Skip to main content

Höfundur Eddu

Ég hlaut að sæta þeim örlögum að verða fyrsti doktor frá Háskóla Íslands, sem útskrifaður var af konu sem deildarforseta, Helgu Kress, fyrstu konu sem kosin var deildarforseti í Háskóla Íslands frá stofnun hans 1911. Í lok ávarps míns við upphaf athafnarinnar var brugðið á léttara hjal og orðum beint að forseta og sagt:

„Ég er fullviss að deildarforseta þykir fengur að ég segi frá uppruna nafnsins Edda. Í formála Snorra-Eddugerðar, sem Dalamaður að nafni Pétur Þórðarson skrifaði á 17. öld og Árni Magnússon kallaði Hraundals-Eddu (AM. 166 a, 8vo), segir svo í formála um uppruna nafnsins Edda.“

Síðan las ég upp hluta af kafla úr formála Hraundals-Eddu, upphaf fyrstu niðurfellingar úr honum. Niðurlagsorð mín voru: „Nú vitum við hvernig Snorra-Edda varð til og einnig allt um uppruna nafnsins Edda og þurfum ekki lengur að vera í vafa. Þessari skáldkonu hefur þó lítt verið á loft haldið.“ Hér mætti nú nefna (deildarforseta til áminningar) að þessarar skáldkonu er ekki getið meðal skáldkvenna í Máttugum meyjum (1993).

Þá var mér ekki kunnugt um athugun á handritum þessarar gerðar Eddu eða prentun á pörtum úr formálanum. Nýlega benti Haukur Þorgeirsson mér á að Finnur Jónsson hefði látið prenta töluvert af formála Hraundals-Eddu í upphafi III. bindis á útgáfu Snorra-Eddu frá 1887. Þar er nokkuð um ung handrit og m. a. um handrit fyrrnefndrar Eddu, sem er kunn í þremur handritum, en fyrir utan 166 eru þau: AM. 161, 8vo; AM. 252, 8vo. Eftir 166 a gaf Finnur Jónsson út hluta formálans í fyrrnefndu III. bindi s. cv–cvii. Sú bók er merkilegust fyrir það að hún er seinasta útgáfa í norrænum fræðum með formála á latínu. Finnur Jónsson taldi texta Hraundals-Eddu vera að hluta til úr Laufás-Eddu og Uppsalabók. Mesta athugun á Hraundals-Eddu er í inngangi að Eddu Magnúsar Ólafssonar (Laufás-Eddu) (s. 28–29) eftir Anthony Faulkes. Þar rekur hann nokkuð heimildir textans, og telur Faulkes að í upphaflegri gerð Hraundals-Eddu hafi ekkert verið úr Laufás-Eddu. Við lauslega athugun virtust handritin 161 og 252 stundum standa saman gagnvart 166, en að öðru leyti er orðamunur óverulegur. Annars fer því fjarri að pappírshandrit Snorra-Eddu hafi verið rannsökuð nægjanlega og á það ekki síst við um formálana að Eddunum. Fræðikonur, og jafnvel fræðikarlar, geta reynt að finna meiri og fleiri heimildir um skáldkonuna Eddu. Á frásögnin sér fornar rætur eða er þetta 17. aldar tilbúningur? Annars er athyglisvert að hér er talað um að Snorri Sturluson hafi lagfært eldri Eddu. Þetta er í samræmi við það sem Jón lærði sagði þegar í Grænlands annálum upp úr 1620 og fram kemur einnig í Samantektum um skilning á Eddu, samanber Eddurit. I. s. 339 og tilvísanir þar.

Fremst í handritinu AM. 166 a, 8vo stendur: „EDDA | GRVNDVØLLVR OG AST|ÆDA NORÆNV SKALLDS<K>AP|AR IÞROTTAR: TIL | LESARANS:“ Á eftir koma þrjú erindi undir fornyrðislagi. Upphaf sjálfs formálans þar hljóðar svo, en hér er stafsetning færð til nútímahorfs. Niðurfellingar Finns Jónssonar úr textanum verða hér skáletraðar. Lærdómsríkt er að sjá hverju hann taldi rétt að sleppa.

Formálinn:

„Bók þessi hefur um langan aldur verið kölluð alminnilega EDDA en þó þeir fæstir eftir minni meiningu, sem vitað hafa, af hvörjum rökum henni hefur þetta nafn gefið verið, en það mun þó líklegt að þetta heiti sem öll orð önnur sem fróðir menn og skyngefnir hafa í tíðkan haft muni af einhvörri ástæðu upp runnið.[1] En sú er saga til þess að kóngs dóttir var á Gautlandi í fornum sið sem hét Edda: Hún þótti meiri skörungur á viturleg ráð og mörg slungin snilldarbrögð og mest á mennt og bókfræði, en nokkur mey eður kona henni samtíða. Hún var uppi skömmum tíma síðar, en Óðinn og Æsir komu af Asía hingað í Norðurlönd og tóku þau undir sína stjórn, og sakir sinnar speki ritaði hún í saman tekna frásögu skipti þeirra Gylfa kóngs í Svíþjóð (er nefndur er Gangleri) og Æsa, er Gylfi for til Valhallar og sagnir þær er honum voru sagðar, og villingum þeim er fyrir honum voru kastaðar, en eftir því sem Edda segir, að Æsir sjálfir staðfestu þessar sagnir þá er þeir skildu við Gylfa upp á það að einginn skyldi efast þá fram liði stundir að þeir væri guðir, og menn legði sanntrúnað á sagnir þeirra hvað raun gaf vitni með djöfulsins umstilli, að Norðurálfan trúði Þór og Óðin og aðra Æsi sanna guði vera, og allar frásagnir um Valhöll og það annað, létu þeir staðfestu sinnar trúarástæðu og heimvonar annars heims, sem augljóst er af frásögunum, en síðan er skáldskapar íþrótt hófst af Braga, og samræðu þeirra Ægis eftir hann tóku fornskáldin kenningar hér af til fegurðar huldu sinnar ljóða listar, eður vottuðu til sinnar trúar meiningar, eður (ef kallast mætti) til sinnar guðspjallabókar Eddu er þeir nefndu eftir fyrrnefndri kóngsdóttur,[2] sem allvíða hefur verið háttur, bæði um heiðnar bækur og kristnar, jafnvel í biblíunni sjálfri, að bækurnar voru nefndar eftir sínum meistara: En þeir Æsir í Gylfaginningum gjöra langa frásögn um ragnarökur er þeir setja fyrir heimsenda, má ekki undur kalla þó þeir þar rök spinni af Trójumanna orustum, því Óðinn var kominn af Trójumönnum að langfeðgatali, enda er það sú historía sem nafnfrægust er eigi af því sem við hefur borið meðal heiðinna manna. En þá fram liðu stundir fór so um þessa skáldskapar íþrótt sem allar aðrar það iðnin eykur alla mennt, tóku þá höfuðskáldin að leggja við mörg önnur dæmi, bæði þau sem skeð höfðu með Ásum og so með öðrum fornkóngum og öðrum frægðar tilburðum og drógu þessi dæmi til skáldskaparkenninga. Fór so fram langar tíðir að hin yngri skáldin kváðu eftir dæmum þeirra eldri, en ekki hef eg fundið að þessar kenningar hafi verið skrásettar síðan Edda ritaði Gylfaginningar og allt þar til Snorri Sturlason ritaði sína Eddu þá sumir menn hafa allt hér til með höndum haft. Snorri var skáld gott, vitur maður og margfróður, hann nam fróðleik í Odda hjá Jóni Loftssyni sonarsyni Sæmundar fróða: Sakir sinnar visku fór honum sem hyggnum húsasmið sem hús vill setja á fornar tóftir að hann leitar ekki aðeins að ná gömlum grundvelli, heldur skoðar hann og lagfærir, ef undirstöðurnar eru skrikaðar,[3] því telur Snorri fyrst sín rök af sköpun allra hluta, síðan hvörninn villur hófust með fjölgun mannkynsins og sundurdreifing þjóðanna allt til þess hann leiðir sitt mál með skikkanlegum hætti og ættartölu að öðru og skiptum þeirra Ganglera sem Edda hefur ritað, síðan um samtal þeirra Braga og Ægis í Hlésey. Síðan setur hann fram kenningar nöfn allra hluta og dulin heiti skáldskapnum til undirstöðu, og síðast allra form bragarháttanna, þetta allt sýnandi með sönnum röksemdum, af vísum og kvæðum fornskáldanna, og hvör Snorri hefur verið að lærdómi og undirstöðu, ber hér skálda allra ljósast vitni.[4] En af því að þessi bók Edda er í tvenningu með orða atvika mun og setningu hjá oss með höndum höfð, þó af sömu efni og undirstöðu rísi, þá hefur verið og er meining manna að einhvör fróður maður muni sér hafa fyrir hendur tekið að endurbæta og ljósari gjöra Eddu Snorra þar hann mjög stuttlega fer yfir frásögurnar, og þeim hinum seirni (kann ske) þótt henni nógu mikið rekið í forn skáldakvæðin, hvað nú um nokkra manns aldra sakir alvenju brúkunar mætti þarflaust virðast. Enn hvör þessa síðari endurbæting Eddu gjört hefur, kann eg valla með sannindum segja, flestra meining er það hafi verið Loftur skáld Guttormsson á Möðruvöllum: Og fyrr sagðan mismun[5] hef eg mér fyrir hendur tekið (þó kann ske lítið nytsemdarverk sýnast megi, þessar báðar Eddur að forlíka, og það af báðum saman í eitt draga sem hentast þætti, og virðist mér sem hvör þeirra aðra uppbæti en í öngri grein niður brjóti: Viljandi mér hér í öngrar lofdýrðar leita, heldur þeim til greiðari aðgangs og glöggvari undirstöðu sem þessa íþrótt elska vilja og að höfuðskáldanna grundvelli grensla, so sem Eysteinn kvað:

Varðar mest til allra orða
undirstaðan sé réttleg fundinn:

Hér neyðist eg til að geta þeirrar rangvirðingar og ómaklegs ámælis sem þessi Edda hefur nú um stundir fyrir orðið af sumum hvörjum, og jafnvel þeirra sem í skáldatölunni látast loðað hafa, sem er um drafl og ósannindi, en þó í sínum kveðskap fegnir orðið á hennar uppreista skorðu ýmsum olbogum styðja.“

Lengra verður hér ekki prentað úr formála Hraundals-Eddu í 162. Það sem á eftir kemur er ekki um skáldkonuna Eddu, heldur meira um skáldskaparlist og vitnað í mansöngva rímna eftir Björn Jónsson á Skarðá, en Finnur lét ekki prenta það, en aftur á móti er niðurlag formálans prentað. Eins og áður sagði er hér prentað með skáletri það sem Finnur felldi niður í prentuninni og geta lesendur dregið sína lærdóma þar af. Greinilegt er að ég hef ekki farið með neitt fleipur þegar ég sagði: Þessari skáldkonu hefur þó lítt verið á loft haldið.

Birt þann 22.06.2018
Heimildir

[1] Við upphaf niðurfellingar stendur framan við sex punkta: (Hic fabula de regina Gothica Edda sequitur, quam hic scribere non opus est.) Þetta útleggst svo:Sagan um Eddu drottningu Gauta fylgir sem ekki er nauðsynlegt að skrifa.

[2] Hér eru sex punktar til merkis um, að fellt hafi verið úr textanum.

[3] Hér stendur á undan fjórum punktum: (Jam Eddæ argumentum recenset). Þetta útleggst: Nú er sagt af grundvelli Eddu.

[4] Hér stendur á undan fjórum punktum: (Deinde de nova quadam recensione diserit itaque pergit). Þetta útleggst: Því næst er rætt um nýja gerð og síðan heldur áfram.

[5] Hér stendur: (¼: inter veterum et novam recentionem). Þetta útleggst: Milli gamallar og nýrri gerðar.