Handritið AM 593 4to er sagnahandrit frá síðari hluta 15. aldar, nú í tveimur hlutum sem merktir eru a og b. Samtals telja bækurnar núna 138 blöð en þegar handritið var heilt hafa blöðin verið fleiri, ef til vill um 172 blöð. Ein hönd er á handritinu en ekki er vitað hvað skrifarinn hét. Þó má tengja bókina við tiltekinn stað og tíma því að höndin sýnir náinn skyldleika við bréf sem ritað var í Neðra Hjarðardal í Dýrafirði 1459 og annað sem ritað var í Hvilft í Önundarfirði 1475. Einnig eru líkindi með sagnahandritinu AM 471 4to.