Skip to main content

Pistlar

Sálma- og kvæðahandrit frá sautjándu öld

AM 102 8vo er sálma- og kvæðahandrit frá sautjándu öld. Forsíðu vantar og þar með upplýsingar um hver skrifaði og hvenær – en svo vel vill til að þær leynast inni í handritinu. Fremst eru ljóðmæli sr. Jóns Arasonar (1606-1673) prófasts í Vatnsfirði og hefur skrifari víða sett ártal við þau (t.d. 1645 og 1646). Í fyrirsögn fyrsta sálms segir að hann sé úr þýsku snúinn „af föður mínum sæla blessaðrar minningar“. Af því má ráða að eitthvert barna sr. Jóns í Vatnsfirði hafi skrifað þennan hluta handritsins. Auk sálma eru þarna erfikvæði eftir Ragnheiði Eggertsdóttur, ömmu, og Ara Magnússon, föður Jóns í Vatnsfirði („afa minn“ eins og segir í fyrirsögn) svo og sextánmælt vísa eftir sr. Jón þar sem hann telur upp níu börn sín sem þá eru á lífi. Nokkru aftar er „æru, lífs og andláts minning föðurs míns sæla, séra Jóns Arasonar, nú blessaðrar minningar í ljóð snúin af mér, G.J.S.“ Þar með er skrifarinn fundinn; sr. Guðbrandur Jónsson (1641–1690) prestur í Vatnsfirði. Guðbrandur hefur skrifað fyrsta hluta handritins en aftar eru aðrar hendur og er þar að finna morgun- og kvöldsálma, píslarminningu Kolbeins Grímssonar, nýárssálm eftir Hallgrím Pétursson og fleira. Handritið er ekki síst merkilegt vegna þess að í aftasta kveri þess eru nótur við textana; tveir tvísöngssálmar og sjö tvísöngslög, þar á meðal kvæði sem hefur fyrirsögnina ‘Vísur nokkrar við öl með bassa og tenór’.

Textinn er eftir sr. Stefán Ólafsson í Vallanesi en ekki er vitað um uppruna lagsins. Þeir sem hafa áhuga á að heyra hvernig það hljómar geta fundið það á geisladisknum Hymnodia sacra í flutningi félaga úr Kammerkórnum Carmina (Lánið drottins lítum mæta). Síðan koma tveir fjórraddaðir latneskir söngvar sem ættaðir eru úr skoska Buchanan-saltaranum en svo nefnist lítið kver sem prentað var í Þýskalandi árið 1585 með Davíðssálmum, umortum af skoska skáldinu George Buchanan (1506–1582) undir klassískum bragarháttum, við lög sem eignuð eru kantornum Statius Olthof (1555–1629). Buchanan-saltarinn var geysivinsæll á Íslandi eftir siðskipti eins og sést af því að a.m.k. 18 handrit varðveita lög úr honum. Einnig er í handritinu sálmur eftir sr. Ólaf Jónsson á Söndum: (Ó) Jesú minn ég finn. Svo skemmtilega vill til að heimildir eru um að sonur sr. Ólafs á Söndum, Guðmundur (f. ca. 1590-1600) hafi verið vel að sér í tónlist og að hann hafi kennt Guðbrandi, skrifara handritsins, söng. Handritinu lýkur á broti úr sálmi úr Buchanan-saltaranum sem hefst á orðunum: Luce voco te, en nótur vantar. Ekki er vitað hvernig handritið komst í eigu Árna Magnússonar en það er vel meðfarið og virðist minna notað en önnur sams konar handrit. Árni Heimir Ingólfsson hefur fjallað ítarlega um handritið, sbr. heimildaskrá.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 19. júní 2018
Heimildir

Heimildir:
Árni Heimir Ingólfsson. 2003. “These are the things you never forget”. The written and oral traditions of Icelandic tvísöngur. Unpubl. doctoral dissertation from The Department of Music, Harvard University.
Árni Heimir Ingólfsson. 2003. The Buchanan Psalter and its Icelandic Transmission. Gripla XIV:7–46.
Árni Heimir Ingólfsson. 2004. Íslenskt tvísöngslag og Maríusöngur frá Montserrat. Gripla XV:195–208.
Páll E. Ólason. 1926. Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi IV. Reykjavík.