjá Ólafur Davíðsson, Íslenzkar þjóðsögur, II, 105; I, 81–82; I, 85–86; I 187–188; I, 216; I, 248–249; II

105; og IV, 240–241.

[2] Sjá Ólafur Davíðsson, Íslenzkar þjóðsögur, I 66; I, 284; II, 38–39; II, 236–237; II, 290; I, 377–382; I, 370–

375; I, 245–246 og Oddur Björnsson, Þjóðtrú og þjóðsagnir, 193-194.

Birt þann 27. febrúar 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Alþingi: Hermann Jónasson. Sótt 29. mars 2019 á https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=248

Íslendingabók. http://www.islendingabok.is

Minningargrein um Sigurjón Sumarliðason. Íslendingur, 23. júní 1954, 1. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=5164818

Ólafur Davíðsson. Íslenzkar þjóðsögur. 4 bindi. (3. útgáfa). Þorsteinn M. Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1978–1980.

Oddur Björnsson. Þjóðtrú og þjóðsagnir. Útg. Jónas Jónasson. (2. útgáfa, aukin). Ritstj. Steindór Steindórsson. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar, 1977.

Terry Gunnell og Trausti Dagsson. Sagnagrunnur: Kortlagður gagnagrunnur yfir íslenskar sagnir. http://www.sagnagrunnur.com