Skip to main content

Jórunnir tvær

Málverk: Peter Nicolai Arbo (1868); heiti myndar: 'Ingeborg'. (Friðþjófs saga frækna). 

Í íslenskum fornbókmenntum er að finna margar eftirminnilegar kvenpersónur en ekki hafa þær allar hlotið verðskuldaða athygli. Má þar nefna konur sem stilla til friðar og letja menn sína til hefnda. Beinum nú kastljósinu að tveimur slíkum persónum sem báðar heita Jórunn.

Í Laxdæla sögu kynnumst við Jórunni Bjarnardóttur, konu Höskuldar Dala-Kollssonar, „væn kona og ofláti mikill. Hún var og skörungur mikill í vitsmunum. Sá þótti þá kostur bestur í öllum Vestfjörðum“ (9. k.). Jórunn stjórnar búi þeirra hjóna af hyggjuviti en þykir skapstór. Lesendur muna eftir stormasömum samskiptum Jórunnar við Melkorku, frillu Höskuldar, en í öðrum hluta sögunnar er dregin upp mun jákvæðari mynd af Jórunni og því, hvernig hún beitir vitsmunum sínum og sannfæringarkrafti til að koma í veg fyrir blóðsúthellingar.

Í 19. kafla er sagt frá deilum Höskuldar Dala-Kollssonar við Hrút hálfbróður sinn í kjölfarið á því, að sá síðarnefndi gerir tilkall til arfs eftir föður þeirra, hrifsar til sín land bróður síns og drepur nokkra húskarla þeirra hjóna. Höskuldur vill láta hart mæta hörðu og er í þann mund að æða af stað að drepa Hrút en Jórunn heldur þá hvassa ræðu yfir manni sínum sem fær hann til að hika. Jórunn bendir á að Hrútur sé gæddur miklum mannkostum og því sé ekki von á öðru en að hann muni vera erfiður andstæðingur. Í öðru lagi telur hún að það sé engin furða að Hrútur hafi gert tilkall til arfsins miðað við ætterni hans. Að lokum bendir Jórunn á að Hrútur hafi undanfarið skeggrætt við sveitunga þeirra og líklega muni hann hafa tryggt sér stuðning þeirra gegn Höskuldi.

Jórunn leggur til að Höskuldur sættist heldur við Hrút og bjóði honum sættir og eignir, „því að þar er fangs von af frekum úlfi“, þ.e. annars gæti hann orðið hættulegur andstæðingur. Næst stendur í sögunni að „Höskuldur sefaðist mjög við fortölur Jórunnar. Þykir honum þetta vera sannlegt“ og ekki urðu frekari deilur milli þeirra bræðra.

Í Áns sögu bogsveigis segir frá annarri Jórunni, konu söguhetjunnar Áns, sem varar einnig bónda sinn við hættulegum gestum: nýjum vinnumönnum sem andstæðingur Áns, Ingjaldur konungur, gerir út af örkinni til að ráða hann af dögum. Ólíkt Áni þá grunar Jórunni vinnumennina um græsku og bendir honum á að í „hvert sinn er þú gengr frá rúmi þínu, þá sjá þeir eptir þér ok bregða lit við“ (6. kafli). Í fyrstu talar Jórunn fyrir daufum eyrum en að lokum lætur Án sér segjast. Því næst kemst Án í hann krappan því menn konungs ráðast á hann, en hann nær að snúa á þá enda var hann tilbúinn árás vegna viðvarana Jórunnar. Fyrir lokaviðureign þeirra konungs mælir Án að „opt finnst þat á, at ek er vel kvángaðr“ (7. k.) og þar með þakkar hann Jórunni fyrir líf sitt og velgengni.

Þessar tvær Jórunnir eiga það sameiginlegt að vera vitrir mannþekkjarar, þær sjá undir yfirborðið og setja hegðun fólks í samhengi. Þær vara menn sína við að taka áhættu í samskiptum við andstæðinga sína og hvetja jafnvel til sátta. Ólíkt konum sem eggja til hefnda er markmið þessara kvenna að halda friðinn og koma í veg fyrir blóðsúthellingar, og þeim er heldur umhugað um líf manna sinna en heiður þeirra og fjölskyldunnar.

Birt þann 22.06.2018
Síðast breytt 22.06.2018