Skip to main content

reyfarakaup

Orðið reyfarakaup eru nú einkum notað í fleirtölu, t.d. í orðasambandinu að gera reyfarakaup í merkingunni ‘að gera mjög góð kaup, kaupa á mjög hagstæðu verði’. Í eldra máli eru þó einnig dæmi um að orðið sé haft í eintölu í sömu merkingu samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

  • Það er einmitt skynsöm og lagleg verzlunarkeppni ... sem á að gjöra oss kost á góðum og ábatasömum verzlunarkjörum, en ekki hin svo nefndu „reifara“-kaup , eða nein einstök neyðarsala eins einstaks manns á einstökum farmi. (1853)
  • Hlutabréf Gránufélagsins, sem að ákvæðisverði gildir 50 kr. og er með áföstum 6% rentuseðlum til þriggja ára, er til sölu fyrir 10 kr. Þeir, sem vilja sinna þessu reyfarakaupi, geta samið við ritstjóra þessa blaðs. (1886)
  • og er auðheyrt, að þeim finnst það reyfarakaup . (1954)
  • Elías segir að neytendur geti einnig gert reyfarakaup í Bayonne-skinku núna sem seld sé með 42% afslætti á meðan birgðir endast. (2002)


Orðið er skylt ósamsetta orðinu reyfari, sem í eldra máli þýddi ‘ræningi, ránsmaður’. Orðið reyfari ‘ræningi’ er talið vera tökuorð úr miðlágþýsku og kemur fyrir þegar í fornu máli. Elstu dæmi í ritmálssafninu um orðið reyfarakaup eru aftur á móti frá miðri 19. öld og líklegra er að það sé sniðið eftir danska orðinu røverkøb en að það sé leitt beint af reyfari í merkingunni ‘ræningi’. Merking danska orðið er sú sama og í íslensku, þ.e.a.s. um að kaupa eitthvað svo ódýrt að það sé nánast eins og rán, en það er einkum notað í eintölu í samböndum eins og være (et) røverkøb og få/have for (et) røverkøb.

(mars 2004/apríl 2019)

Birt þann 20.06.2018
Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.
  • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.
  • Ordbog over det danske Sprog (ODS).
  • Politikens Nudansk Ordbog med etymologi. (1. útg.; tölvuútgáfa.) Kaupmannahöfn: Politikens Forlag A/S 1999.