Skip to main content

Pistlar

bankarot

Í íslenskum textum frá 19. öld og upphafi 20. aldar bregður fyrir orðinu bankarot, bæði sem nafnorði og lýsingarorði, um það sem nú er kallað gjaldþrot og (að vera/verða) gjaldþrota. Allnokkur dæmi um orðið er að finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

  • Nafnorð:            að hann hafði mist allar eigur sínar við bánkarot annars manns. (1860)
  • Lýsingarorð:    eru margir hræddir um að ríkið verði bankarot. (18781927)

Á vefnum Tímarit.is eru líka dæmi um orðið. Þau eru flest frá sama tímabili, t.d. eftirfarandi gamanvísubrot frá 1904.

En hvernig færi' ef hittist enginn hásetinn,
sem húsbóndanum fylgja vildi' á sjóinn?
Þá stæðu skipin uppi öll og enginn kæmi' á flot
en útgerðin og kaupmennirnir liðu ,bankarot'
og Englendingar einir hefðu' af útgerðinni not,
því opinn stæði Trawlurum hver flóinn.

Í blöðum og tímaritum má finna einstöku dæmi í yngri textum eins og t.d. í smásögu eftir Jónas Árnason frá 1955.

  • Hann rak fyrrum verzlun þarna í plássinu [...]. Sagt var að hann hefði seinast verið farinn að selja karamellurnar á krónu, en það dugði sem sagt ekki einu sinni til að bjarga honum frá bankaroti.

Orðið bankarot er tökuorð í íslensku og er trúlega fengið úr dönsku, bankerot sem getur verið hvort sem er nafnorð eða lýsingarorð eins og íslenska orðið. Það er líka skylt þýska lýsingarorðinu bankrott og enska orðinu bankrupt (no., lo. og so.). Upprunans er aftur á móti að leita í ítalska orðasambandinu banca rotta ‘brotinn bekkur’ eins og Jón Ólafsson lýsir skemmtilega í grein um banka 1887:

Við þetta varð æ brýnni og brýnni nauðsyn á víxlarastörfum. Þegar í biblíunni er slíkra starfa getið. En það var þó ekki fyrri en á miðöldunum að þessi starfsemi náði fullum blóma. Þá höfðu gyðingar víxlara-borð reist á torgunum í verzlunarborgunum miklu á Norðr-Ítalíu. Borð eðr bekkr er á ítölsku banco (sem í rauninni er sama orð sem bekkr á voru máli, bænk á dönsku), og þaðan hafa sumir ætlað að nafnið banki ætti kyn sitt að rekja. Þá er einhver víxlari gat ekki staðið í skilum eðr efnt skuldbindingar sínar, þá var bekkr hans eðr borð brotið sundr, og þar eð »brotinn bekkr« er á ítölsku banco rotto, þá er þaðan dregið að tala um bankarot, á dönsku bankerot, á ensku bankrupt, bankruptcy. Bankarot er sama sem gjaldþrot.

Sömu ættfærslu má sjá í ýmsum erlendum orða- og orðsifjabókum varðandi danska, þýska og enska orðið en tökuorðið bankarot er ekki í Íslenskri orðsifjabók (1989). Þar er orðið banki aftur á móti rakið til ítalska orðsins banco, banca ‘víxlaraborð’ eins og hjá Jóni Ólafssyni. Þess sést m.a. stað í gömlum samsettum orðum í íslensku eins og bankódalur og bankóseðill.

Nútímaorðin gjaldþrot og gjaldþrota virðast koma fram á svipuðum tíma og bankarot. Framan af eru þessi orð notuð jafnhliða en síðan ryðja nýyrðin gjaldþrot og gjaldþrota tökuorðinu úr vegi eins og títt er um slík orðapör og bankarot er t.d. ekki uppflettiorð í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals. Nú er það afar sjaldséð og nýjasta dæmið sem fannst um orðið bankarot – frá 2014 – er enda umtal um það frekar en eiginleg notkun á því:

Hvernig á maður að geta unnið í Skrafli þegar andstæðingurinn má nota orð eins og ‚bankarot‘ en ég get ekki notað ‚ísexi‘.

Birt þann 2. ágúst 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans. (Leitarbær í gegnum vefgáttina málið.is.)

Jónas Árnason. 1955. Hattar. Tímarit Máls og menningar 16(2):140–166.

Plausor. 1904. Báruvísur. Nýja Ísland 1(1):7–8.

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Reykjavík.

Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík. (Vefútgáfa hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: https://blondal.arnastofnun.is/.)

Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Reykjavík.