Skip to main content

Pistlar

Konurnar í Sælingsdalstungu

Sælingsdalur er sögusvið eftirminnilegra atburða í Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir og Bolli Þorleiksson fluttust frá Laugum í Sælingsdalstungu eftir dauða Kjartans, en ári eftir víg Bolla hafði Guðrún bústaðaskipti við vin sinn, Snorra goða Þorgrímsson á Helgafelli. Á Sturlungaöld bjó annar kvenskörungur í Tungu, Jóreiður Hallsdóttir. Eina vísan sem lögð er í munn konu í Sturlungu er ort um atburð er þar gerðist í apríl árið 1244.

Augljóst er að Jóreiður Hallsdóttir var mikil atgerviskona. Hún var dóttir Halls prests Gunnsteinssonar og Hallberu, systur Einars Þorgilssonar á Staðarhóli. Maður hennar var Þórður Narfason, Snorrasonar á Skarði, og virðist Þórður hafi andast eftir stutt hjónaband. Þau áttu aðeins eina dóttur barna, Helgu. Jóreiður bjó í ekkjudómi sínum í Tungu í það minnsta um þriggja áratuga skeið, lengst af ásamt dóttur sinni og getið er um Sturlu Þórðarson í Sælingsdal eftir að hann fær Helgu.

Mikil tíðindi urðu í Dölunum veturinn 1225–1226. Þá er sagt frá því að Ingimundur Jónsson, sonur Jóns Brandssonar og Steinunnar Sturludóttur (dóttur Hvamms-Sturlu og Ingibjargar Þorgeirsdóttur frá Hvassafelli), hafi girnst Jóreiði. Hún neitaði bónorði hans því „að hún vildi eigi ráða fé undan dóttur sinni“ (I, 207).[1] Ingimundur greip til þess ráðs að nema hana á brott og fór með hana til Sauðafells. Sturla Sighvatsson reyndi að fá Jóreiði til að gefast Ingimundi. „En með því að ekki fékk af henni of það og hún vildi eigi mat eta þar þá lét Sturla hana heim færa. Þetta líkaði stórilla frændum hennar“ (I, 207). Páll, bróðir hennar, var prestur á Staðarhóli og fékk stuðning stórvinar síns og föðurbróður Sturlu, Þórðar Sturlusonar. Á Alþingi sumarið eftir var hart tekist á um Jóreiðarmál, eins og þau eru kölluð í Íslendingasögu, og þurfti Sighvatur Sturluson að greiða miklar bætur fyrir þá svívirðingu sem henni hafði verið gerð af hendi Ingimundar og sonar hans.         

Jóreiður lét ekki buga sig og stóð á sínu. Í fyllingu tímans gekk Helga einkadóttir hennar að eiga Sturlu Þórðarson. Vikið er að gestrisni Jóreiðar í Tungu á þremur stöðum í safninu. Hún tók á móti Þorvaldi Vatnsfirðingi á leið hans um Dalina á Ólafsmessu árið 1228, aðeins viku áður en hann var brenndur inni í Steinbjarnartungu (I, 307). Sighvatur Sturluson gerði sér sérstaka ferð til hennar um páska árið 1236 – eftir að hann hafði farið með Sturlu syni sínum í herferð í Borgarfjörð gegn frændum sínum; ekki er getið um erindið (I, 378). Þess má geta að á Pálmasunnudag hafði hann hitt Þórð bróður sinn sem hafði gagnrýnt hann harðlega. Árið 1253 virðist Jóreiður hafa lagt á ráðin með að Ingibjörg, dótturdóttir hennar, lofaðist Halli Gissurarsyni í þeirri miklu sáttargjörð sem þá tókst á milli Sturlu og Gissurar. Ingibjörg var aðeins þrettán vetra og dvaldi þá með ömmu sinni í Tungu (II, 629). Jóreiður gaf Ingibjörgu til heimanfylgju landið í Sælingsdal og þar með tíu hundraða. Einar Kárason túlkar þá atburði skemmtilega í skáldsögunni Ofsa.

Þann átjánda apríl árið 1244 bar enga aufúsugesti að garði í Tungu. Njósn hafði borist af yfirvofandi hefndarför Kolbeins unga og flokks hans í Dalina eftir hleypiför Tuma Sighvatssonar og manna hans norður í héruð. Kolbeinn ungi skipti liði sínu í ferðinni vestur. Hann fór sjálfur að Reykhólum til að taka Tuma, en setti Brodda Þorleifsson og Brand Kolbeinsson yfir þann flokk sem fór í Laxárdal með þau fyrirmæli að þeir skyldu drepa Sturlu Þórðarson „ef þeir næði honum“. Sturla hafði flúið í eyjar. Konur voru einar í Tungu; Ingibjörg litla varla fjögurra vetra. Atburðir Sturlungaaldar voru margir svo hrottalegir að höfundum sagna um öldina hefur verið vandi á höndum að koma grimmdinni og miskunnarleysinu í orð. Skoðanir á sama atburðinum hlutu að vera skiptar, eftir því hvar í flokki fólk stóð. Í tveimur aðalhandritum Sturlungu frá fjórtándu öld, Króksfjarðarbók og Reykjarfjarðarbók, fer tvennum sögum um marga lykilviðburði sögunnar og svo er einmitt um heimsókn Skagfirðinga í Sælingsdal. Í pappírshandritum Reykjarfjarðarbókar er heimsóknarinnar í Tungu að engu getið – en í Króksfjarðarbók standa þessar áhrifamiklu línur:

Sneru þeir þá upp til Tungu og komu þar mjög á óvart og komst Helga húsfreyja kona Sturlu nauðulega í kirkju með Snorra son sinn er þá var fjögurra vikna. En þeir unnu á þeim manni er Valbjörn hét, særðu hann þremur sárum og ræntu þar til tuttugu hundraða með því er spillt var. Kerling ein var í Tungu með Jóreiði húsfreyju. Hún kvað vísu þessa um flokksmenn:

              Beinir Brandr til rána,
              bróðir Páls, í hljóði.
              Hykk, að hvergi þykki
              hvinn Broddi þó minna.
              Hér var ólmr með hjálmi
              Hallvarðr of dag allan,
              hann mun hefðarvinnu
              Hafr Bjarnarson varna. (II, 509)

Hin fumlausa og óvænta árás höfðingjanna verður fáránleg í ljósi þess að engir voru til varnar nema hinn óþekkti Valbjörn sem drepinn er án nokkurs tilefnis. Konur einar heima og Helga komst í skjól með nýfæddan son sinn, alnafna Snorra Sturlusonar, í kirkju. Vísa kerlingar er einföld að allri gerð en beinskeytt í skilaboðum sínum. Nöfn árásarmannanna eru niðurnjörvuð í bundið mál bragarins; nöfn hinna seku skulu ekki gleymast. Brandur er kallaður bróðir Páls, með líkum hætti og Ingjaldur Geirmundarson gerir í vísum um hann dauðan eftir Haugsnessfund árið 1246. Vísa kerlingar kallast einnig að sumu leyti á við vísur Guðrúnar Gjúkadóttur, sem hún kvað fyrir aðra Jóreiði í Miðjumdal árið 1255, en þær draumvísur eru aðeins varðveittar í Króksfjarðarbók. Guðrún talar með ljósum hætti í vísunum og nafngreinir höfðingjana, rétt eins og hin aldraða skáldkona í vísunni handa Jóreiði í Tungu.   

Jóreiður gaf dótturdóttur sinni landið í Sælingsdal; en ekki er sagt frá frekari atburðum í dalnum eftir 1253 eða hvort Ingibjörg hafi átt þar heima sem fullvaxta kona. Sex árum eftir Flugumýrabrennu er Ingibjörg gefin Þorvarði í Saurbæ. Deilan um landið í Tungu var örlagarík í Laxdælu, og dalurinn og nágrenni hans sögusvið tveggja víðfrægustu voðaverka Íslendingasagna, víga Kjartans og Bolla. Á ritunartíma Laxdælu bjuggu í Tungu stórlyndar konur sem örugglega hafa hugsað til atburða sem urðu þar í dalnum fyrr á tímum og til þeirrar konu sem fæddist upp handan árinnar á Laugum en bjó ekkja í Tungu með ungum börnum sínum. Í Ingibjörgu mættist þekking á staðháttum í Sælingsdal, Laxárdal og landnámsjörð Auðar í Hvammi þar sem langafi Ingibjargar hafði ráðið ríkjum, geistleg menntun Skarðverja og Staðarhólsmanna, og einstök sagnagáfa Sturlunga. Hún mótaðist í æsku af ömmu sinni, svipmikilli og sjálfstæðri, reyndi grímulausa grimmd manna og tilgangsleysi hefndarinnar í Flugumýrarbrennu, og heyrði frásagnir frænda sinna, bræðra og foreldra af hirðlífi í Noregi. Kannski fór hún sjálf utan. Enginn veit hver skrifaði sögu Guðrúnar Ósvífursdóttur úr Sælingsdal, en ekki er ólíklegt að upphafs sögunnar sé að leita hjá þeim konum sem sátu með reisn í Tungu um miðja þrettándu öld.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

[1] Vitnað er í Sturlungu í útgáfu Svarts á hvítu sem kom út árið 1988.