Skip to main content

Pistlar

Handrit frá Háeyri − AM 461 12mo

Í Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík er að finna handrit með safnmarkinu AM 461 12mo frá því um miðja 16. öld. Það er uppskafningur, sem merkir að eldra skinnhandrit hefur verið skafið upp, svo að hægt væri að skrifa á það að nýju. Ummerki um litaða titla og upphafsstafi sjást í handritinu og hefur þar verið upphaflega latneskur texti. Árni Magnússon skrifaði eftirfarandi á seðil sem fylgir handritinu: „Þetta hefi eg fengið til eignar hjá Þorsteini Eyjólfssyni á Háeyri.“ Handritið er 72 blöð. Þorsteinn var fæddur um 1645 og lifði fram um 1714.

AM 461 12mo, bl. 63v– 64r. Í handritinu er margvíslegt efni, m.a. rím en einnig bænir á íslensku og latínu, m.a. Rósakrans fransiskana um líf Krists, Ave-bænir og brynjubæn. Einnig eru í handritinu nótur úr kaþólskri söngbók. Á þessari opnu er textinn útdráttur úr lögum. Ljósm. Jóhanna Ólafsdóttir. Efni handritsins er af ýmsum toga. Þannig lýsti Jón Ólafsson úr Grunnavík efni þess í skrá sinni um handrit Árna Magnússonar 1730: „Rímbeigla. Þar inn í skotið málrúnum, en aftan við eru nokkrar galdralækningar, transskriftarbréf, kveisustefna og bænir í móti aðskiljanlegu í latínu og íslensku. Item til Christum, Maríu og fleira af soddan rugli. Um föstuganga. Skriftir. Úr Kristinr(étti) og lögum aðskiljanleg excerpta. Membr. óinnb.“

Kristian Kålund skráði efnið með nákvæmari hætti í skrá sinni (Katalog 1889) og er því efnisyfirliti fylgt hér að neðan með nokkrum viðbótum:

Bl. 1−29.  Rímtal og ýmiss konar fróðleikur, sem er:

  1. 15v Magísk nöfn guðs: Mathos, Iathos, Satos, Natos, Datos. Þar er og Sator-ferningurinn: Sator, arepo, tenet, opera, rotas.
  2. 15v−16r Rúnanöfn með umritunum.
  3. 16r−17r Dies mali (dismaladagar) (þ.e. illir dagar) á íslensku. (Alfræði íslenzk III, 119; Sbr. Árni Björnsson, Saga daganna, 489).
  4. 17r Nöfn Austurvegskonunga. (Alfræði íslenzk III, 23; Sbr. Ólafur Halldórsson, Grettisfærsla, 314−315).
  5. 17r−18r Teikn fyrir dómadag, á íslensku.
  6. 18r−20r Minnisþulur (?)
  7. 23v−24r Jólaskrá. (Sbr. Árni Björnsson, Saga daganna, 26, 385).

Bl. 30r−55r.  Ýmis lækningaráð og formúlur (að hluta með leyniskrift), þulur, bænir og blessanir, á íslensku með latneskum innskotum. Sumt af þessu efni (af bl. 30r−52v) er áður prentað í Alfræði íslenzk III í útgáfu Kristian Kålund, Kmh. 1917, bls. 109−119, sbr. og Fortale, XVII−XVIII.

Bl. 55v−68.   Útdráttur úr Kristinrétti og kanónískum rétti o.fl.

Bl. 69r−72v.  Maríusálmar með nótum. Á latínu.

Þennan síðasta hluta handritsins, Maríusálmana, hefur Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur skrifað um í rit Listaháskóla Íslands, Þræði, tímarit um tónlist, undir heitinu „Uppskafningur handa Maríu mey“, tölublað 1, 2016, https://thraedir.wordpress.com/tolublad-1/.

Hér verður fjallað nánar um þann hluta handritsins sem hefur að geyma bænir og skylt efni á bl. 33r−55r. Textar þessir margir hverjir verða senn gefnir út í ritinu Íslenskar bænir fram um 1600 sem undirritaður hefur búið til útgáfu. Fyrst er að nefna transskriftarbréf sem engill guðs færði Leó páfa, í öðrum heimildum nefnt himnabréf. Bl. 33r−34r

Síðan eru nöfn Jesú ásamt latneskum frösum og bænastúfum út bl. 34r.

Rósakrans fransiskana um 33 æviár Krists hefst á 34v.  Á bl. 36r er latneskur texti sem Kålund kallar „en forvansket latinsk bøn“ en virðist vera upphafsorð fimm versa sem hefjast á Ave, sem voru algeng vers á miðöldum.

Guðs nöfn eru talin upp á 37v, kirion, iskiros, hot, messias, emanuel, saluator, adonai o.s.frv.

Á bl. 38v er texti sem tengist Cecilíubæn í Mírmanns sögu.

Á bl. 39r hefst Rósakrans Maríu en sex efstu línurnar eru mjög máðar. (Sbr. Guðbjörg Kristjánsdóttir, Sjö A fyrir Ave-vers. Árbók Fornleifafélagsins 92 (1993), 88 og 95).

Á bl. 43r er Erasmusbæn á íslensku og á eftir henni latneskur texti út bl. 44r.

Á bl. 46r er texti með þessu upphafi: „Sú er þýðing um engla vors herra Jesú Kristus hver er fylgir þeirra nöfnum að hver sem þau ber á sér og í hug hefur mun hjálpast og sigra alla hluti.“

Á bl. 47r hefjast bænir á latínu með leiðbeiningum á íslensku hvenær lesa skuli.

Á bl. 48v er góð bæn, sem einnig er að finna í AM 434 b 12mo.

Brynja heitir bæn sem birtist á latínu á bl. 49r. Þessi brynjubæn eða lorica er náskyld síðari hluta bænar Brendans hins írska (Oratio Sancti Brendani).

Á bl. 50r er Góð bæn á latínu.

Á bl. 50v er latnesk Ágústínusbæn, Deus, qui *nosti occulta cordis ... sem Magnús Már Lárusson taldi að væri bænarjátning (apologia) og gæti verið stytt gerð af bæninni Deus iustitiæ deprecor ... (Íslenzk tunga 2, 112). Bænarjátning kom í stað skrifta í katólskum sið.

Á sömu bls. í handritinu er einnig Erasmusbæn á latínu.

Á bl. 52v−55r eru Maríubænir, fimm að tölu.

Árni Heimir Ingólfsson segir í grein sinni um handritið í aftanmálsgrein 4: „Áhugavert er að fyrrum eigandi handritsins, Þorsteinn Eyjólfsson, virðist hafa verið áhugamaður um Maríukveðskap. Í safni Árna Magnússonar er handrit með hendi Þorsteins þar sem skrifuð eru upp tvö gömul Maríukvæði (AM 719c 4to, sjá Kålund, Katalog, 143–44). Þorsteinn átti einnig annað gamalt handrit (AM 154 4to), og skrifaði auk þess sjálfur AM 113f fol.“ 

Þorsteinn sem var lögréttumaður hefur líklega verið meira gefinn fyrir bækur en búskap, því að Jón Espólín hefur þessi orð um hann: „Búnaðist lítt.“ Þorsteinn var um tveggja ára skeið ráðsmaður í Skálholti og kann að hafa haft handritið þaðan.  Ekkert er þó vitað með vissu hvar handritið er upprunnið eða hvar það hefur verið fyrr en það kom að Háeyri. Þorsteinn Eyjólfsson var prestssonur frá Lundi í Lundarreykjadal, en móðir hans Katrín Einarsdóttir var 3. ættliður frá séra Ásgeiri Hákonarsyni (um 1516−1571) presti á Lundi, sem var því uppi á ritunartíma handritsins. Ásgeir var prestur á Lundi frá 1542 til æviloka og var því fyrsti lúterski presturinn þar. Hann var sonur Hákonar Björgólfssonar sýslumanns á Fitjum en um móðernið ríkir óvissa. (Borgfirzkar æviskrár I, 199−200). Kirkjan á Lundi var Maríukirkja, helguð Maríu guðsmóður (Íslenzkt fornbréfasafn III, 248−249). Ásgeir var talinn auðugur á sinni tíð, og er sagt um hann að honum „búnaðist vel“. Hann eignaðist 13 börn. Tilgáta mín er sú að hann hafi látið gera handritið AM 461 12mo og að það hafi síðan gengið til dóttur hans og síðan í kvenlegg áfram þar til Þorsteinn hafi eignast það eftir móður sína. Handrit af þessu tagi voru oft í eigu kvenna. Um ætt Ásgeirs Hákonarsonar má lesa í Ættartölusafnriti séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I, 472 o.áfr.

 

Ásgeir Hákonarson prestur á Lundi, kvæntur Ingibjörgu Guðmundsdóttur

                                                                                                                      I

Ragnhildur Ásgeirsdóttir (f. 1545) gift Sigurði Jónssyni lögréttumanni í Einarsnesi

                                                                                                                      I

Halla Sigurðardóttir (f. 1570) gift Einari Teitssyni í Ásgarði

                                                                                                                      I

Katrín Einarsdóttir (f. 1620) gift séra Eyjólfi Jónssyni á Lundi

                                                                                                                      I

Þorsteinn Eyjólfsson á Háeyri.

 

Jón Ólafsson úr Grunnavík nefnir í bókmenntasögu sinni að Ingibjörg Ásgeirsdóttir (1555−eftir 1643), dóttir séra Ásgeirs, hálfsystir Ragnhildar, hafi kennt bæði drengjum og stúlkum á sinni tíð (Guðrún Ingólfsdóttir 2016, 106) sem sýnir að menntir hafa verið stundaðar á Lundi í uppvexti hennar.

Bænakafli handritsins sýnir hversu margt af kirkjulegu efni barst til Íslands, og má taka undir með Magnúsi Má Lárussyni, þegar hann segir „að mönnum úti hér var kunnur hinn óhemjumikli bænaarfur kirkjunnar“ ... „og ljóst, að ákveðnar gerðir bæna, svo sem brynjubænir og bænarjátningar, sem tengdar eru einkum við Frakkland og Bretlandseyjar, voru tamar mönnum hér“ (Íslenzk tunga 2, 113). Ekki er ólíklegt að prestur sem alinn var upp við katólskan sið en gerðist lúterskur hafi viljað varðveita ýmislegt úr katólskum arfi kirkjunnar og því safnað saman ýmsu efni í handrit eins og AM 461 12mo. Séra Ásgeir tók þátt í prestastefnu þeirri í Miðdal í Laugardal sem Gissur Einarsson boðaði til áður en hann hélt til Kaupmannahafnar til biskupsvígslu 1542. Ásgeir var á fyrsta prestskaparári sínu og undirritaði þar ásamt 27 öðrum prestum kirkjuskipan Kristjáns 3. konungs. Um atburði þessa árs segir í Biskupasögum Jóns Halldórssonar í Hítardal á þessa leið: „Á þessu ári, 1542, tók Gizur bp. sér alvarlega fyrir hendur að byrja reformatiuna, fyrirbjóða og aftaka papiskan lærdóm, messur, vigiliur, hégómlegan tíðalestur, talnasöngva og annað því líkt í Skálholtsstipti, en framfylgdi aptur á móti hreinni guðs orða kenningu ...“ (I, 28−29).

Ekkert í handritinu verður þó tengt beint við Lund eða ætt séra Ásgeirs og því er það hrein tilgáta að það sé þaðan komið. Það sem einkennir handritið eru textar af margvíslegu tagi sem geta talist í ætt við syrpur sem algengar voru á 16. og 17. öld og ekki síst konur áttu, með trúarlegum og fróðleiksríkum textum. (Sbr. Guðrún Ingólfsdóttir, 199 o.áfr.).

Birt þann 1. apríl 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Alfræði íslenzk III. Landalýsingar m.fl. Udgivet ved Kr. Kålund. Kbh. 1918.

Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Rvk.

Árni Heimir Ingólfsson. 2016. Uppskafningur handa Maríu mey. Þræðir, tímarit um tónlist, tölublað 1. https://thraedir.wordpress.com/tolublad-1/.

Borgfirskar æviskrár I. Safnað hafa og skráð: Aðalsteinn Halldórsson, Ari Gíslason, Guðmundur Illugason. Akranesi 1969.

Guðbjörg Kristjánsdóttir. 1993. Sjö A fyrir Ave-vers. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 92.

Guðrún Ingólfsdóttir. 2016. Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar. Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 20. Rvk.

Íslenskar bænir fram um 1600. Svavar Sigmundsson bjó til útgáfu. 2018. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 96. Væntanlegt.

Íslenzkt fornbréfasafn III. Kmh. 1896.

Jón Halldórsson. 1903−1910. Biskupasögur Jóns Halldórssonar. Skálholtsbiskupar 15401801. Sögurit II. Rvk.

Jón Ólafsson úr Grunnavík. 1730. Catalogus Librorum B.M. Viri Nobilissimi Amplissimi et Doctissimi Arnæ Magnæi.

Kålund, Kristian. 1892. Katalog over Den arnamagnæanske Håndskriftsamling. Andet binds 1. Hæfte. Kbh.

Magnús Már Lárusson. 1960.  Doktorsvörn. Íslenzk tunga 2.

Ólafur Halldórsson. 1990. Rímbeglusmiður. Grettisfærsla. Safn ritgerða eftir Ólaf Halldórsson gefið út á sjötugsafmæli hans 18. apríl 1990. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Rit 38.

Ættartölusafnrit séra Þórðar Jónssonar í Hítardal I−II. Guðrún Ása Grímsdóttir annaðist útgáfu. 2008. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 70.

www.islendingabok.is.