Skip to main content

Pistlar

prímus

Karlkynsorðið prímus (fleirtala: prímusar) vísar til eldunartækja sem einkum eru notuð í útilegum og ganga yfirleitt fyrir gasi; eldri gerðir notuðu steinolíu eða bensín sem þær breyttu í gas. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans má m.a. finna eftirfarandi dæmi um orðið:

  • Steinolíuvélin „Primus“ sem við vísindalega reynzlu bar langt af öðrum þesskonar vélum og er sú einasta sem sæmd hefir verið verðlaunum og gull og silfurmedalíum. 
  • Þegar hún hafði sýslað um stund við „prímusa“ og eldunaráhöld. 
  • Það leikur allt í höndunum á þeim manni. En prímusar eru nú mikilsti lagstir niður síðan rafmagnið kom.

Elstu dæmi um prímus í seðlasöfnum Orðabókar Háskólans eru frá lokum 19. aldar svo það er allgamalt í íslensku. Þangað er það að líkindum komið úr dönsku en sama orð er einnig notað í fleiri nágrannamálum, s.s. sænsku, norsku og ensku. 

Upprunalega er Primus vörumerki og byggist á latneska lýsingarorðinu primus ‘fyrstur’. Þetta er því dæmi um að sérnafn, þ.e.a.s. heiti á tiltekinni vörutegund, hafi smám saman orðið að samnafni sem notað er almennt um slíka hluti óháð vörumerki. Slík þróun er vel þekkt í tungumálum og leiðir til þess að orðið hagar sér eins og hvert annað nafnorð í málinu, beygist eftir almennum reglum og af því eru mynduð ný orð, m.a. eru dæmi um allmörg samsett orð með prímus að fyrri eða síðari lið í söfnum stofnunarinnar: prímuslogi, prímuslykt, prímusaviðgerð; ferðaprímus, rafmagnsprímus o.fl.

 

Birt þann 1. ágúst 2003
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Íslensk orðabók. (3. útgáfa.) Reykjavík: Edda 2002.
  • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.