Skip to main content

Konurnar í Sælingsdalstungu

Sælingsdalur er sögusvið eftirminnilegra atburða í Laxdælu. Guðrún Ósvífursdóttir og Bolli Þorleiksson fluttust frá Laugum í Sælingsdalstungu eftir dauða Kjartans, en ári eftir víg Bolla hafði Guðrún bústaðaskipti við vin sinn, Snorra goða Þorgrímsson á Helgafelli. Á Sturlungaöld bjó annar kvenskörungur í Tungu, Jóreiður Hallsdóttir. Eina vísan sem lögð er í munn konu í Sturlungu er ort um atburð er þar gerðist í apríl árið 1244.

Skáldkona frá 15. öld

Hvert er elsta varðveitta bókmenntaverkið sem vitað er að íslensk kona hefur samið? Hætt er við að ýmsum mundi vefjast tunga um tönn að svara þessari spurningu. Mörg eddukvæði þykja bera kvenlegan svip en engar beinar heimildir eru um að konur hafi samið þau. Af þeim forna kveðskap sem flokkast undir dróttkvæði er vissulega til að ein og ein vísa sé eignuð konu. En heldur er þetta lítið og brotakennt efni og í mörgum eða flestum tilfellum má efast um að vísurnar séu eignaðar réttum höfundum.