Þegar desember gengur í garð fer fólk að undirbúa sig fyrir komandi hátíð jóla. Á þessum tíma árs streyma nýútgefnar bækur inn í bókabúðir og matvöruverslanir um allt land. Bókaútgefendur birta lista yfir nýútgefna bókatitla og mikið er um bókakynningar.
Tíðkast hefur að tala um jólabókaflóð til að vísa til þess þegar nýjar bækur „flæða“ inn á markaðinn rétt fyrir jólin. Elsta ritaða heimildin um þetta orð er í tímaritinu Iðunni í umfjöllun um bókina Ber er hver að baki eftir Sigurð Helgason. Þar segir að „[það gæti] vel verið að þessi gráa og látlausa hversdagssaga drukkni í jólabókaflóðinu í ár“ (Árni Hallgrímsson,1936:386).
Þó ekki sé vitað nákvæmlega hvenær orðið komst fyrst í notkun, sýnir dæmið að þegar á fjórða áratugnum var það notað yfir mikið úrval bóka í aðdraganda jóla. Þó ekki sé það staðfest með heimildum er líklegast að hugtakið hafi þróast á millistríðsárum þegar kaupmáttur almennings var töluvert minni og úrval af öðrum vörum takmarkað. Þrátt fyrir það var þó vinsælt að gefa út bækur og selja á viðráðanlegu verði svo að fólk gæti keypt þær og gefið í jólagjöf. Á eftirstríðsárunum festist fyrirbærið í sessi þegar íslenskur bókamarkaður byrjaði að mótast í þeirri mynd sem við þekkjum í dag (Jón Yngvi Jóhannsson, 2023). Þá varð bókaútgáfa sjálfstæð atvinnugrein og jólabókaflóðið að ómissandi hluta jólahátíðarinnar.
Sérstaða Íslands sem bókaþjóðar hefur lengi vakið mikla athygli víða um heim, ekki síst vegna miðaldabókmenntanna og ríkulegrar bókmenntahefðar. Mikilvægi hefðarinnar kom skýrt fram þegar Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaun „fyrir að endurnýja hina miklu íslenzku frásagnarlist“ (Alþýðublaðið, 1955). Þegar Reykjavík var útnefnd bókmenntaborg UNESCO árið 2011 fékk íslensk bókmenning svo aftur athygli á heimsvísu.
Á undanförnum árum hefur orðið jólabókaflóð eða „jolabokaflod“ skotið upp kollinum í erlendum fjölmiðlum sem gjarnan nefna þetta íslenska fyrirbæri í umfjöllun um jólahefðir ólíkra landa og sölu bóka á þessum árstíma. Orðið virðist vera orðið þekkt í enskumælandi löndum eins og sjá má dæmi um í auglýsingum, t.d. á tebolla með myndum af músum sem lesa bækur um jólin, og á gjafakortum, t.d. stendur á einu slíku „Happy Jólabókaflóð“ til að gefa til kynna að viðkomandi fái bók í jólagjöf.
Eins og sést á þessum dæmum hefur merking orðsins þó breyst. Á erlendum málum virðist orðið frekar vísa til þess siðar að gefa bækur í jólagjöf en til þess að gefa út bækur á markaði, sbr. enska skilgreiningu þess á dictionary.com. Í dag má víða finna orðið jólabókaflóð á ensku í þessari nýju merkingu, t.d. í tengslum við viðburð, lestrarátak og skopteikningu.
Útbreiðsla orðsins er ekki bundin við enskumælandi lönd. Finna má dæmi um notkun þess í Belgíu, Brasilíu, Frakklandi, Indlandi, Ítalíu, Slóvakíu, Spáni, Tékklandi, Tyrklandi og Ungverjalandi svo eitthvað sé nefnt. Um er að ræða vefsíður háskóla, bloggsíður, veftímarit, ferðaskrifstofur, ýmsar sölusíður, bókasöfn og bókmenntasamtök. Á heimasíðu Alþjóðaefnahagsráðsins er sérstöðu Íslands þegar kemur að bókagjöfum á jólum lýst í grein þar sem fjallað er um þessa sterku bókmenningarhefð Íslendinga og henni lýst með orðinu jólabókaflóð.
Merking orðsins jólabókaflóð hefur þannig umbreyst í erlendri notkun. Það er orðið að menningartákni sem önnur lönd fá að láni, nota í markaðssetningu og ljá um leið aðra merkingu.
Síðast breytt 5. desember 2025



