Tvær ævintýralegar sögur sem nutu mikilla vinsælda á Íslandi á miðöldum birtast nú á prenti.
Í bókinni Meyjar og völd. Rímur og saga af Mábil sterku má finna þrjár gerðir Mábilar rímna sem eru frá fimmtándu, sautjándu og átjándu öld og fræðilega umfjöllun um efni þeirra og þróunarsögu. Konungsdóttirin Mábil sterka frá Vallandi er öllum fremri í riddaralistum. Hún drýgir miklar hetjudáðir í bardögum og var ein af fræknustu hetjum íslenskra bókmennta í 500 ár. Valgerður Kr. Brynjólfsdóttir er höfundur fræðitextans og bjó til útgáfu þrjár gerðir Mábilar rímna og Söguna af Mábil sterku og Móbil systur hennar.
Í Þorsteins sögu Víkingssonar greinir frá ævintýrum aðalhetjanna sem ferðast víða, afla sér fjár og frægðar og sigrast á margvíslegum hindrunum sem á vegi þeirra verða. Sagan er varðveitt í fjórum skinnhandritum, þremur frá fimmtándu öld og einu frá sextándu öld. Þórdís Edda Jóhannesdóttir bjó textann til útgáfu og ritar inngang.
Bókakynningin fer fram á kaffihúsinu Ými í Eddu þriðjudaginn 25. nóvember kl. 16.30. Boðið verður upp á kaffi og með því. Allir velkomnir.
