Skip to main content

Pistlar

Ölvatnsholt – Ölvisholt

Birtist upphaflega í október 2009.

Bæjarnafnið er til á tveimur bæjum á Suðurlandi, annars vegar í Flóa og hins vegar í Holtum. Bæjarnafnið í Holtum kemur fram í aðeins eldri heimild en hitt. Það er skrifað Olvashollt eða Olvassholltt í fornbréfi 1503 (DI VII:635–636) og Olvarsholltt 1504 (DI VII:677–678). Í yngri heimildum hafa rithættir verið með ýmsu móti:

  • Ólafsholt (Manntal 1703, 500)
  • Olvashollt og Ölvashollts Hiáleiga (Jarðabók Árna og Páls 1708, I:335–336)
  • Ölversholt (Manntal 1801, 165)
  • Ölvisholt (Manntal 1816, 258)
  • Ölversholt eða Ölasholt (Sýslu- og sóknalýsingar 1840, 181, 186)
  • Ölversholt (Manntal 1845, 186, Manntal 1910, II:270)
  • Ölvaðsholt ((Jarðatal Johnsens 1847, 42, þar sem Johnsen segir að sýslumaður og prestur kalli Ölversholt); Ný jarðabók 1861, 19)
  • Ölversholt (Sunnlenskar byggðir V:260).

Í örnefnaskrá frá miðri 20. öld er skrifað Ölversholt. Ýmsar aðrar myndir eru til í óprentuðum heimildum: Öláshollt 1681, Ósaholt 1729, Ölvandsholt 1795 og Ölasholt 1798 (Holtamannabók I:550).

Bærinn er kenndur við holtið með sama nafni ofan við bæinn, og í túninu er smáhóll sem heitir Ölver og er sagður vera haugur landnámsmannsins með því nafni (Örnefni í Rangárþingi. II. Holtahreppur, bls. 49–51). Bergsteinn Kristjánsson sem skráði örnefnin þar taldi að Ölversholt væri sennilega réttasta mynd nafnsins og hefði jörðin verið byggð í heiðni (50) en þó gæti upphafsmyndin hafa verið Ölvatnsholt, þegar miðað væri við fyrstu ritmyndir (49). Dr. Benjamín Eiríksson sem var eigandi jarðarinnar taldi að nafnið væri af írskum uppruna og hefði upphaflega verið Oliversholt (holt hins smurða) (Sunnlenskar byggðir V:260).

Bæjarnafnið í Flóa kemur fyrst fram í heimildum 1546, í Bréfabók Gissurar Einarssonar, og þá skrifað Olvatnsholt (DI X:429). Það er skrifað á svipaðan hátt í annarri heimild frá sama ári: Oluashollt eða auluashollt (DI XI:455). Í yngri heimildum er ritháttur þessi:

  • Ölvarsholt (Manntal 1703, 604)
  • Aulvatshollt (Jarðabók Árna og Páls II:139 (1709))
  • Ölvadsholt (Manntal 1801 Suðuramt, 236); Ölvaðsholt (Manntal 1816 I:310; Manntal 1845, 252)
  • Ölvatnsholt (Sýslu- og sóknalýsingar 1841, 75)
  • Ölvaðsholt (Jarðatal Johnsens 1847, 57; Ný jarðabók 1861, 28)
  • Ölversholt (Manntal 1910, 238; Örnefnaskrá Umf. Baldurs 1939)
  • Ölvesholt (Örnefnaskrá Bjarna Bjarnasonar 1914)
  • Ölvisholt (Sunnlenskar byggðir II:479–480 (1981))

Fleiri rithættir hafa verið til: Ölfusholt og Ölvarsholt.

Einn skýringarkostur bæjarnafnsins er að holtið hafi verið nefnt Ölver og nafnið aukið í Ölversholt til nánari skýringar. Ölver er nafn á fjalli sunnan Borgarfjarðar, einnig nefnt Ölvishaugur í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (I:449). Ölver er einnig til sem nafn á haugum, hólum eða skerjum. Nöfnin eru mannanöfn eins og kunnugt er, Ölver í sænskum rúnaristum og Ölvir í Landnámu og fornsögum með Ölver sem hliðarmynd. Uppruni nafnanna er ekki fullljós. Sumir telja að forliðurinn eigi sér skylt orð í gotnesku alhs sem merkir ‚hof‘ og seinni liðurinn, ver, sé skylt so. verja og að mannsnafnið Ölver merki þá ‚hofprestur‘. (Lena Peterson: Nordiskt runnamnslexikon. http://www.sofi.se. Ekki verður hér talið líklegt að Ölversholt eigi sér þennan uppruna.

Nafnmyndin Ölvaðsholt er ekki líkleg til að vera upprunaleg. Ekkert áberandi vað er þar að finna, a.m.k. ekki í Flóa. Líklegra er að upprunamyndin sé Ölvatnsholt í báðum tilvikum, og styðja elstu ritmyndir það. Finnur Jónsson tekur þó fram að ekkert „vatn“ finnist við hvorugan bæinn (Bæjanöfn, bls. 555). Framburðarmyndir nafnsins, a.m.k. í Flóa, hafa verið á reiki, og er myndin [ölvasolt] ein þeirra. Kunnugt er að í áherslulausu atkvæði nafna geta sérhljóð verið á reiki, hvarflað á milli -a-, -i- og -u- hver svo sem uppruninn er. Orðið *ölvatn er ekki kunnugt úr heimildum, en vel getur verið að vatn sem hefur bragð af öli, sbr. ölkelduvatn sem ólgar af kolsýru, hafi fengið slíkt heiti. Um eiginleika vatnsins á þessum bæjum skal ekki fullyrt hér en starfræksla brugghúss í „Ölvisholti“ í Flóa með góðum árangri styður þessa kenningu frekar en hitt.

Ölvesholt er einnig til sem örnefni í landi Straumfjarðar í Álftaneshreppi á Mýrum, en um nánari sérkenni þess holts eða eiginleika er ekki vitað.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1913–1917. Jarðabók I. Vestmannaeyja- og Rangárvallasýsla. Kaupmannahöfn.
Árni Magnússon og Páll Vídalín. 1918–1921. Jarðabók II. Árnessýsla. Kaupmannahöfn.
DI = Diplomatarium islandicum. Íslenskt fornbréfasafn I-XVI. Kmh. 1857- Rvk. 1972.
Finnur Jónsson. 1907–1915. Bæjanöfn á Íslandi. Safn til sögu Íslands IV: 412–584. Skrá, bls. 917–937. Kaupmannahöfn og Reykjavík.
Jarðatal á Íslandi. 1847. Gefið út af J. Johnsen. Kaupmannahöfn.
Jón Árnason. 1954. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Ný útgáfa. Reykjavík.
Manntal á Íslandi árið 1703. Reykjavík 1924–1947.
Manntal á Íslandi 1801. Suðuramt. Reykjavík 1978.
Manntal á Íslandi 1816. V. hefti. Reykjavík 1973.
Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982.
Manntal á Íslandi 1910. II. Rangárvallasýsla og Vestmannaeyjar. Reykjavík 1995. III. Árnessýsla. Reykjavík 1997.
Ný jarðabók fyrir Ísland. [1861]. Kaupmannahöfn.
Sunnlenskar byggðir II. 1981. Flóinn. Ágúst Þorvaldsson: Jarðir og ábúendur í Hraungerðishreppi. [Selfossi].
Sunnlenskar byggðir V. 1987. Rangárþing vestan Eystri-Rangár. Sigurður J. Sigurðsson: Holtahreppur. [Selfossi].
Svavar Sigmundsson. 2006. Bæjanöfn í Holtahreppi. Í: Valgeir Sigurðsson og Ragnar Böðvarsson. Holtamannabók I. Holtahreppur, bls. 544-551. Hellu.
Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags. 1968. Rangárvallasýsla. Árni Böðvarsson sá um útgáfuna. Reykjavík.
Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags. 1979. Árnessýsla. Svavar Sigmundsson sá um útgáfuna. Reykjavík.
Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Örnefni í Rangárþingi. [Án árs.] II. Holtahreppur. Reykjavík. Fjölrit.