Skip to main content

Pistlar

Skáldkona frá 15. öld

Hvert er elsta varðveitta bókmenntaverkið sem vitað er að íslensk kona hefur samið? Hætt er við að ýmsum mundi vefjast tunga um tönn að svara þessari spurningu. Mörg eddukvæði þykja bera kvenlegan svip en engar beinar heimildir eru um að konur hafi samið þau. Af þeim forna kveðskap sem flokkast undir dróttkvæði er vissulega til að ein og ein vísa sé eignuð konu. En heldur er þetta lítið og brotakennt efni og í mörgum eða flestum tilfellum má efast um að vísurnar séu eignaðar réttum höfundum. Ekki er loku fyrir það skotið að kona hafi skrifað einhverja Íslendingasögu en engin heimild er fyrir hendi um það.

Upphaf Landrés rímna í AM 604 4to b frá miðri 16. öld.

Þegar kemur fram á seinni hluta 15. aldar birtist hins vegar ágætlega varðveitt bókmenntaverk af talsverðri lengd sem greinilegt er að kona hefur samið. Þetta eru Landrés rímur sem ortar eru út af riddarasögu um frúna Ólíf og Landrés son hennar. Sjá má þegar skáldið talar í fyrstu persónu að lýsingarorð í kvenkyni eru notuð. Hér má sjá mansönginn fyrir fimmtu rímu:

1. Norðra skeið má eg nadda lundum negla varla,
sest eg upp á sorgar palla,
sízt má þetta gleðina kalla.

Norðra skeið = skáldskapur; nadda lundar = menn.

2. Óðar lag ef ætla eg nokkuð ýtum færa
þunglig kveikist þrautar snæra,
það er mér hvorki sigur né æra.

3. Nenni eg fátt um ferskar þjóðir fyrir því ríma,
hrökt var eg með hörðum líma,
hitta eg aldri gleðinnar tíma.

Ferskar = fagrar; lími = vöndur, pískur, svipa.

4. Geystur harmr í Gríðar vindi gjörir mig hljóða,
Valtýrs skal eg því vínið bjóða,
vil eg enn gleðja fleina rjóða.

Gríðar vindur = hugur; Valtýrs vín = skáldskapur; fleina rjóðar = menn.

5. Þetta nam mig þungu að vefja þrautar bandi,
sorg og tregi í sinnu landi
sómir þó eigi að lengi standi.

6. Kvásis dreyrann kynna verður köppum merkum,
lýðir skyldu að loknum verkum
líneik byrgja í múrnum sterkum.

Kvásis dreyri = skáldskapur; líneik = kona (Ólíf); múr = steinhús.

Elsta handrit rímnanna er Staðarhólsbók rímna (AM 604 4to), frá miðri 16. öld. Raunar er Staðarhólsbók ekki lengur eitt handrit heldur brotin í smærri hefti, Landrés rímur hefjast í AM 604 b 4to og halda áfram í AM 604 c 4to. Ljósmyndir af báðum þessum kverum eru á handrit.is. Með málsögulegum og bókmenntasögulegum rökum má leiða líkur að því að rímurnar séu nokkru eldri en handritið og trúlega frá 15. öld.

Rímurnar hafa einu sinni verið gefnar út, í öðru bindi af Rímnasafni Finns Jónssonar. Um þær er einnig fjallað með öðrum miðaldarímum í bók Björns Karels Þórólfssonar Rímur fyrir 1600. Loks ritaði Jonna Louis-Jensen um þær merka grein 1992. Rannsóknarefnið er þó hvergi nærri tæmt og raunar væri ekki illa til fundið að gefa rímurnar út upp á nýtt – í útgáfu Finns er ekki tekið tillit til allra handrita.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

Björn Karel Þórólfsson. Rímur fyrir 1600. Kaupmannahöfn.
Finnur Jónsson (útg.). 1913–1922. Rímnasafn 2. København.
Louis-Jensen, Jonna. 1992. Om Ólíf og Landrés, vers og prosa samt kvinder og poeter. Eyvindarbók. Oslo.