Skip to main content

Lögbók á skinni skrifuð um 1363. Engar beinar heimildir eru til um upprunastað bókarinnar eða feril fyrstu tvær aldirnar, en líkur hafa verið að því leiddar að hún hafi verið skrifuð í Helgafellsklaustri. Bókin er vel varðveitt og eru í henni 157 blöð, þar af eru þó sex blöð sem endurrituð hafa verið skömmu eftir 1500 í stað upphaflegra blaða sem þá voru glötuð. Tveir dálkar eru á blaðsíðu, spássíur breiðar, letrið óvenjustórt miðað við það sem gerist í íslenskum handritum og stærra en í öðrum handritum sem hafa verið talin rituð af þessum sama skrifara. Lýsing bókarinnar er ein hin fegursta sem þekkist í íslenskum handritum; fimmtán sögustafir skreyta bókina og teygja leggir þeirra sig eftir endilöngum textadálkum; að auki er nánast hver upphafsstafur fagurlega gerður og fjölbreytileg mannsandlit dregin í marga þeirra. Í handritinu eru aftan við sjálfa lögbókina skrifaðar réttarbætur, Hirðskrá, kristinréttur Árna biskups, biskupastatútur o.fl. Hefur sýnilega verið safnað þarna í einn stað öllum lögum sem helst vörðuðu Íslendinga um það leyti sem bókin var skrifuð.

Jónsbók var lögbók Íslendinga sem tók við af Járnsíðu árið 1281 í kjölfar þeirra breytinga sem urðu við það að Íslendingar gengu á hönd Noregskonungi með Gamla sáttmála 1262-64 og gilti hún lítið breytt fram að því að einveldi komst á árið 1662. Jónsbók er kennd við Jón Einarsson lögmann í Hruna sem vann að samningu hennar á vegum Magnúsar lagabætis, Noregskonungs. Jónsbók er að stofni til byggð á Landslögunum norsku sem sett voru 1274 að undangenginn samræmingu löggjafar í Noregi. Í Jónsbók er þó jafnframt mun oftar stuðst við hin fornu þjóðveldislög Grágásar en verið hafi í Járnsíðu, svo að með Jónsbók tók margt aftur gildi úr eldra rétti.

Lögtaka Jónsbókar var framhald þeirrar þróunar sem hófst með Gamla sáttmála og Járnsíðu og fól í sér breytta stjórnskipan á Íslandi, framkvæmdavald konungs og aukið löggjafarvald hans, eflingu umboðstjórnar með hirðstjórum, breytta skipan Alþingis o.fl. Jónsbók var vinsæl lögbók og dugði vel meðan þjóðarhagir voru svipaðir og í lok 13. aldar, enda urðu á Íslandi engar þær þjóðfélagsbreytingar um aldir sem brutu í bága við forna löggjöf.

Jónsbók var mest lesin allra bóka á Íslandi um langan aldur og lærðu margir að lesa á hana. Af Jónsbók eru líka til flest varðveitt handrit allra íslenskra miðaldatexta eða á þriðja hundrað. Stærst og fegurst þeirra allra er Skarðsbók. Á 16. öld er vitað að hún var í eigu Eggerts Hannessonar lögmanns (d. um 1583). Hann gaf hana dóttursyni sínum Birni Magnússyni sýslumanni í Bæ á Rauðasandi (d. 1635), en sonur hans var Eggert sýslumaður á Skarði á Skarðsströnd og af þeim bæ hlaut hún nafn sitt. Þórður Jónsson, síðar prestur á Staðarstað á Snæfellsnesi, gaf Árna Magnússyni Skarðsbók, og hefur Þórður fengið bókina hjá móðurbróður sínum Þorsteini Þórðarsyni bónda á Skarði, tengdasyni Eggerts Björnssonar. Þórður var í Kaupmannahöfn veturinn 1697-8 og ætlaði sér að hljóta biskupsembættið í Skálholti, sem ekki tókst. Skarðsbók hefur Þórður haft með sér utan og hugsanlega fært hana Árna til að liðka fyrir stuðningi hans til að ná biskupsembættinu. Skarðsbók kom aftur heim til Íslands 1975.