Skip to main content

Pistlar

Gæsalappir – um útlit tilvitnunarmerkja í íslensku

Fjallað er um tilvitnunarmerki í 28. kafla ritreglna Íslenskrar málnefndar. Megináherslan þar er á notkun en einnig er vikið að útliti þeirra. Sagt er að að tvöföld tilvitnunarmerki séu „svona“ en einföld hins vegar ‘ ’ eða ‚ ‘.[1]

Gæsalappir (klær)

Útlit gæsalappa er ólíkt eftir löndum. Yfirlit yfir ólíkar hefðir má sjá hér. Víða um heim eru notaðar aðhverfar tvíklær hástæðar (“ ”), einhverfar tvíklær hástæðar (” ”) eða mishverfar tvíklær misstæðar („ ”). Þetta tiltekna útlit gæsalappanna („ “), sem mælt er með í ritreglunum, hefur unnið sér allmikla hefð í íslensku en margir nota þó “ ”. Þegar í bókinni Íslenzkar rjettritunarreglur frá 1859 mælir Halldór Kr. Friðriksson með núverandi útliti tilvitnunarmerkja (sjá grein Guðrúnar Kvaran á Vísindavefnum).

Til gamans má nefna að í Lestrarkveri handa heldri manna börnum eftir Rasmus Rask (1830:19), sem hafði mikil áhrif á stöðlun stafsetningar á 19. öld, eru einnig notaðar tvöfaldar gæsalappir eða klær en þær snúa öðruvísi en nú. Seinni tvíklærnar eru aðhverfar og hástæðar (”) en þær fyrri mætti líklega kalla aðhverfar og lágstæðar:

 

 

 

Oddar

Auk gæsalappa eru víða notaðir svokallaðir tvíoddar (e. guillemets). Aðhverfir tvíoddar (» «) eru notaðir í dönsku og fráhverfir (« ») víða í Evrópu. Aðhverfir tvíoddar voru notaðir allmikið í íslenskum ritum á fyrri hluta 20. aldar.[2] Dæmi um notkun þeirra þá sést á eftirfarandi dæmi úr Andvara 1918 (43. árg., 1. tbl., bls. 128):

 

 

Í Morgunblaðinu 1916 (3. árg., 86. tbl., bls. 4) voru einnig notaðir tvíoddar:

 

 

Nokkrum árum síðar, þ.e. 1919, var hins vegar farið að nota núverandi gæsalappir í Morgunblaðinu (6. árg., 86. tbl., bls. 2):

 

 

Sögu tvíodda í íslensku þyrfti þó að rannsaka miklu betur.

Tvíoddar (« ») og oddar (‹ ›) eru smekkleg tákn og hafa þann kost að þau falla vel að öðrum texta og ruglast ekki við kommur. Þótt mælt sé með ákveðnu útliti tilvitnunarmerkja í ritreglum Íslenskrar málnefndar þá fellur útlit greinarmerkja almennt ekki undir reglur um setningu þeirra. Tilmælin í ritreglunum fjalla frekar um það hvernig mælt er með því að klær (gæsalappir) snúi og standi. Ekki er vikið þar að oddum en mér finnst koma til greina að taka þá einnig upp í íslensku ritmáli sem valkvætt tilbrigði við gæsalappirnar. Þegar oddar voru notaðir hér á landi snemma á 20. öld voru þeir aðhverfir en algengara er í tungumálum og að mínu mati fallegra að hafa þá fráhverfa.

Dæmi um notkun odda í setningum:

  • «Bara að ég hefði aldrei tekið lykilinn,» hugsaði Pétur.
  • Orðtakið «að hrökkva upp af klakknum» merkir ‹að deyja›.

Listi yfir ólíkar gerðir gæsalappa og heiti þeirra (sjá Íslensk táknaheiti (2003:17–18)
“ ”        aðhverfar tvíklær hástæðar (66 og 99)                                   enska o.s.frv.
„ “        fráhverfar tvíklær misstæðar (99 niðri og 66 uppi)                íslenska, þýska o.s.frv.
” ”        einshverfar tvíklær hástæðar (99 og 99)                                sænska, finnska
„ ”        mishverfar tvíklær misstæðar (99 niðri og 99 uppi)               pólska o.s.frv.


‚ ‘         fráhverfar klær misstæðar (9 niðri og 6 uppi)
‘ ’         aðhverfar klær hástæðar (6 og 9)

Listi yfir ólíkar gerðir odda og heiti þeirra
« »       fráhverfir tvíoddar(« … »)                                                       norska, spænska o.s.frv.
« »       fráhverfir tvíoddar með bili (« … »)                                        franska
» «       aðhverfir tvíoddar (»…«)                                                         danska

 

Viðauki: Tilvitnanir inni í öðrum tilvitnunum

Í íslensku hafa tilvitnanir inni í öðrum tilvitnunum verið auðkenndar með tvöföldum tilvitnunarmerkum (sjá gr. 28.1 í ritreglum Íslenskrar málnefndar).

  • Ásgeir mælti: „Afi sagði: „Hertu þig nú, strákur“ þegar hann vildi hvetja mig.“
  • Ásgeir mælti: „Afi sagði við mig: „Hertu þig nú.““

Í sumum öðrum tungumálum eru hins vegar notuð á víxl tvöföld og einföld tilvitnunarmerki til að auðkenna tilvitnanir inni í öðrum tilvitnunum. Í þýskri stafsetningu, þar sem notað er sama afbrigði klóa (gæsalappa) og hjá okkur, er tilvitnun innan tilvitnunar til að mynda auðkennd með einföldum klóm (, ‘), t.d.: „Mit wie vielen h schreibt man ,Rhythmus‘?, wollte er wissen.“ Í Svenska skrivregler (2017:55) er einnig mælt með notkun einfaldra gæsalappa til að auðkenna tilvitnanir innan í tilvitnunum.

Hugsa mætti sér að breyta núverandi venju þarna í íslensku og nota einfaldar gæsalappir til að afmarka tilvitnanir inni í öðrum tilvitnunum. Við það yrði skýrar greint en áður á milli ólíkra tilvitnana innan setningar og greinarmerkin yrðu ekki eins fyrirferðarmikil og þau eru nú. Heitið einföld tilvitnunarmerki væri þá réttnefni yfir slíka notkun einföldu gæsalappanna sem nú eru annars aðallega notaðar til auðkenna merkingarskilgreiningar:

Dæmi um slíka hugsanlega notkun á einföldum gæsalöppum:

  • Ásgeir mælti: „Afi sagði: ‘Hertu þig nú, strákur’ þegar hann vildi hvetja mig.“
  • Ásgeir mælti: „Afi sagði: ‚Hertu þig nú, strákur‘ þegar hann vildi hvetja mig.“
  • Ásgeir mælti: „Afi sagði við mig: ‘Hertu þig nú.’“

[1] Í auglýsingu um greinarmerkjasetningu frá 1974 (sjá 11. gr.) og í ritreglum Stafsetningarorðabókarinnar (2006:733) var eingöngu minnst á fráhverfa og misstæða gerð einföldu gæsalappanna (þ.e. ‚ ‘) sem m.a. er notuð í þýsku. Ýmsir hafa þó verið óánægðir með þá gerð einföldu gæsalappanna þar sem fyrri klóin lítur þá út eins og komma og ruglast auðveldlega saman við hana.

[2] Rétt er að benda á að oddar (‹›) eru ólíkir fleygum (< >, e. less-than sign og greater-than sign) (Íslensk táknaheiti 2003:23).

Birt þann 18. desember 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Auglýsing um setningu íslenskra ritreglna nr. 800/2018. 31. ágúst 2018. Stjórnartíðindi. B-deild. <www.stjornartidindi.is/> (sótt í desember 2019).

Guðrún Kvaran. 2011. Hver er uppruni íslensku gæsalappanna? Eru þær notaðar í öðrum ritmálum? https://www.visindavefur.is/svar.php?id=1925 (sótt í desember 2019)

Íslensk málnefnd. 2016. Ritreglur. Auglýsing mennta- og menningarmálaráðuneytis nr. 695/2016 með leiðréttingum. <http://ritreglur.arnastofnun.is/> (sótt í desember 2019).

Íslensk táknaheiti. 2003. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Smárit Íslenskrar málnefndar 2. Reykjavík: Íslensk málnefnd.

Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.). 2011. Handbók um íslensku. JPV útgáfa.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2019. Nýjar reglur Íslenskrar málnefndar um greinarmerkjasetningu. Yfirlit yfir breytingar. Orð og tunga 21:169–174.

Quotation mark. Wikipedia https://en.wikipedia.org/wiki/Quotation_mark

Rask, Rasmus. 1830. Lestrarkver handa heldri manna börnum með stuttum skíringargreinum um stafrofið og annað þartil heyrandi. Kaupmannahöfn.

Ritreglur í samræmi við auglýsingar menntamálaráðuneytis nr. 132/174, 133/1974, 184/1974 og 261/197.

Stafsetningarorðabókin (ritstj. Dóra Hafsteinsdóttir). 2006. Ritreglur, bls. 673–736. Reykjavík: Íslensk málnefnd / JPV.

Svenska skrivregler. 2017. Ola Karlsson (ritstj.). Språkrådets skrifter 22. Liber.

Tímarit.is <http://timarit.is/>.