Sælingsdalur er sögusvið eftirminnilegra atburða í Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir og Bolli Þorleiksson fluttust frá Laugum í Sælingsdalstungu eftir dauða Kjartans, en ári eftir víg Bolla hafði Guðrún bústaðaskipti við vin sinn, Snorra goða Þorgrímsson á Helgafelli. Á Sturlungaöld bjó annar kvenskörungur í Tungu, Jóreiður Hallsdóttir. Eina vísan sem lögð er í munn konu í Sturlungu er ort um atburð er þar gerðist í apríl árið 1244.