Skip to main content

Pistlar

Brúsa-nöfn

Birtist upphaflega í maí 2009.

Orðið brúsi lætur kunnuglega í eyrum flestra Íslendinga. Þeir sem vel eru komnir til vits og ára muna eftir mjólkurbrúsum af ýmsum stærðum og gerðum sem líklegast eiga nú orðið einkum samastað í byggðasöfnum landsins. Annars konar brúsar, sem geyma aðra vökva, eru enn í fullu gildi. Því fer þó fjarri að þetta sé eina merking orðsins. Auk þess að tákna ílát af tiltekinni gerð getur orðið merkt ‘himbrimi; stór, hrokkinn hárbrúskur; getnaðarlimur’ og í skáldamáli ‘hafur, björn, risi’. Þegar flett er örnefnaskrám í safni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum verða af og til fyrir örnefni sem mynduð eru með orðinu brúsi og skulu nú rakin nokkur dæmi.

Skammt frá bæ á Ármúla í Nauteyrarhreppi (N-Ís.) sprettur Brúsalind fram úr brekkum; þar var mjólk kæld að sumrinu. Í örnefnaskrá Brekku í Biskupstungum er nefnt tóftarbrot á bakka Andalækjar sem nefnist Brúsastaðir. „Var þar skiptistöð rjómapósta þá flutt var í rjómabú.“ Fleiri ílát en mjólkur- og rjómabrúsar koma við sögu. Þegar lagt var á Kleifaheiði af Barðaströnd til Patreksfjarðar – eða komið af heiðinni – lá vegurinn fyrrum meðfram svolitlu gili, Brúsagili. Þar mun hafa verið áningarstaður og nafnið talið dregið af því að þar hafi ferðamenn tekið til brennivínsbrúsa sinna (örnefnaskrár Brekkuvallar og Haukabergs, Barðastrandarhr., V-Barð.). Í örnefnaskrá Melabergs (Miðneshr., Gull.) eru nefndir Brúsastaðir, smáholt, sem fékk þetta nafn „fyrir löngu af því að þar var maður á ferð með glerbrúsa.“ Engum sögum fer af innihaldi þess brúsa.

Himbriminn er annar tveggja íslenskra fugla af brúsaætt – hinn er lómur – og til er að talað sé um þá fugla sameiginlega sem „brúsa“. Svo segir í bókinni Íslenskir fuglar (bls. 21): „Samheitið brúsi er fornt en er einnig notað norðaustanlands sem alþýðuheiti á himbrima.“ Af því heiti eru örnefni dregin. Brúsatjörn er í landi Blikalóns á Sléttu (N-Þing.) og í henni lítil töpp þar sem himbrimar hafa orpið. Í örnefnaskrá Grímsstaða við Mývatn koma fyrir Brúsatöpp (í Ytri-Eggjatjörn) og Brúsasker (í Sandvatni) og draga báðir staðir nafn af því „að þar verptu himbrimar, en þeir voru kallaðir brúsar hér um slóðir.“ Önnur Brúsatjörn er á Rifi, nágrannajörð Blikalóns, og hólminn Brúsi og Brúsavík á Skinnalóni þar fyrir austan, en skýringar fylgja engar í örnefnaskrám. Brúsatöpp er smátöpp í Víkingavatni í Kelduhverfi (N-Þing.) en tilefni nafnsins óþekkt. Nöfn þessi kunna að eiga uppruna sinn í fuglsheitinu en fleira getur komið til.

Himbrimi. Jóhann Óli Hilmarsson.

Brúsa-nöfn geta vísað til gróðurs af einhverjum toga. Í landi Stóru-Hámundarstaða við Eyjafjörð (Árskógshr.) er Brúsatjörn sem fékk nafn af því að þar fann Davíð bóndi Sigurðsson jurtina mógrafabrúsa (sparganium hyperboreum) sem er ein þriggja íslenskra vatnajurta af brúsakollsætt. Sonur Davíðs á Stóru-Hámundarstöðum var Ingólfur Davíðsson grasafræðingur. Brúsahvammur, stór og grösugur, er við Eyjafjarðará, í landi Tjarna í Saurbæjarhreppi. Annar samnefndur er hinum megin við ána, í Hólalandi, „vel grösugur blettur“. Sem fyrr segir er brúsi haft um stóran, hrokkinn hárbrúsk og í nýnorsku er til no. bruse sem er ‘stór og þéttur runni; hárbrúskur, e-ð stórt og úfið’. Vera kann að þar sé komin skýring á Brúsahvömmunum gróðursælu. Skylt orð er brúskur (eða brúski (17. öld)) ‘hártoppur, skúfur; knippi, t.d. af blómum eða heyi’, sbr. nno. brusk ‘þéttur grasskúfur, kjarrrunni, úfinn hártoppur’ og e. brush ‘runni’ eða ‘bursti’.

Klettur á Óshlíð við Bolungarvík er nefndur Brúsi eftir lögun sinni.

Í fjallgarðinum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar er nefnt Brosaskarð sem ekki er vitað hvernig til er orðið. Sú tilgáta hefur heyrst að þetta hafi verið Brúsaskarð, af orðinu brúsi í merkingunni ‘tröll’ sem er ein merking orðsins í skáldamáli.

Í landi Vindheima og Breiðabólstaðar í Ölfusi var Brúsavarða við alfaraleiðina milli þessara bæja og Litlalands og bar hana við loft frá Litlalandi séð. Hún kann að vera horfin, a.m.k. fannst hún ekki við örnefnaskráningu 1968. Önnur Brúsavarða er á svonefndum Brúnum í landi Reykja í Hrútafirði. Engar frekari upplýsingar eru um þessar vörður, en ekki ólíklegt að sú í Ölfusi a.m.k. sæki nafn sitt til ferða eða flutninga milli bæjanna.

Brúsahellir, allstór, er í Mjósundagljúfri á Felli í Suðursveit. Hann var notaður sem fjárrétt en skýring er engin á nafninu. Sögn er að jarðgöng hafi verið milli hans og Rannveigarhellis í Staðarfjalli, og til sannindamerkis um það átti köttur að hverfa inn í Brúsa, eins og segir í örnefnalýsingu Staðarfjalls, en koma út í Rannveigarhelli.

Brúsastaðir heita í Áshverfi, Ásahreppi (Rang.). Ummæli eru um að þar hafi útburður haldið sig en nánari lýsingu eða vitneskju er ekki að hafa í örnefnaskrá.

Í Áshreppi (A-Hún.) er bærinn Brúsastaðir. Þar er Brúsahóll í túni og var sagt að karl, sem Brúsi hét, hefði þar fólgið gull sitt, og hafa gengið sögur um tilraunir manna til fjársjóðsleitar. Aðrir Brúsastaðir eru í Þingvallasveit. Engum sögum fer af uppruna þess nafns. Að lokum má nefna býlið Brúsastaði í Hafnarfirði. Samkvæmt því sem segir í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar um Hafnarfjörð þarf ekki alltaf stórviðburði til að nafn spretti fram. Býli þetta, sem hét áður Litla-Langeyri, hafði legið í eyði um nokkur ár þar til aftur var byggt 1890. Þegar grafið var fyrir veggjum kom upp leirbrúsi og þar af var nafnið dregið. Á vefsíðu Brúsastaðaættar er önnur skýring sett fram, sú að þarna hafi áður verið mikið um fugla þá sem nefndust brúsar og nafnið sé þaðan komið. Ekki verður reynt hér að skera úr um hvort rétt muni vera.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
Brúsastaðir: http://brusastadir.homestead.com/brusastadir.html
Byggðir Eyjafjarðar 1990. I. Akureyri 1993.
Fuglavefurinn: http://www1.nams.is/fuglar/details.php?val=1&id=40
Íslensk orðabók. Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda útgáfa hf. Reykjavík 2007.
Íslenzkir samtíðarmenn. I. Reykjavík 1965.
Magnús Jónsson: Bær í byrjun aldar. Hafnarfjörður. [Hafnarfjörður] 1970.
Náttúrufræðistofa Kópavogs: http://www.natkop.is/page2.asp?flokkur­brusar
Stefán Stefánsson: Flóra Íslands. 3. útg. aukin. Akureyri 1948.
Sören Sörenson: Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi. Reykjavík 1984.
Ævar Petersen: Íslenskir fuglar. Reykjavík 1998.
Örnefnaskrár í safni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.