Skip to main content

Handritið AM 468 4to er betur þekkt sem Reykjabók og er talið hafa verið skrifað um eða stuttu eftir 1300. Bókin er að mestu verk eins óþekkts skrifara. Reykjabók telst með merkilegustu íslensku handritunum þar sem hún er eitt elsta handrit Njáls sögu og geymir heillegasta texta sögunnar sem varðveist hefur.
 

Reykjabók Njálu AM 468 4to, bl. 24v. Á neðri spássíu má sjá dróttkvæða vísu. Reykjabók samanstendur nú af 94 skinnblöðum. Ekki hefur hún þó haldist algjörlega í heilu lagi þar sem tvö blöð hafa týnst úr upprunalegu skinnbókinni. Í stað annars þeirra hefur verið bætt við nýju skinnblaði með heldur lélegum texta frá sautjándu öld sem samsvarar glataða hlutanum. Síðara blaðið týndist eftir að handritið komst í hendur Árna á fyrri hluta átjándu aldar og vantar þann bút enn. Það sem á því blaði stóð er hins vegar vel varðveitt, þökk sé afriti af Reykjabók sem Árni fékk Jón bróður sinn til að gera áður en blaðið glataðist. Jón Magnússon skrifaði upp mörg miðaldahandrit og er þekktur fyrir einkar vönduð vinnubrögð eins og sést þegar varðveittur frumtexti er borinn saman við afrit hans. Því má ætla að sérkenni textans á glataða blaðinu hafi skilað sér í afskrift Jóns.

Eitt aðalsmerki Njáls sögu í Reykjabók eru fjölmargar vísur sem eiga sér ekki samsvaranir í öðrum gerðum sögunnar. Þessar vísur eru einnig merkilegar fyrir þær sakir að þær er ekki að finna í textanum sjálfum, heldur eru þær skrifaðar á spássíur handritsins. Þetta bendir til þess að vísunum hafi verið bætt við eftir að óbundna málið var fært í letur. Rithönd þess sem bætti við vísunum er örlítið frábrugðin aðalhöndinni, en líklegast samtíða henni. Þetta einkenni handritsins veitir okkur innsýn í vinnulag skrifara miðaldahandrita og hvernig mismunandi heimildir hafa verið notaðar við að setja saman bókina. Nýlegar rannsóknir á Reykjabók hafa enn frekar leitt í ljós hvernig verkaskiptingu hefur verið háttað og hvernig skrifari vísnanna hefur að öllum líkindum átt stærri þátt í tilurð handritsins en lengst af hefur verið álitið. [1]

Fátt er vitað um sögu sjálfrar skinnbókarinnar fyrstu 300 árin en athugasemdir sem ritaðar eru á saurblað gefa vísbendingar um allnokkra fyrri eigendur hennar. Reykjabók dregur nafn sitt af bænum Reykjum í Miðfirði en þar bjó fyrsti þekkti eigandi bókarinnar, Ingjaldur Illugason lögréttumaður, á fyrri hluta sautjándu aldar. Árið 1642 gaf Ingjaldur svo bókina syni sínum Jóni sem hefur stuttu síðar gefið hana frænda sínum Þorkeli Arngrímssyni, syni Arngríms lærða. Þorkell gerði nokkuð víðreist því hann tók Reykjabók með sér til Danmerkur þar sem hann stundaði nám og ferðaðist meðal annars til Hollands. Reykjabók fylgdi honum á ferðalögunum og árið 1652 gaf Þorkell bókina kunningja sínum að nafni Jacob Golius (1596-1667), sem var prófessor í austurlandafræðum í Leiden. Bókin var svo í Hollandi þar til bókasafn Goliusar var selt á uppboði 1696 og danski bókasafnarinn Niels Foss (1670-1751) keypti hana. Reykjabók sneri því aftur til
Danmerkur og þar komst hún árið 1707 í eigu Árna Magnússonar. Ferðalögum handritsins var þó ekki lokið þar sem Árni lét stuttu síðar senda það til baka til Íslands þar sem bróðir hans gerði afskriftina sem áður var getið. Árið 1722 hélt svo Reykjabók í þriðju ferðina yfir hafið til Árna í Kaupmannahöfn þar sem hún er enn.

Reykjabók veitir ekki aðeins innsýn í hvernig forníslenskar bókmenntir urðu til heldur sýnir saga hennar einnig hvernig bækur bárust milli manna. Ekki er hægt að sjá á útliti Reykjabókar að tíð ferðalög hafi sett mark sitt á hana, en segja má að hin óvenjulega og vel skráða ferðasaga Reykjabókar geri merkilegt handrit enn merkilegra.
 

Texti eftir Ellert Þór Jóhannsson, áður birt október 2018.

 

HEIMILDIR

[1] Beeke Stegmann, “Collaborative manuscript production and the case of Reykjabók:
Paleographical and multi-spectral analysis”, í Historia mutila: New Studies in the Manuscript
Tradition of Njáls saga, red. Svanhildur Óskarsdóttir & Emily Lethbridge. Studies in Medieval
Culture (Kalamazoo, væntanleg 2018).

Hlekkur á pistil Beeke: https://haandskrift.ku.dk/motm/reykjabok_jun