Skip to main content

Pistlar

Af þjófótta skjórnum

Óperan La gazza ladra eftir Gioacchino Rossini heitir á íslensku Þjófótti skjórinn. Eins og fleiri hröfnungar eru skjórar glysgjarnir fuglar og safna sér gjarna glingri. Frændur þeirra hérlendis eru einmitt þekktir fyrir að næla sér í alls konar drasl sem glitrar og jafnvel málma á borð við teskeiðar sem þeir færa heim í laupinn.

Í óperu Rossinis koma við sögu dæmigerð mynstur úr óperubókmenntunum: Þjónustustúlka í húsi ríkrar fjölskyldu, faðir hennar liðhlaupi úr hernum, stúlkan er ástfangin af syni húsbændanna sem er á heimleið af vígstöðvunum. Þjónustustúlkan er ranglega þjófkennd þegar silfurborðbúnaður tekur að hverfa af heimilinu (skýringin á hvarfinu felst auðvitað í heiti óperunnar) en bæjarstjórinn er fantur sem girnist þjónustustúlkuna og vill fá ástir hennar að launum fyrir sýknu. Svona vindur þessu áfram í ýmsum flækjum en allt endar vel að lokum enda fannst silfrið í hreiðri skjórsins. Una Margrét Jónsdóttir hjá Ríkisútvarpinu sagði frá því í dagskrárkynningu að lesendur Tinnabóka Hergés gætu e.t.v. munað eftir því að í sögunni Vandræði Vaílu Veinólínó gegni óperan La gazza ladra lykilhlutverki. 

Sagan er raunar sótt í leikrit frá 1815, La pie voleuse, eftir Baudoin d’Aubigny og Caigniez. Skjór heitir sem sagt pie á frönsku. Á ensku er heitið magpie. Danska heitið er skade, eða husskade. Hins vegar kallast fuglinn á norsku skjor og færeysku skjóra.

Eins og lesandi hefur e.t.v. þegar veitt athygli hef ég hér á undan beygt fuglsheitið skjór með stofnlægu r: skjórinn, um skjórinn, frá skjórnum, til skjórsins; fleirtala skjórar, um skjóra, frá skjórum, til skjóra.

Þetta er sams konar beyging og við þekkjum í orðum á borð við bjórinn, flórinn, kórinn o.s.frv.

Karlkynsorðið skjórr kemur t.a.m. fyrir í lækningahandritinu AM 434 a 12˚ (frá um 1500) þar sem leiðbeint er um hjálp í viðlögum: Vid bit olms hundz edur otams þaa tac fugll þann er skiorr heitir ok siod i vatnni ok gef honum at eta med godu vine, þa mun ecki saka. Dæmið má finna í fornmálsorðabókinni góðu í Kaupmannahöfn sem einnig geymir uppflettiorðið Skjórastaðir (örnefni). Einnig er getið um skjór sem viðurnefni: Í norsku fornbréfasafni má finna Testamentum herra Paals skiors Eirikssonar.

Eins og tilvitnuð dæmi bera með sér er hér gert ráð fyrir því að r-ið hafi verið langt (eða tvöfalt) í nefnifalli eintölu, skjórr, líkt og í mörgum öðrum karlkynsorðum, sbr. herr, Gunnarr o.s.frv. Við getum hugsað okkur að „seinna r-ið“ hafi verið beygingarending en hið fyrra hluti stofnsins. Ef við hugsum þetta út frá nútímamáli þýðir það með öðrum orðum að r-ið haldist gegnum alla beyginguna. 

Beygingin á orðinu skjór er annars nokkuð á reiki í íslensku nútímamáli þá sjaldan að þennan erlenda fugl ber yfirleitt á góma. Dæmi úr textum eru ekki ýkja mörg og orðabókum ber ekki saman. Orðabók Blöndals getur t.a.m. eingöngu um beygingu þar sem gert er ráð fyrir að stofn orðsins sé r-laus: skjór, í eignarfalli eintölu skjós, í nefnifalli fleirtölu skjóir. Eintalan beygist sem sagt hjá Blöndal eins og orðið skór eða mór en fleirtalan eins og orðið brotsjór. Íslensk orðabók býður upp á val í nefnifalli fleirtölu, skjórar eða skjóir. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er gefinn kostur á beygingu með eða án stofnlægs r-s: í eintölu skjórinn, um skjórinn; eða skjórinn um skjóinn; og í fleirtölunni er gefið annars vegar skjórar, um skjóra, frá skjórum, til skjóra, og hins vegar skjóir, um skjói, frá skjóum (eða skjóm), til skjóa. Íslensk stafsetningarorðabók hefur einnig val, með og án r-s. Eignarfall eintölu er haft annaðhvort skjórs eða skjós, en nefnifall fleirtölu skjórar eða skjóar (bókin sýnir sem sagt ekki fleirtölumyndina skjóir eins og gert er hjá Blöndal, ÍO og í BÍN).

Dæmi á tímarit.is um nefnifall fleirtölu skjórar eru ríflega tvöfalt fleiri en fleirtalan skjóir. Dæmin frá undanfarandi hálfri annarri öld eru þó aðeins um þrír tugir talsins.

Sem fyrr segir er fleirtalan skjórar í ágætu samræmi við nokkur algeng orð í nútímamáli, t.d. bjórar og kórar, og samræmist jafnframt upprunanum. Í orðsifjabókinni stingur Ásgeir Bl. Magnússon upp á því að endurgera frumnorrænan uppruna sem *skeurō. Ásgeir getur um þá tilgátu að orðið skjór tengist litunum á fuglinum og gæti því verið skylt lýsingarorðinu skjóttur og hestsnafninu Skjóni. Nefnir hann einnig í þessu sambandi m.a. færeyska orðið skjóringur ‘marglit skepna, einkum langvía í vetrarbúningi’.

 

 

Birt þann 3. janúar 2022
Síðast breytt 24. október 2023