Skip to main content

Pistlar

Prjónastrákur

Birtist upphaflega í desember 2010.

Eins og flestir Íslendingar hafa orðið varir hefur útbreiðsla og vinsældir prjónaskapar náð nýjum hæðum nokkur undanfarin misseri. Þar sem örnefnasmiðir hafa látið sér fátt óviðkomandi er ekki úr vegi að líta á örfá örnefni sem eiga uppruna sinn að rekja til þeirrar iðju.

Í hlíðarbrún ofan og austan Saurbæjar á Hvalfjarðarströnd, þar sem hæst ber, er klettur einstakur og nefnist Prjónastrákur. Neðan við Prjónastrák er Fannahlíð þar sem áður fyrr voru haldnar Hallgrímshátíðir sem kallaðar voru (Árb. Ferðafél. Ísl. 1950, 55). Mælt er að kletturinn beri nafn af því að þangað hafi Guðríði Símonardóttur, konu síra Hallgríms Péturssonar, oft orðið gengið einslega og hún sést sitja þar með prjóna sína og það stundum meðan maður hennar var að guðsþjónustu. En erindi Guðríðar að klettinum átti að hafa verið annað og meira. Sagt var að hún hefði haft með sér lítið líkneski af Múhameð spámanni og tilbeðið á þessum stað (örnefnaskrá Saurbæjar). Um sannleiksgildi sögunnar verður auðvitað ekki fullyrt nú, en svo mikið er þó víst að prjónalistin var komin til Íslands mun fyrr en þetta, sennilega ekki síðar en á fyrri hluta 16. aldar (Elsa E. Guðjónsson: „Um prjón á Íslandi“. Hugur og hönd 1985).

Það er alkunna að húsfreyjur á mannmörgum heimilum í íslenskum sveitum nýttu tíma sinn til hins ítrasta og létu enga stund fara til spillis. Því héldu þær gjarnan á prjónunum sínum er þær gáðu til kinda eða skruppu bæjarleið og gengu prjónandi. Í landi Hvamms í Dýrafirði er Prjónalág, sögð berjalaut á Prjónalágarholti. Engin skýring á nafninu er í örnefnaskrá, en ekki er ólíklegt að það eigi uppruna sinn að rekja til vinnusemi húsmæðra eða annarra kvenna. Djúpt gil, nefnt Jókugil, klýfur hamrabelti fjallsins Bjólfs í Seyðisfirði. Munnmæli eru um að smalastúlka, er Jóka var nefnd, gætti fjár í Bjólfinum. „Það var venja hennar að ganga prjónandi upp og ofan gil þetta. Gil þetta er afar slæmt umferðar, svo að telja má, að Jóka hafi verið sérstaklega fótviss og vinnugefin“ (örnefnaskrá Fjarðar).

Prjónaskapur getur birst í örnefnum á fleiri vegu. Í landi Vogs í Hraunhreppi á Mýrum er keilumyndað holt eða hóll og heitir Prjónhúfa, „trúlega dregið af lögun hólsins, en efst á honum er há þúfa, líkt og prjónhúfa í laginu“ (örnefnaskrá Vogs). Sama örnefni er í Hrísdal í Miklaholtshreppi, Snæf. Þar er hár keilumyndaður hóll, sem heitir Prjónhúfa; eru raunar tvær, Stóra- og Litla-Prjónhúfa, við Prjónhúfulæk (örnefnaskrá Hrísdals).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023