Skip to main content

Pistlar

Codex Lindesianus – íslenskt dýrmæti í Manchester

Opna úr handritinu Codex Lindesianus
Opna úr handritinu Codex Lindesianus.
The University of Manchester Library, U.K.

Nú í nóvember kemur til landsins lítil, falleg bók – eitt smæsta handrit sem varðveitt er frá Íslandi. Það var skrifað í lok 15. aldar og var í höndum fólks við Breiðafjörð í um tvær aldir þar til Árni Magnússon handritasafnari kom í Flatey í Jarðabókarerindum sumarið 1703 og eignaðist þar gripinn. Bókin var í safni hans um langa hríð og fékk safnmarkið AM 462 12mo en virðist hafa gufað þaðan upp, líklega fyrir miðja 19. öld. Hún skýtur aftur upp kollinum á uppboði hjá Sotheby í Lundúnum 10. febrúar 1870 innan um prentaðar bækur úr eigu þýsks bókasafnara. Handritið var eftir það í fornbókaverslun á Bond Street þar til jarlinn af Crawford, Alexander William Lindsay (1812–1880), keypti það árið 1872.

Haigh Hall í Lancashire. Þar var handritið meðan það var í eigu jarlsins af Crawford á 19. öld.
Haigh Hall í Lancashire. Þar var handritið meðan það var í eigu jarlsins af Crawford.
Wikimedia Commons / Anthony Perkins

Crawford lávarður átti mikið og verðmætt bókasafn, Bibliotheca Lindesiana, sem var að stærstum hluta varðveitt á ættarsetri hans í Lancashire og vísar núverandi heiti íslenska handritsins, Codex Lindesianus, til þess. Öll handrit úr safni jarlsins, yfir 6000 talsins, voru árið 1901 seld Enriquetu Augustinu Rylands (1843–1908) sem hafði þá nýlega stofnað bókasafn til minningar um eiginmann sinn John Rylands. Íslenska bókin smágerða varð þannig hluti af John Rylands Library í Manchester sem árið 1972 var fært undir háskólann þar í borg, University of Manchester.

Á sýningunni Heimur í orðum er öllum handritum að jafnaði skipt út á þriggja mánaða fresti. Freistandi þótti að nýta þetta tækifæri til þess að fá íslensk handrit sem varðveitt eru erlendis lánuð til sýningar í takmarkaðan tíma. Stofnunin fór því þess á leit við safnið í Manchester að það léði Codex Lindesianus hingað og var það auðsótt mál. Samtímis þeim málaleitunum stofnaði Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn til samstarfs við safnið um ljósmyndun þeirra fimm íslensku handrita sem eru í Manchester og skráningu þeirra á handrit.is

En hvaða efni skyldi vera í Codex Lindesianus og fyrir hvern gæti bókin hafa verið skrifuð?

Í fyrsta hluta bókarinnar er tímatalsfræði, svokallað rím, en þar á eftir ritgerð sem útskýrir þýðingu hinna ýmsu liða messunnar. Henni fylgir póstur um yfirbótarverk sem hægt er að vinna fyrir drýgðar syndir. Eftir það tekur við skemmtilegur texti sem fjallar um það hvernig ráða megi innræti og skapgerð fólks af útlitinu. Þar má meðal annars lesa þetta:

Langur háls og þunnur merkir þann er illt hugsar. Kringlóttur háls sýnir hugarkraft og líkams lítillæti. Skammur háls er mark þess er djarfur er. Sá háls er mjög ber sig réttan sýnir óvenju og þrjótlyndi [þ.e. óþekkt og þrjósku].

Aftast í handritinu er almanak yfir messudaga dýrlinga og svokallaður talbyrðingur, tafla sem gerði fólki kleift að reikna út árlega hvenær páskarnir féllu.

Flatey á Breiðafirði
Flatey á Breiðafirði.
Wikimedia Commons / Patrick Nouhailler

Handritið er skrifað af fjórum skrifurum og ein rithöndin er einnig á afriti sem gert var í Flatey í júlí 1482 af norsku skjali. Skjalið geymir úrskurð norska ríkisráðsins um að Þorleifur Björnsson hirðstjóri (d. 1486) skuli halda tilteknum eignum sem hann hafði áður verið sviptur. Það eru því rök til þess að skrifarinn sem gerði afritið og skrifaði hluta af Codex Lindesianus hafi verið í þjónustu Þorleifs og að bókin gæti hafa verið skrifuð fyrir hann. Víst er að handritið var í eigu afkomenda hans allt þar til Árni Magnússon fékk það í hendur sumarið 1703.

Codex Lindesianus verður á sýningunni Heimur í orðum frá 11. nóvember 2025 til 10. maí 2026. Í tengslum við það verða flutt tvö erindi í fyrirlestrasal Eddu: Svanhildur Óskarsdóttir mun halda erindi um sögu og innihald handritsins þriðjudaginn 25. nóvember og í janúar mun Halldóra Kristinsdóttir, sérfræðingur á handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, fjalla um íslensk handrit í John Rylands Library í Manchester og samstarf safnanna við að koma myndum af þeim og skráningu á handrit.is.

Codex Lindesianus var viðfangsefni doktorsritgerðar Ians Cameron McDougall við University College London árið 1983 og var stuðst við hana við ritun þessa pistils.

Aðrar heimildir

Diplomatarium Islandicum = Íslenzkt fornbréfasafn gefið út af Hinu íslenzka bókmentafélagi. 6. bindi. Reykjavík: Félagsprentsmiðja 1900–1904, nr. 360, s. 395–397.

Eiríkur Magnússon. „Codex Lindesianus.“ Arkiv för nordisk filologi 13 (1897): 3–14.

Svanhildur Óskarsdóttir. „Flateyjarbækur: Af Guðrúnu Ögmundsdóttur og öðrum bókavinum Árna Magnússonar í Flatey.“ Í: Handritasyrpa. Rit til heiðurs Sigurgeiri Steingrímssyni sjötugum. Ritstj. Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, 2013, s. 65–83.

Birt þann 30. október 2025
Síðast breytt 30. október 2025