Skip to main content

Pistlar

Aftökuörnefni

Flutt á fræðafundi Nafnfræðifélagsins í Öskju, Háskóla Íslands, 26. febrúar 2011

Góðir áheyrendur

Það má víst með sanni segja, að fremur skuggalegur hreimur sé í heiti þessa erindis, sem hér verður flutt: Aftökuörnefni. Vera má, að sumir áheyrendur hafi aldrei heyrt þetta hugtak nefnt á nafn fyrr, en þó er það væntanlega nokkuð lýsandi og sæmilega „gegnsætt“ þegar að er hugað, þótt það þarfnist að vísu nokkurrar skýringar. Um er að ræða örnefni, sem með einum eða öðrum hætti vísa til eða kunna að benda til refsiframkvæmdar fyrri tíma, þegar líflátshegningar voru í íslenskum lögum og meðan dauðadómum var framfylgt víða um land. Þau hafa því, mörg hver, sögulega skírskotun, geyma í sér enduróm frá dapurlegum tímum í sögu okkar, þegar refsiframkvæmd var allt önnur og miklu harkalegri en við þekkjum á okkar dögum. Reyndar má vel vera, að ég hafi fyrstur manna notað þetta hugtak, sem hafi þá orðið til í tengslum við rannsóknir mínar á aftökum sakamanna og á aftökustöðum frá fyrri tíð, fyrir mörgum árum síðan.

„Aftökuörnefni“ má, sem sagt, kalla þau örnefni, er vísa til eða geta vísað til lífláts dæmdra sakamanna – og reyndar í sumum tilvikum til aftöku manna án dóms og laga. Sem bestu og skýrustu dæmin má nefna örnefni eins og Drekkingarhyl, Brennugjá, Höggstokkseyri og Gálgakletta, sem öll eru á alþingisstaðnum gamla á Þingvöllum, þar sem öll okkar, sem erum nú í þessari stofu, hafa oft komið. Vísa þessi örnefni öll með fullri vissu til refsiframkvæmdar á Öxarárþingi meðan sakamenn voru þar enn teknir af lífi, sem var langt fram á 18. öld. Víða um land gefur einnig að finna aftökuörnefni, m.a. á eða í grennd við gamla þingstaði. Eru ýmsar sagnir tengdar sumum þeirra, þó misjafnlega áreiðanlegar. Víða eru t.d. Gálgar og Gálgagil, sem aftökusagnir tengjast, en þó er stundum alls óvíst eða jafnvel mjög ólíklegt að þar hafi aftökur farið fram í reynd. Ég mun reyna að skýra þetta betur hér á eftir.

Áður en við ræðum nánar um örnefnin er rétt að víkja í stuttu máli að aftökum dæmdra sakamanna fyrr á tíð, þ.e. manna, sem þar til bærir embættismenn eða dómsmenn í fjölskipuðum dómstólum höfðu dæmt til að missa lífið, lögum samkvæmt, vegna stórglæpa, sem á þá höfðu sannast í dómsmálum, sem höfðuð voru gegn þeim. Þegar ég nefni hér stórglæpi – sem vörðuðu líf gerendanna – skyldum við m.a. hafa hugfast, að mat löggjafans á því, hvaða athæfi fellur undir þá skilgreiningu, hefur breyst mjög í rás tímans. Menn voru fyrrum líflátnir m.a. fyrir morð, sem enn er vissulega höfuðglæpur, sem þung refsing liggur við, en þó að sjálfsögðu „aðeins“ fangelsisrefsing. En hvað t.d. um þjófnað eða framhjáhald (eða annars konar kynlíf „utan dagskrár“) sem fyrrum gátu verið líflátssakir? Þjófnaður er að vísu refsiverður, enn sem fyrr, en tiltölulega vægum viðurlögum er beitt, með skilorðsbundnum dómum og reynslulausn og öðrum mildandi ákvörðunum eftir atvikum – jafnvel samfélagsþjónustu, svokallaðri, ef við getur átt. Fyrr á öldum þurfti þjófnaður ekki að vera sérlega stórvægilegur (á okkar mælikvarða) svo að uppvís þjófur mætti ekki þola það að vera festur upp í gálga, hengdur – sem var alkunn refsing fyrir þjófnað, bæði hér á landi og erlendis. Eitt lamb, sem lenti í röngum potti, gat orðið kveikjan að atburðarás, sem endaði með lífláti þjófsins og upplausn fjölskyldu hans. Og svo er að líta á hitt, að flest það, sem áður var talið til kynlífsbrota og leiddi til aftöku fjölda fólks, er nú refsilaust með öllu, og er varla einu sinni talið til siðferðisbrota að mati margra manna, að því er helst má ætla. Okkur er m.a. hollt að hafa þetta í huga, þegar við skoðum þá staði, sem aftökuörnefni tengjast og þar sem vitað er að sumir forverar okkar í landinu voru teknir af lífi.

Samkvæmt Grágásarlögum, sem skrásett voru undir lok þjóðveldisaldar, var ekki gert ráð fyrir dauðarefsingum, en skóggangur var þar hins vegar þyngsta refsingin, sem lögð varð á brotlega menn – þ.e. þeim var útskúfað úr mannlegu samfélagi og voru reyndar réttdræpir, óælir og óferjandi, en opinbera framkvæmdarvaldið, sem var reyndar mjög veikt á þeim tíma, hlutaðist ekki til um aftöku þeirra. Líklegt er þó, að snemma á þjóðveldisöldinni hafi aftökur verið í lögum hér, eins og var meðal grannþjóða okkar á þeim tíma, en um það er þó ekki beinlínis vitað. Hins vegar má ráða af sæmilegum heimildum, að á þjóðveldisöld hafi menn iðulega tekið sig saman um að ráða alls kyns illþýði og glæpamenn (t.d. seiðskratta og þjófgefna umrenninga) af dögum, utan laga og réttar, og þá almennt verið litið á það sem hverja aðra landhreinsun. Alls ekki er óhugsandi, að einhver hinna svokölluðu aftökuörnefna, sem ekki verða beinlínis bendluð við neinar aftökur, sem þar gætu hafa farið fram á síðari öldum, eigi rót sína að rekja til raunverulegra atburða af þessu tagi á fyrstu öldum Íslandsbyggðar eða þá jafnvel síðar. Þjóðarsálin er oft langminnug, ef svo má að orði komast, og alkunna er að mörg örnefni hafa fylgt þjóðinni allt frá dögum fyrstu forfeðra og formæðra okkar í landinu.

Líflátshegningar komu fyrst inn í skráða löggjöf okkar með lögbókunum Járnsíðu (1271) og Jónsbók (1281) og voru síðan í lögum allt til síðari tíma. Á alllöngu tímabili giltu hér einnig ákvæði svokallaðs Stóradóms, sem mæltu fyrir um líflátshegningar fyrir afbrot á kynferðilega sviðinu, og refsiákvæði úr norskum og dönskum rétti komu einnig til sögu á 18. öld og síðar. Þegar komið var fram á síðari hluta 18. aldar tók mjög að draga úr dauðarefsingum hér á landi en fangelsisrefsingar komu að nokkru leyti í þeirra stað, enda var um það leyti byggt fangahús í Reykjavík – sem nú hýsir reyndar forsætisráðherra landsins! Komu þar m.a. til mildandi áhrif frá upplýsingarstefnunni svonefndu, sem átti sér ýmsa forvígismenn hér á þeim tímum. Síðasta aftaka hér á landi fór fram 1830, í Húnaþingi, eins og mörgum er kunnugt um, en hin næstsíðasta árið 1790, í Skagafirði, hálshöggning í báðum tilvikum. Líflátshegning var þó áfram í lögum hér allt til 1928 og allmargir líflátsdómar voru kveðnir upp á 19. öld, sem þó var ekki framfylgt eftir efni sínu heldur beitti konungur náðunarvaldi sínu þannig að refsingunni var breytt í lífstíðarfangelsi (stundum með endanlegri náðun að allmörgum árum liðnum). Síðasti líflátsdómur hér á landi var kveðinn upp í Landsyfirrétti 1914 og staðfestur í hæstarétti í Kaupmannahöfn árið eftir, en honum var síðar með náðun breytt í fangelsisdóm.
Aftökutegundir voru hér með fernum hætti, allt eftir eðli brotanna.

1) Margir voru hengdir í gálga, einkum þjófar. Líklegt er, að hengingin hafi oft farið fram með þeim hætti að sterklegur raftur var lagður yfir skoru milli lágra kletta eða þ.h., en vafalaust hafa einfaldir gálgar úr timburstoðum og með þvertré iðulega verið reistir, þar sem aðstæður buðu upp á það fremur en hina aðferðina. Sagnir eru um, að þess hafi verið dæmi að gálgatré eða raftur væri látið standa fram af kletti af hæfilegri hæð og þeim enda trésins, sem var uppi á klettinum, haldið niðri af þungu fargi en sakamaðurinn dinglað á þeim hluta trésins, sem stóð út frá klettinum. Slík saga fylgir t.d. Gálgaási á Egilsstöðum, sem margir kannast við, en þar við hafa fundist mannabein.

2) Þá voru einnig margir hálshöggnir, fyrr og síðar, og öxi notuð til þess. Þessa menn var talið, að öxin og jörðin geymdi best. Hér sjáum við mynd af öxinni og höggstokknum sem notuð voru við síðustu aftöku á Íslandi 1830, sem varðveitt eru í Þjóðminjasafni.

3) Drekking sakakvenna var alkunn og tíðkuð fram á 18. öld.

4) Á vissu tímabili, þ.e. frá 1625 til 1685, voru allmargir brenndir til ösku, í refsingarskyni fyrir óguðlegt eða öllu heldur djöfullegt athæfi, einkum galdra en síðasti dauðamaðurinn þó fyrir gróft guðlast.

Í landinu eru til örnefni, sem vísa til allra þessara aftökutegunda eins og brátt skal vikið nánar að.

Algengast virðist hafa verið, að menn væru teknir af lífi á þingstöðum landsins, sem almennt voru í hverjum hreppi, auk alþingisstaðarins við Öxará, eða þá, að öðrum kosti, teknir af (einkum hengdir) skammt frá þingstöðunum. Þess vegna er eðlilegt, að ýmis aftökuörnefni tengist gömlu þingstöðunum eða nánasta umhverfi þeirra. Yfirleitt voru menn teknir af strax að dómi gengnum eða þá skömmu síðar, meðan þinghald stóð enn yfir.

Líkamar aftekinna manna voru nær alltaf huslaðir, án allrar viðhafnar og kirkjulegrar íhlutunar, hið næsta aftökustöðunum – og enn í dag má finna á ýmsum þeim stöðum beinamusl, sem ber með sér minjar um hinstu hvílustaði þessara brotlegu manna, eða þá gamlar dysjar, sem ætla má að geymi misfúin bein ógæfufólks, sem varð að lúta í lægra haldi fyrir böðlum konungs. Böðulsembættið var fyrrum alkunnugt. Því gátu fylgt sæmilegar tekjur þegar „vel áraði“ en lítt var það bendlað við ástsæld og virðingu meðal almennings!

Í nánum tengslum við það, sem hér hefur verið sagt um aftökur dæmdra manna er einnig rétt að geta þess, að líkamlegar hegningar (aðrar en aftökur) voru tíðkaðar hér um margra alda skeið og áttu sér stoð í refsilögum fyrri tíðar. Einkum var um að ræða hýðingar – öðru nafni húðlát – sem var algeng refsing við afbrotum eða sem ekki töldust dauðasök, og svo einnig brennimerkingu þjófa – svokallað þjófamark, sem brennt var með glóandi járni á enni eða vanga ófrómra manna. Báðar þessar refsitegundir, sem yfirleitt voru framkvæmdar á þingstöðunum eins og aftökurnar, lögðust af á 19. öld, brennimerkingar á fyrri hluta aldarinnar en hýðingar á síðari hlutanum, þótt húðlát væri reyndar viðurkennd refsitegund í íslenskum lögum allt fram til 1940. Gapastokksrefsing var einnig við lýði á tímabili, fram yfir aldamótin 1800.
Yfirleitt verða ekki fundin örnefni, sem vísa með alveg ótvíræðum hætti til hýðinga eða brennimerkinga, nema örnefnið Kagahólmi á Þingvöllum, sem var einn af hólmum Öxarár niðri á völlunum, en þar stóð lengi kaginn, þ.e. staur sem menn voru bundnir við þegar þeir voru hýddir.

Víkjum nú nánar að aftökuörnefnunum, en af skiljanlegum ástæðum verður þó einungis um örstuttar athugasemdir að ræða með fáum, völdum dæmum, auk þess sem bent verður á nokkur vafaatriði, sem verð eru frekari hugleiðinga, þá m.a. í hópi málfræðinga eða sérfróðra örnefnafræðinga. Einfaldast er þá að byrja á þeim stað á landi okkar, þar sem langflestir dauðadómar voru upp kveðnir og flestir sakamenn því teknir af lífi þar. Enginn annar þingstaður hérlendis kemst í hálfkvisti við þennan stað að þessu leyti. Hér á ég við alþingisstaðinn forna á Þingvöllum við Öxará, þar sem var allsherjarþingstaður þjóðarinnar um margra alda skeið eða fram um 1800. Þangað var oft farið með sakamenn, sem búið var að dæma til dauða á þingstöðum úti um landið, þannig að endanlegur úrskurður var þá lagður á mál þeirra í alþingis- eða lögmannsdómi. Verður sú saga rakin af Alþingisbókum allar götur frá því á síðustu árum 16. aldar. Á Þingvöllum voru með nærfellt fullri vissu 72 menn (karlar og konur) teknir af lífi að undangengnum dómum. Þar af 30 hálshöggnir, 15 hengdir, 18 konum drekkt, og 9 galdramenn eða guðlastarar brenndir. Er þá miðað við árabilið frá 1602 til 1752, þegar síðast var þar tekinn maður af lífi, hálshöggvinn.

Enginn þingstaður á landinu býr yfir eins mörgum aftökuörnefnum og Þingvellir. Þar gefur að finna örnefni, sem tengjast öllum fjórum aftökuaðferðunum, sem áður hefur verið lýst. Lítum nánar á þetta:

1) Svokallaður Gálgi eða Gálgaklettar er í Stekkjargjá, er gengur til norðausturs frá Öxarárfossi, í reynd framhald Almannagjár. Upp vesturbarm gjárinnar, sem er alllöng, flöt og gróin í botninn, lá forðum stígur upp úr henni, sem kallaður var Langistígur. Sjálf var gjáin kennd við stekk Þingvallapresta, sem oft bjuggu myndarlega þar á staðnum. Enginn vafi er á því að þetta örnefni vísar til raunverulegra atburða, sem þar urðu. Þetta gálga-heiti á tvímælalaust við um tilvalinn hengingarstað, sem var við austurvegg gjárinnar, um 400 m fyrir norðan Öxarárfoss. Sigurður Guðmundsson málari, sem mjög kynnti sér sögu Þingvalla, hefur þetta eftir gömlum Þingvallapresti (sem þó hafði að vísu ekki lifað atburðina sjálfur, en hafði góða heimildarmenn): „Gálginn var ... milli tveggja viðlausra kletta, sem kölluðust Gálgaklettar, í Almannagjá, austanvert við götuna, sem liggur eftir gjánni til Langastígs. Ekki held ég að þar hafi verið rúm til hengingar nema einum, þó 2 kynnu að hafa getað dinglað í einu. Þar nálægt voru mannabein að finnast, og leggur af manni fannst þar nálega í minni tíð“. Annar heimildarmaður Sigurðar getur þess, að raftur hafi þar verið lagður milli tveggja kletta og hafi „annar trésendinn átt að liggja á hellu út úr barminum en hinn á hleðslumynduðu þrepi í frálausu klettunum“. Enn annar heimildarmaður Sigurðar, sagði honum að 6-7 hauskúpur hafi fundist í holu á þessum stað laust fyrir 1830 og hafi þáverandi staðarklerkur látið flytja þær í kirkjugarðinn.

Annar staður í Stekkjargjá kemur einnig mjög sterklega til greina sem hengingarstaður, sem stundum hafi verið notaður, einkum ef hengja þurfti fleiri menn en einn í einu og fyrrnefnda aðstaðan þá ekki dugað ein saman. Hann er við vesturvegg gjárinnar nokkuð fyrir norðan Gálgaklettana, skammt frá Langastíg, sem fyrr var nefndur. Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, var á Þingvöllum 1792 og 1793 og ritaði um athuganir sínar þar. Þáverandi Þingvallaklerkur sagði honum ýmislegt um þinghaldið og staðhætti, sem því tengdust. Segir Sveinn, að á þessum stað hafi þjófar verið hengdir forðum með því að „leggja tré milli tveggja samhliða kletta, sem eru hálfur annar faðmur á hæð“, og að þar megi finna mannabein. Athyglisvert er þó, að aftökuörnefni (svo sem Gálgi eða Gálgaklettar) fylgir þó ekki beinlínis þessum stað við vestari gjávegginn nálægt Langastíg.

Á Þingvöllum var einnig til örnefnið Höggstokkseyri, sem bendir eindregið til þess, hvar höggstokkurinn hafi staðið. Það hefur þó að vísu ekki varðveist sem „lifandi“ örnefni þar um slóðir en nægar heimildir eru um það. Átt er við eyri í Öxará niðri á Völlunum, en þar hafa hins vegar orðið miklar breytingar á hólmum og vatnsrásum á liðnum öldum. Eru sterkar líkur til að Höggstokkseyrin hafi verið á hólma undan mynni Brennugjár, sem brátt veður nánar getið, en sú eyri, sem fyrrum hefur þá borið þetta nafn í munni manna, er nú uppgróin.

Eins og fyrr segir var a.m.k. 18 konum, sem hrasað höfðu siðferðislega, drekkt á Þingvöllum, hið fyrsta eftir að dómar gengu þar í málum þeirra. Aldrei hefur leikið vafi á því, og er staðfest af eldri sem yngri heimildum, að aftökustaður þessara kvenna hafi verið í Drekkingarhyl í Öxará, þar sem slóðin (áður um skeið bílvegurinn) niður Almannagjá liggur. Segja má, að hvert mannsbarn þekki þennan stað. Heimildir eru fyrir því, að konunum hafi verið drekkt þannig að þær voru settar í poka og síðan haldið niðri í vatninu með stöng, þar til víst var að þær væru drukknaðar (þ.e. þær voru hættar að brjótast um).

Örnefnið Brennugjá á Þingvöllum er einnig alkunnugt. Það er öruggt, að nálægt mynni gjárinnar, nærfellt á þeim stað þar sem bílvegurinn liggur nú yfir hana, fóru fram brennur þeirra sakamanna, sem þar fengu að stikna á logandi hrísköstum (sagt var að það tæki 20 hestburði af hrís til að brenna einn mann til ösku). Örnefnið er því eins lýsandi og hugsast getur, og það sama á við um öll aftökuörnefnin á Þingvöllum, sem hér hafa verið nefnd.

Úti um byggðir landsins eru síðar fjölmargir staðir, þar sem heimildir benda til, að sakamenn hafi verið teknir af lífi meðan dauðarefsingum var enn framfylgt hérlendis. Voru þá, eftir atvikum, notaðar allar þær aftökuaðferðir, sem fyrr var lýst. Er vitað um, skv. góðum eða a.m.k. sæmilegum heimildum, að þar hafa farið fram töluvert fleiri aftökur heldur en á alþingisstaðnum við Öxará, þótt yfirleitt sé ekki vitað nema um fáar aftökur á hverjum stað, oft aðeins eina með fullri vissu. Eins og að líkum lætur benda heimildir oft skýrlega til þess, að þær aftökur hafi þá farið fram á þingstöðunum gömlu eða hið næsta þeim en einnig eru dæmi þess, að sannanlegir aftökustaðir – einkum þá hengingarstaðir – séu í nokkurri fjarlægð frá viðurkenndum þingstöðum. Sem sjaldgæft dæmi um það, að staður til hálshöggningar hafi verið allfjarri þingstað, má nefna, að þegar þau Friðrik og Agnes, sem urðu uppvís að morðum og brennu eins og alkunnugt er, voru höggvin í Húnaþingi 1830, var fundinn sérstakur staður fyrir aftökuna, einn af hólum þeim sem nefnast Þrístapar, og margir hafa séð enda skammt frá þjóðveginum. Var þá sérlega mikið við haft og smalað þangað fólki víða að úr sýslunni til að fylgjast með aftökunni, sem annars var aldrei gert eftir því sem best verður vitað. Þessi staður tengist ekki neinum nærliggjandi þingstað en hefur þótt vera miðsvæðis og liggja vel við samgöngum og því hentugur til þessa. – Þarna er að vísu ekkert aftökuörnefni.

Athyglisvert er og má reyndar merkilegt heita, að bein og ótvíræð aftökuörnefni, sem höfði skýrlega til líflátshegninga almennt eða þá til þeirra fjögurra tegunda dauðarefsinga, sem fyrr hefur verið greint frá, eins og er um aftökuörnefnin á Þingvöllum, finnast ekki sérlega mörg úti um land, á hinum fornu þingstöðum eða nálægt þeim – ef frá eru talin gálga-örnefnin, sem oft eru þá nokkurn spöl frá þingstöðunum sjálfum. Fjölmörg þess kyns örnefni eru til en að vísu misjafnlega líklegir aftökustaðir sökum aðstæðna.

Af aftökuörnefnum – öðrum en gálga-örnefnum – úti um land má m.a. benda á Aftökuhól hjá Eskiholti á Mýrum og Drekkingarhyl hjá Bessastöðum í Fljótsdal. Líklegt er einnig að Drekkingarhylur í landi Einholts í Austur-Skaftafellssýslu geymi í sér trúverðugt minni. Engin örnefni, utan alþingisstaðarins, vísa, mér vitanlega, beinlínis til brennu galdramanna eða með skýrum hætti til hálshöggningar morðingja og annars konar sakamanna. Við einstaka þingstaði var að vísu til heitið Höggsteinn, sem gæti vissulega bent til þess síðara, en það er þó ekki fullvíst.

Hins vegar úir og grúir af gálga-örnefnum víða um land – og séu þau öll látin falla í einn flokk eru þetta lang algengustu aftökuörnefni á landi hér, þótt staðirnir sjálfir, sem bera nöfnin, séu misjafnlega líklegir sem fornir aftökustaðir. Er þá oft um að ræða skorur milli kletta, þar sem vel mátti leggja raft eða þvertré yfir, sem varð þá að gálgatré, eða milli tveggja hárra steina o.þ.h. Á sinni tíð safnaði ég dæmum um fjölmörg slík örnefni og birti árangur þeirra rannsókna á fleiri en einum stað. Ég ætla ekki að þreyta fundarmenn á löngum upptalningum á slíkum stöðum eða örnefnum. Sem skýr dæmi um örugga hengingarstaði, sem bera skýr og hrein aftökuörnefni, þ.e. gálga-örnefni, skal hér látið nægja að benda á tvo:

1) Gálgaklettar eru í Sortuhrauni nálægt Hólkoti í Aðaldal og ekki ýkja langt frá þingstaðnum að Helgastöðum. Þar við hafa fundist mannabein. Klettarnir líta svona út og bjóða upp á haganlega aðstöðu til hengingar:

2) Síðan eru það Gálgaklettar í Gálgahrauni við Lambhúsatjörn, skammt frá valdsmannsetrinu forna að Bessastöðum og ekki ýkja langt frá Kópavogsþingstað. Við þessa myndarlegu kletta hafa sannanlega fundist mannabein. Þar má vel setja raft milli klettabríka, ef skynsamlega er að farið. Lítum nú á þessa kletta, sem margir þekkja, enda alkunn og skemmtileg gönguleið með ströndinni í námunda við þá:

Einnig má nefna Gálga við Heggsstaði (Borg.) og hjá Smiðjuhóli á Mýrum, Gálga (alltaf haft í fleirtölu þar, þ.e. Gálgar í nefnifalli) nálægt Dröngum á Skógarströnd, Gálganes í landi Staðarfells í Dölum, Gálgasteina hjá Hvestu í Barð., Gálgagarð hjá Reynistað í Skag. með annálsfestri sögn um hengingu þjófa, þar sem gálgar hafa þá væntanlega verið reistir, og Gálgaás hjá Egilsstöðum, sem margir þekkja, en þar hjá hafa fundist mannabein. Svo mætti mikið lengur telja því að þau gálga-örnefni eru allmörg, sem geta vel vísað til raunverulegra atburða, þótt aðrir staðir, sem þau örnefni bera, séu fremur ólíklegir aftökustaðir.

Allvíða um land má finna djúp og þröng – jafnvel beinlínis hrikaleg – gil eða gljúfur, sem bera heitið Gálgagil, og sem sagnir eru um, að þar hafi verið hengdir þjófar fyrr á tíð, þá með þeim hætti að mikill raftur hafi verið lagður þvert yfir gilið og mennirnir hengdir þar á og því fengið að dingla tugum metra yfir straumharðri á í gilbotninum! Þar er því í vissum skilningi um aftökuörnefni að ræða, en sannast sagna eru sagnirnar þó mjög ótraustar eða jafnvel ótrúlegar auk þess sem aðstæður bjóða ekki beinlínis upp á skynsamlega – eða yfirhöfuð framkvæmanlega – aðferð við hengingu sakamanna, yfir þveru gljúfrinu! Getur væntanlega hver og einn séð það í hendi sér. Sem skýr dæmi um hrikaleg gil af þessu tagi má nefna Gálgagil við Ambáttardal í Austur-Húnavatnssýslu og Gálgagil við fjallið Glóðafeyki í Blönduhlíð í Skagafirði – en í skorningum eða sprungum út frá þessum giljum báðum hefði að vísu sennilega mátt hengja ófróma menn:

Víða má einnig finna örnefni eins og Gálgi, sem ekki vísa til gljúfra, en þeir staðir eru oft ekki líklegir aftökustaðir, þegar vel er að gáð.

Líklegt er, að sum gálga-örnefnin bendi ekki til hengingarstaða heldur hafi í sér fólgna merkingu, sem vísi til líkingar, þ.e. merki eitthvað sem er hátt, þröngt eða slútandi, og er það umhugsunarefni fyrir menn, sem eru mér lærðari í málfræði. Ef það er réttilega ályktað er líklegast að eftir að gálga-örnefnið var komið til sögu og orðið vel kunnugt ýmsum þar nærsveitis hafi þjóðsaga orðið til út frá nafninu, en sagnir um hengingu sakamanna fylgja ýmsum þessum örnefnum, þótt aðstæður leyfi varla hengingu með skynsamlegu móti eða geri söguna ósennilega af öðrum ástæðum, t.d. vegna mikillar fjarlægðar frá þingstöðum eða mannabyggð.

Sennilegt er einnig, að sum önnur örnefni, sem kynnu við fyrstu sýn að benda til henginga forðum daga, og má þannig e.t.v. draga í dilk með aftökuörnefnum, séu fremur líkingar- eða náttúrunöfn, svo sem Hangahamar í Skerjafirði, sem er við sjó fram, en engar sagnir styðja að því að um raunverulegt aftökuörnefni sé að ræða. Í fornu máli merkti þó hangi hengdan mann, þannig að hér verður að álykta með gát. Líklegra er þá örnefnið Hengingarklettur í landi Mógilsár á Kjalarnesi, sem ekki fylgja að vísu miklar sögur.

Að lokum má geta þess, að víða um land, einnig uppi á óbyggðum, má finna örnefni, sem hafa Þjófa- að forlið. Fylgja sumum þeirra sagnir (flestar heldur ótraustar) um það að þar hafi hafst við útileguþjófar, sem oftast náðust reyndar um síðir og voru þá teknir af lífi. Eru þau þá á sinn hátt eins konar aftökuörnefni eða falla a.m.k. í skyldan flokk. Á þessum sögnum, sem oft eru með ævintýrablæ, verður þó yfirleitt lítið byggt, nema ef vera skyldi um svonefnt Þjófagil í fjallinu Staðaröxl í Skagafirði, en um það eru til annálsfestar sagnir nærsveitunga, sem ekki er auðvelt að afgreiða sem hreinan uppspuna, og mætti margt um það segja. Reyndar fylgir þeim annálsfrásögnum, að þjófarnir sem hafst höfðu við í Þjófagilinu, hafi, eftir að byggðarmenn náðu þeim, verið hengdir í svonefndum Gálgagarði nærri Reynistað. Það örnefni var síðan lengi vel kunnugt á þeim slóðum. Miklar dysjar eru þar nærri og þar hafa fundist mannabein, einnig á okkar tímum.

Ég vonast til, að það, sem hér hefur komið fram, geti orðið til þess að áheyrendur velti áfram fyrir sér ýmsum álitamálum varðandi aftökuörnefni í landi okkar og hafi þau, sem og harkalega refsihætti fyrri tíðar, m.a. í huga á ferðalögum sínum um landið. En alveg sérstaklega geta þó öll gálga-örnefnin boðið upp á grufl og jafnframt nánari athuganir á þeim stöðum, sem slík örnefni bera. Kann þá vel að vera að athugulir menn komist að öðrum niðurstöðum en ég gerði, þegar ég var einkum að fást við athuganir á þessum atriðum fyrir mörgum árum.

 

Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023