Skip to main content

Pistlar

Kona verður drottning

Orðið kona er fornt að uppruna eins og við er að búast. V-ið er í stofninum, sbr. beygingarmyndina kvenna, samsetningar á kven- og fornyrðin kván, kvon og kvæn, sem merkja 'kona'. Samsvarandi orð er notað í nágrannamálunum, danska kvinde, norska kvinne og sænska kvinna.

 En hvað með ensku? Sami orðstofn er til í ensku og er þar sprelllifandi, að vísu í orði sem merkir annað. Enska orðið fyrir konu er vitaskuld woman sem er óskylt ofangreindum orðum (á bak við woman er samsetningin wif-man, þ.e. 'víf-maður'. Fyrri liðurinn er sjálfstætt orð í nútímaensku:  wife 'eiginkona').

Í fornensku (engilsaxnesku) var til orðið cwēn sem merkti 'kona, eiginkona, drottning'. Með tímanum hurfu tvær fyrri merkingar orðsins en sú síðasta hélt velli. Stafsetning var ekki í föstum skorðum og í miðensku hefur cwēn nokkuð breytilegan rithátt, orðið er gjarnan (ekki þó alltaf) ritað með qu- í framstöðu: queene, queen eða quene.

Sem dæmi um orðið queen ritar 14. aldar skáldið Chaucer í Kantaraborgarsögum:

And weddede the queene Ypolita,
And broghte hir hoom with hym in his contree
                                  (The Knight's Tale, lína 10-11)

og einnig:

Alle oþir wommen I forsake
And to an Elf queen I mee take.
                        (The Tale of Sir Thopas, lína 83-84)

Chaucer notar hér queen(e) í merkingunni 'drottning'. Í seinna kvæðinu kemur einnig fyrir orðið wommen 'konur', sem er fleirtala af miðenska orðinu wifman, wimman (= woman). Á þessum tíma hefur því woman – a.m.k. að einhverju leyti - verið búið að leysa cwēn/queen af hólmi sem almennt orð um konu.

Íslenska orðið kona og enska orðið queen eiga sér því sameiginlegan uppruna. Þau eru hvort um sig núlifandi fulltrúi hins sama forna orðstofns.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
Bosworth, Joseph og Toller, T. Northcote. 1921. An Anglo-Saxon Dictionary. Sótt á http://www.bosworthtoller.com/006935.
Chaucer, Geoffrey. The Canterbury Tales. The Norman Blake edition. Sótt á http://www.chaucermss.org/series/.
The Oxford Dictionary of English Etymology. 1966 (prentuð 1985). C.T. Onions (ritstj.). Oxford University Press, Oxford.
Stratmann, Francis Henry. 1891. A Middle English dictionary containing words used by English writers from the twelfth to the fifteenth century. Clarendon Press, Oxford. Sótt á https://archive.org.