Skip to main content

Pistlar

alþjóðlegur

Merking og notkun í nútímamáli

Orðið alþjóðlegur hefur í nútímamáli merkinguna ‘sem felur í sér tengsl milli þjóða, sem varðar alla heimsbyggðina, sem margar þjóðir/fulltrúar margra þjóða eiga aðild að’. Þessi merking kemur fram í samböndum eins og alþjóðlegar reglur, alþjóðlegt samstarf, alþjóðlegt eftirlit. Í vissu samhengi getur orðið falið í sér eins konar andstæðu við orðið þjóðlegur og þá haft merkinguna ‘sem vitnar um eða hefur tileinkað sér það sem tíðkast/nýtur virðingar meðal þjóða heims’: vera alþjóðlegur í hugsun/háttum.

Merking og notkun orðsins hefur á síðari tímum að miklu leyti mótast af erlenda jafnheitinu international, sem sjá má tilgreint til skýringar í elstu dæmum um nútímamerkingu orðsins:

  • Fiskisýningin var sérstaklega fjölskrúðug, enda var hún alþjóðleg („international“) (Fjallkonan 1898).

Sú merking sem hér kemur fram virðist hafa komið til sögunnar seint á 19. öld. Um það bil öld fyrr hafði enski heimspekingurinn og hugsuðurinn Jeremy Bentham myndað og kynnt enska orðið international en það orð hefur síðan unnið sér þegnrétt í fjölda tungumála.

Merking í eldra máli

En orðið alþjóðlegur á sér lengri sögu og aðra merkingu í málinu. Elstu dæmi í ritmálssafni Orðabókarinnar eru frá miðri 18. öld. Á því skeiði og allt fram í byrjun 20. aldar stendur orðið í beinum tengslum við orðið alþjóð í merkingunni ‘þjóðin öll, almenningur’, eins og eftirfarandi dæmi bera með sér:

  • Alþjódligr er dansleikr sá á Spáni er Fandango heitir. (1827)
  • þá væri nauðsyn að byggja sjúkra-hús á alþjóðlegan kostnað. (1844)
  • Rétt er, að börn þau, er ekki skulu alast upp í trúarbrögðum þjóðkirkjunnar, séu undanþegin fræðslu í þeim í alþjóðlegum skólum. (1885)

Í orðabók sinni, sem út kom árið 1819, tilgreinir Gunnlaugur Oddsson orðið alþjóðlegur sem jafnheiti við erlendu orðin offentlig og national, og í Latneskri lestrarbók Jóns Þorkelssonar frá árinu 1871 kemur orðið fram sem jafnheiti við orðið publicus, ásamt samheitunum lýðlegur og þjóðlegur.

Segja má að tilkoma nútímamerkingarinnar, þar sem tengslin við nafnorðið alþjóð eru rofin en forliðurinn al- fær eins konar allsherjarmerkingu gagnvart lýsingarorðinu þjóðlegur, hafi kippt fótunum undan eldri merkingu orðsins, enda virðist hún úr sögunni snemma á 20. öld. Við þessa endurtúlkun verður til merking sem er nánast gagnstæð eldri merkinu orðsins, og slíkt sambýli getur eðli málsins samkvæmt ekki staðist til lengdar.

Birt þann 22. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Textasafn Orðabókar Háskólans (Íslenskt textasafn).
  • Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa, 2002. Edda, Reykjavík.
  • Gunnlaugur Oddsson. Orðabók sem inniheldur flest fágæt, framandi og vandskilin orð er verða fyrir í dönskum bókum. Nú útgáfa með íslenskri orðaskrá. 1991. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • The Oxford English Dictionary. Second edition. 1989. Clarendon Press, Oxford.