Skip to main content

Pistlar

„Þá munu geitur hverfa og hár vaxa“: Læknisráð í AM 673 a II 4to

„Tak svínasaur og brenn í nýrri grýtu og blanda með því hinu súrasta víni og þvo höfuðið í fyrst, en síðan rýð það á. En ef þetta gerir oft, þá munu geitur hverfa og hár vaxa“ – er meðal fjórtán læknisráða sem óþekktur skrifari á fjórtándu öld hefur bætt inn í eitt elsta myndskreytta handritið sem varðveitt er í safni Árna Magnússonar á Íslandi.

Handritið sem skrifarinn tók sér til handargagns í þessu skyni hefur safnmarkið AM 673 a II 4to. Það er talið vera frá því um 1200 og hefur því verið um 170 ára gamalt þegar skrifari læknisráðanna bætti texta sínum inn í það. Handritið inniheldur íslenska þýðingu á Physiologus (Náttúrufræðingnum), afar vinsælu latnesku riti með ríkulegum teikningum af dýrum og kynjaskepnum. Nánar er fjallað um Physiologus hér.

Handritið er alsett götum og illa farið af fúa. Á einni opnunni (6v–7r), fyrir neðan texta um fíla og teikningu af fíl, má finna læknisráðin fjórtán ásamt broti úr Fjallræðunni á latínu.

Lækningatextinn er nokkuð torlesinn vegna þess hve handritið er skemmt. Af tungumálinu og stafsetningunni hefur verið ráðið að ritunartíminn sé í kringum árið 1370. Marius Hægstad skrifaði textann upp eftir bestu getu og gaf út árið 1913. Hann getur þess að tungumálið beri einkenni frá suðausturhluta Noregs. Meðal innihalds eru eftirfarandi læknisráð, færð til nútímastafsetningar:

Tak urriðagall og súrt vín og am[b]ra, allt saman, og smyr umhverfis kviðinn. Þá batnar það.

Tak gall, rjóð umhverfis endaþarmsrauf. Þá mun saur leysast.

Tak rót af grasi því er sinfonika heitir og bitt við lær þitt. Þá mun brátt batna. Tak gras það er ruta heitir og blanda við vax og lát í klæði og legg við. Þetta rekur verk úr.

Læknisráðin eiga sér að hluta til samsvörun í öðrum íslenskum lækningahandritum frá miðöldum, svo sem AM 194 8vo, AM 434 a 12mo og MS 23 D 43. Þessar íslensku lækningabækur endurspegla evrópskan þekkingarheim þess tíma í læknisfræði, enda er efni þeirra að miklu leyti runnið frá þekktum evrópskum ritum. Efninu virðist að mestu hafa verið miðlað til Íslands í gegnum norskar þýðingar á verkum danska læknisins Henrik Harpestræng (d. 1244).

Ekki er vitað hver bætti þessum tuttugu og sjö línum af læknisráðum inn í handritið að Physiologus og því eingöngu hægt að geta sér til um ástæðurnar sem að baki liggja. Skrifarinn nýtti ritflötinn til fullnustu með því að skrifa þétt og fara út fyrir spássíur upphaflega textans. Læknisráðin snúa flest að meltingarkvillum og ýmsum verkjum, svo sem í höfði. Mögulega hefur eigandi handritsins komist í annað lækningahandrit og viljað nýta autt pláss í Physiologus til að afrita nokkur sérvalin ráð sem kynnu að gagnast honum sjálfum eða heimilismönnum.

Því miður er ekki hægt að rekja feril AM 673 a II 4to lengra aftur en til Illuga Jónssonar á Urðum (1660–1704) sem fékk handritið einhvers staðar á Vestfjörðum. Árni Magnússon fékk það í byrjun átjándu aldar frá séra Þórði Oddssyni á Völlum í Svarfaðardal. Það er nú varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík.

Höfundur: Brynja Þorgeirsdóttir

Birt þann 24. febrúar 2021
Síðast breytt 24. október 2023