Skip to main content

Pistlar

Bárðarbunga

Birtist upphaflega í ágúst 2014.

Bárðarbunga er hæsta fjall á Íslandi utan Öræfajökuls. Hæð þess hefur löngum verið talin um 2000 metrar yfir sjávarmáli en í bókinni Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson frá 2009 kemur fram að hæðin er 2009 metrar. Bungan rís hátt í 1000 metra yfir umhverfi sitt. Undir bungunni er mikil askja með allt að 800 metra þykkum jökli.

Örnefni sem hafa -bunga að síðasta lið eru algeng í jöklum og í heiðalandslagi og lýsa yfirleitt breiðmynduðum hæðum, hvorki bröttum né klettóttum.

Allmörg örnefni á Íslandi eru kennd við Bárð. Bárðarbunga er líklega þekktast þeirra en mörg önnur eru til, til dæmis Bárðarfell og Bárðarfjall, Bárðargata, Bárðardalur, Bárðarkista, Bárðarlaug, Bárðarfoss, Bárðarhellir og Bárðarhaugur. Örnefnin eru að öllum líkindum kennd við menn sem báru nafnið Bárður og raunar í mörgum tilfellum við tvo nafntogaða fornmenn með þessu nafni. Annar var Bárður Snæfellsás, ýkjukenndur fornsagnakappi af ættum risa og trölla. Hann bjó á Snæfellsnesi og þar eru mörg örnefni kennd við hann. Ævi sína endaði hann með því að hverfa í Snæfellsjökul. Bárðarbunga er ekki kennd við þennan Bárð heldur annan jarðbundnari mann sem bjó fyrst norður í Bárðardal en seinna suður í Fljótshverfi. Hann var kallaður Gnúpa-Bárður, kemur við sögu þegar í Landnámabók og er nefndur í mörgum Íslendingasögum. Samkvæmt Bárðarsögu Snæfellsás voru þeir málkunnugir nafnarnir, Bárður og Bárður. „Þeir lögðu lag sitt nafnar og urðu á það sáttir að leita til Íslands því að þaðan voru sagðir landkostir góðir“ segir þar. Bárðarsaga þykir raunar ekki mjög áreiðanleg heimild um sögulega viðburði.

Bárðarbungu-Bárður var ekki síður eftirminnilegur náungi en Snæfellsnes-Bárður. Um hann er talsverð saga í Landnámu. Bungu-Bárður var til dæmis fyrsti Norðlendingurinn sem sögur fara af sem áttaði sig á því að betra væri að búa syðra en nyrðra. Þannig tók hann sig upp úr Bárðardal með fé allt og fjölskyldu og flutti suður yfir hálendið, svonefnda Bárðargötu sem við hann er síðan kennd, og nam ekki staðar fyrr en í Fljótshverfi.

„Bárður, son Heyjangurs-Bjarnar, kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjardalsá og bjó að Lundarbrekku um hríð. Þá markaði hann [=dró þá ályktun] að veðrum að landviðri voru betri en hafviðri og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um góu. Þá fundu þeir góubeytla [=eskigras] og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka [=sleða] hverju kvikindi því er gengt var og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð, þar er heitir síðan Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum. Þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.“ (Landnámabók)

Ekki liggur fyrir hversu gamalt örnefnið Bárðarbunga er. Það kemur ekki fyrir í fornsögum eða á gömlum kortum. Kort Sveins Pálssonar af Vatnajökli frá 1794 gefur ekki upp neitt nafn á þessum stað, ekki heldur kort Björns Gunnlaugssonar frá 1844 og 1849. Sveinn Pálsson minnist reyndar á Bárðarbungu í Jöklariti sínu en nefnir hana ekki á nafn, kallar hana aðeins „geysilega háa jökulbungu“ (Ferðabók Sveins Pálssonar I-II, Dagbækur og ritgerðir 1791-1797, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1983, bls. 466). Þorvaldur Thoroddsen nefnir Bárðarbungu ekki með nafni í ritum sínum.

Pálmi Hannesson var á ferðalagi árið 1923 á þessum slóðum ásamt tveimur dönskum jarðfræðingum (Frá óbyggðum, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1958, bls. 101 o.áfr. Sami texti hafði áður birst í Andvara 1938, 1. tbl., bls. 64). Um Bárðarbungu segir Pálmi:

„Austur af Vonarskarði miðju reis hið mikla jökulhvel, sem er efalaust eitt hæsta fjall á landinu. Sumir hafa kallað það Bárðarnúp til minja um Gnúpa-Bárð, en ekki er það réttnefni. Núpar heita hyrnur framan í fjöllum eða hlíðabrött fell, sem skaga fram úr hálendinu, og bendir nafnið til bratta. Auk þessa þykir mér þetta heiti eiga illa við, því að núparnir eru tíðast fremur lítil fell og lítt áberandi til að sjá. Hverjum mundi koma til hugar að nefna Öræfajökul núp, t.d. Öræfanúp? Ef mönnum þykir nauðsynlegt að kenna þetta fjall við karlinn Bárð, þá ætti það að heita Bárðarjökull. En þarna á öræfunum flaug mér í hug nafnið Skalli, og geta þeir haft það, sem hafa vilja. Bárðarnúp mætti aftur nefna hamrabrún mikla, er sést víða að og skilur skriðjökla vestan í Vatnajökli, norður frá Kerlingum, en upp af Köldukvíslarbotnum.“

Pálmi og félagar gengu ekki á fjallið. Fyrstir til þess voru þrír erlendir vísindamenn, Austurríkismaður, Ítali og Þjóðverji. Það gerðu þeir árið 1935 en ekki fylgir sögunni hvort eða hvaða nafn þeir studdust við. Þeim reiknaðist reyndar svo til á tímabili að Bárðarbunga væri hæsti staður landsins, 2123 metrar yfir sjávarmáli en niðurstaða þeirra varð á endanum 2080 m (Helgi Björnsson, Jöklar á Íslandi, Opna 2009, bls. 273).

Ekki er að sjá að nafnið Skalli sem Pálmi Hannesson stakk upp á hafi mikið verið notað en fleiri heimildir eru til um nafnið Bárðarnúp. Ólafur Jónsson notar það í grein í Lesbók Morgunblaðsins 1942 (22.11.1942, bls. 365) og Þorsteinn Jósefsson notar einnig sama heiti í grein í Frjálsri verzlun 1944 (3.-4. tbl. bls. 29). Hins vegar hefur Ólafur tekið upp nafnið Bárðarbunga í riti sínu Ódáðahraun sem kom út 1945. Þar minnist hann alloft á Bárðarbungu en nefnir Bárðarnúp ekki á nafn. Hann virðist sem sé hafa skipt um skoðun á heiti fjallsins á árabilinu 1942-1945. Kortaútgáfan styður þetta. Bárðarbunga (þá reyndar skrifað „Barðarbunga“) kemur fyrst fyrir á kortum Geodætisk Institut árið 1943 og 1944 (Atlaskort nr. 75 og 76). Í útgáfunni ári síðar er búið að leiðrétta ritháttinn.

Geysisslysið 1950, þegar Loftleiðaflugvélin Geysir brotlenti á Bárðarbungu, festi síðan nafnið rækilega í sessi enda var nafnið þá á allra vörum vikum og mánuðum saman.

[Viðbót í október 2014: Oddur Sigurðsson jarðfræðingur benti mér á að nafnið Bárðarbunga komi fyrst fyrir á prenti í grein eftir sænska jarðfræðinginn Hans W:son Ahlmann árið 1937 (Vatnajökull in relation to other present-day Iceland glacier, Geografiska Annaler 19:212-231). Ahlmann starfaði náið með Jóni Eyþórssyni og Sigurði Þórarinssyni og telur Oddur líklegt að nafnið sé komið frá öðrum hvorum. Sjá Oddur Sigurðsson & Richard S. Williams, Jr. Geographic Names of Iceland's Glaciers: Historic and Modern. U.S. Geological Survey 2008. Grein eftir Rudolf Leutelt, einn af þremenningunum sem gengu á Bárðarbungu 1935, birtist í Lesbók Morgunblaðsins 23. júní sama ár undir heitinu Gengið á Bárðargnýpu í fyrsta sinn. Eins og titillinn ber með sér hafa Leutelt og félagar notað nafnið Bárðargnýpa og kemur það margoft fyrir í greininni en önnur heiti eru ekki notuð.]

 

Birt þann 19. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023