Skip to main content

Viðburðir

Sigurðar Nordals fyrirlestur: Pétur Gunnarsson rithöfundur: ,,Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð..."

14. september
2010
kl. 17–18


Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals hinn 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Fyrirlesturinn verður haldinn í Norræna húsinu. Fyrirlesari að þessu sinni verður Pétur Gunnarsson rithöfundur og nefnir hann fyrirlesturinn: “Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð...”

“Ef ég gæti ekki elskað þessa þjóð, eins og hún var nú og hafði verið á öllum öldum, með kostum hennar og göllum (og það var allt annað en elska gallana sjálfa), fannst mér ég vera ættjarðarlaus, ekkert hafa að verja, engin skilyrði til varna. (...) Ég varð að spyrja þess alveg hreinskilnislega, hvort Íslendingar væru ógæfuþjóð og ógæfa að vera fæddur meðal þeirra.”

Þannig spyr Sigurður Nordal í formála að Íslenskri menningu. Í lestri sínum hyggst Pétur Gunnarsson vitja þessarar yfirlýsingar að nýju og spyrja hvernig inntak hennar horfi við okkur nú.

Pétur Gunnarsson lauk meistaraprófi í heimspeki frá Université d'Aix-Marseille árið 1975. Fyrsta ljóðabók hans, Splunkunýr dagur, kom út 1973. Skáldsagan Punktur, punktur, komma, strik birtist 1976. Pétur hefur síðan verið mikilvirkur rithöfundur og þýðandi. Hann hefur einnig sent frá sér aragrúa greina um bókmenntir og menningarmál í tímaritum, skrifað um þjóðmál og menningarmál í dagblöð og haldið erindi á margvíslegum vettvangi.

Pétur var formaður Rithöfundasambands Íslands á árunum 2006–2010.

Fyrirlesturinn er í boði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

2010-09-14T17:00:00 - 2010-09-14T18:00:00