Skip to main content

Pistlar

Kók er íslenska heitið á gosdrykknum Coca-Cola™ en er að einhverju leyti notað um kóladrykki almennt, óháð því hvert vörumerkið er. Orðið er sprottið af fyrri hluta erlenda vörumerkisins sem hefur verið lagað að íslenskum framburði og stafsetningu. Það er einnig til marks um aðlögun orðsins að íslensku málkerfi að það beygist í samræmi við semhengið sem það birtist í og tengist auðveldlega við aðra orðstofna í samsettum orðum eins og kókflaskakókskiltikókverksmiðja o.fl.

Aldur og uppruni

Nafnorðið kók er ættað úr amerískri ensku. Það er sprottið af vörumerkinu Coca-Cola™ sem lagaðist að íslensku sem kókakóla (sjá m.a. Ritmálssafn Orðabókar Háskólans) og síðar styttist það í kók.

Gömul kókauglýsing

Orð sem vísa til ákveðinnar framleiðsluvöru er yfirleitt hægt að aldursgreina nákvæmlega og vitað er að kókakóla varð til í Bandaríkjunum árið 1886. Á Íslandi var farið að framleiða þennan gosdrykk árið 1942 og orðmyndin kókakóla tók að birtast í íslenskum blöðum og tímaritum strax vorið 1943. Hún var fyrst um sinn ríkjandi í textum en elsta dæmið sem fundist hefur um stytta mynd heitisins er úr auglýsingu sem birtist í Morgunblaðinu snemma árs 1946: „Biðjið um ”Kóka”“. Þarna er sennilega bara um íslenskan rithátt af fyrri hluta orðsins kókakóla að ræða en smám saman varð stuttmyndin kók almenn í íslensku. Elstu dæmi um orðið kók taka að skjóta upp kollinum á árunum 1947-1950. Á þeim tíma er það oftast auðkennt með gæsalöppum til merkis um að orðið sé nýtt og e.t.v. framandi.

 • „Diddi, ætlarðu að blæða á mig einum kók?" (Að blæða einum,,kók" á einhvern þýðir það sama og að bjóða einhverjum upp á flösku af coca-cola). (Þjóðviljinn 1947)
 • Unglingarnir okkar eru samkvæmt síðustu skrifum og ræðum orðnir siðprúðasta æska veraldar. Fara hreint ekki niður á „bar" eða „sjoppur" að fá sér „kóka" eða „shake" í staðinn fyrir að lesa lexíurnar sínar. (Spegillinn 1948)
 • Síðan var þessi ódáinsveig þynnt út í „kóki" og drukkin skál! (Stúdentablaðið 1949)
 • Bandalag kvenna skoraði á okkur mæðurnar að láta börnin hafa með sér brauð og mjólk í skólann, svo þau slippu frá því að borða vínerbrauð og sitron eða „kók". (Nýtt kvennablað 1950)
 • Einhver var að rita um börn og skóla og notaði þá orðið „Kók", hvað eftir annað, að „svolgra í sig Kók". (Eining 1950)
 • Takist þér að ná í hið eftirsótta kók þar í ösinni, er þér allra mildilegast leyfilegt, að labba inn í veitingastofuna, standa þar eins og glópur, belgja í þig gosi og góna á náungann. (Mánudagsblaðið 1950)  

Síðari hluti kókakóla kemur aftur á móti sjaldan fyrir einn sér í íslensku þótt þess finnist dæmi á 5. áratugnum áður en heitið kók er orðið fast í sessi.

 • Sjúklingurinn: „Og svo langaði mig til að spyrja lækninn, í hvoru væri meiri næring sódavatni eða kóla." (Samtíðin 1949)
 • En nú er svo komið, að aðdráttarafl Reykjavíkur og áhrif „Sjálfstæðisstefnunnar" draga kappana frá mannraunum sjávarins að því að selja kóla og sígarettur undir skólaveggjum Reykjavíkur.  (Tíminn 1949)

Einn bregður fyrir samsettum orðum með kóla- sem fyrri lið, t.d. kóladrykkja og kólasull. Þessi orðhluti hefur aftur á móti orðið ofan á sem stytting í flestum öðrum norrænum málum (sjá ISLEX-orðabókina).

Notkun

Kyn orðsins kók hefur verið nokkuð á reiki, sérstaklega framan af, eins og oft gerist með tökuorð. Í Íslenskri orðabók (1. útg. 1963) var það sagt vera hvorugkynsorð en í ritdómi um bókina í Skírni 1964 var m.a. gerð eftirfarandi athugasemd:

Kók er aðeins tilgreint sem hvorugkennt orð, en í máli unglinga í Reykjavík er það einnig kvenkennt. („Ég er búinn með kókina mína“).

Í framhaldi af þessu var kvenkyni og reyndar líka karlkyni bætt við í síðari útgáfum orðabókarinnar enda eru dæmi um orðið í öllum þremur kynjum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans þótt oft verði ekki ráðið af mynd orðsins eða samhenginu hvert kynið er.

Kyn óvíst:     Við gefum börnum kók og gos þrátt fyrir alla sykurhræðsluna.
Hvorugkyn:   Sæktu kókið. Það er í skottinu [::á bílnum].
Kvenkyn:      Tvær kók, ískaldar, sagði Gulli.
Karlkyn:        Þú hefur ekki komið með kókinn.

Karlkyn virðist aldrei hafa verið algengt og dæmi um það hverfa nánast eftir 1970. Aftur á móti er orðið notað bæði í hvorugkyni og kvenkyni fram á þennan dag og finna má mörg dæmi um hvort tveggja í textasöfnum og málheildum þótt hvorugkynsdæmin séu margfalt fleiri.

Dæmi um kvenkyn eru flest eða öll af svipuðu tagi:

 • Krakkar á minum aldri fara kannski i megrun einhvern tima, en byrja svo bara aftur á kókinni og pylsunum. (Þjóðviljinn 1981)
 • Þura drakk hálfa kókina og þau hin skiptu afgangnum bróðurlega á milli sín. (Úr skáldsögu 1985)
 • Standi þeir sig vel fá þeir kannski leyfi til að skipta á milli sín einni kók svo fremi að afköstin minnki ekki. (Morgunblaðið 1999)
 • Þá fór hún til baka með kókina, kemur aftur og við sitjum svolitla stund og tölum saman. (Morgunblaðið 2006)
 • þegar við værum búnir að finna tíeyring í viðbót gætum við keypt okkur eina kók. (Vísir.is 2012)
Kókflaska

Í öllum þessum dæmum virðist merkingin vera ‘flaska af kóki’ og í sumum þeirra mætti jafnvel líta svo á að nafnorðið flaska væri undanskilið. Hliðstæð dæmi eru til með orðum sem vísa til annarra drykkja. Þegar sagt er „Ég ætla að fá aðra appelsín“ eða „Get ég fengið einn kaffi“ stendur kvenkyns- og karlkynsmynd orðanna annar og einn með hvorugkynsnafnorðunum appelsín og kaffi. Venjulega mun þó ekki gert ráð fyrir að nafnorðin hafi skipt um kyn í slíkum dæmum heldur séu orðin flaska (kvk.) og bolli (kk.) þarna undanskilin en ákvarði þó kynið á ákvæðisorðunum: aðra (flösku) og einn (bolla).

Á sama hátt mætti líta á flest dæmin þar sem orðið kók virðist vera kvenkyns. Það getur þó ekki átt við um þau dæmi þar sem ákveðni greinirinn sýnir svo ekki verður um villst að orðið sjálft er kvenkyns. Kvenkynsmynd orðsins einskorðast þó, eftir því sem best verður séð, við merkinguna ‘flaska af kóki’ en er aldrei notuð um drykkinn sem slíkan. Þetta sést ágætlega af eftirfarandi dæmi þar sem bæði kvenkyns- og hvorugkynsmynd kemur fram:

 • ég var nýbúinn að þamba eina kók (kvk.). Svo þegar ég var búinn með kókið (hvk.) og flaskan var orðin tóm [...] (Morgunblaðið 1998)
  Birt þann 14. júlí 2020
  Síðast breytt 24. október 2023
  Heimildir
  • Íslenskt textasafn. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1963.
  • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.
  • ISLEX-orðabókin. Aðalritstj. Þórdís Úlfarsdóttir. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Risamálheildin (2019). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Skírnir. 1964. (Ritdómur Halldórs Halldórssonar um Íslenska orðabók, bls. 253-264.)
  • Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn.
  • Vefsíða CocaCola á Íslandi: https://www.cocacola.is (14.7.2020).