Skip to main content

Fréttir

Fræðarar á ferð á ný

Fræðarar verkefnisins Handritin til barnanna hafa enn á ný lagt land undir fót eftir að hafa gert hlé á skólaheimsóknum á meðan samkomutakmarkanir voru sem harðastar.

Annette Lassen tekur til starfa

Annette Lassen tók við starfi rannsóknardósents á handritasviði stofnunarinnar 1. janúar 2021. Rannsóknir hennar hafa einkum verið á sviði norrænna fornbókmennta og goðafræði, einkum fornaldarsagna, og ritstýrði hún danskri þýðingu á þeim. Auk þess ritstýrði hún danskri útgáfu Íslendingasagna og -þátta, sem var þjóðargjöf Íslendinga til Dana árið 2017 og þýddi einnig nokkrar sagnanna í útgáfunni. Undanfarin misseri hefur Annette gegnt stöðu lektors við Institut for Nordiske Studier og Sprogvidenskab við Kaupmannahafnarháskóla.

Vefurinn nafnið.is formlega opnaður

Föstudaginn 18. desember var nýr vefur Árnastofnunar, nafnið.is, formlega opnaður. Af því tilefni var haldinn svolítill viðburður sem streymt var á netinu. Sagt var frá vinnunni við vefinn og flutt stutt erindi um örnefni. 

Á vefnum má finna gögn um íslensk nöfn af ýmsu tagi. Vefurinn veitir aðgang að örnefnasafni Árnastofnunar sem nú er orðið leitarbært í heild sinni. Verkefnið var unnið í samstarfi við Landmælingar Íslands.

Spurningaskrá um laufabrauðshefðir

Laufabrauðshefðir eru ómissandi hluti af jólahaldi margra landsmanna og má lesa um þær á vefnum Lifandi hefðir.

Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands leitar nú eftir frásögnum um laufabrauðsgerð og laufabrauðshefðir. Þjóðminjasafn Íslands hefur skipulega safnað heimildum um lífshætti á Íslandi með því að semja spurningaskrár og óska eftir svörum frá fólki. 

Íslenskt orðanet í nýjan búning

Íslenskt orðanet hefur verið fært í nýjan búning og kemur nú fram í nýrri útgáfu á vefslóðinni ordanet.arnastofnun.is. Efnisgrunnur orðanetsins er enn hinn sami og notendur ganga áfram að þeim upplýsingum um vensl orða og samhengi orðanotkunar sem þeir þekkja frá fyrri gerð. En í nýju útgáfunni er lögð meiri áhersla á myndræna framsetningu og myndrit sem birta heillegri og margþættari mynd af merkingarvenslum einstakra flettna, jafnt stakra orða sem merkingarbærra orðasambanda.

Menningarviðburður um íslenskar bókmenntir og tónlist

Fimmtudaginn 19. nóvember stóð Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt íslenskukennurum við erlenda háskóla fyrir menningardagskrá á netinu. Á milli klukkan 14 og 16 að íslenskum tíma heimsóttu fjórir rithöfundar og þrír tónlistarmenn íslenskunema víðs vegar um heiminn á Zoom-samskiptaforritinu og spjölluðu á ensku við Brynhildi Björnsdóttur, menningarfræðing og söngkonu.

Styrkur til að rannsaka what, sorry og fleiri orð í norrænum málum og finnsku

Nýverið hlaut verkefnið Málnotkunarlegar tökur í norrænum málum og finnsku: samanburður á samskiptamunstri (Pragmatic borrowing in the Nordic languages and Finnish: a cross-linguistic study of interaction) norrænan styrk til að halda þrjár málstofur sem skipulagðar verða af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Helga Hilmisdóttir, rannsóknardósent á orðfræðisviði, fer fyrir hópi fimmtán málfræðinga sem rannsaka upphrópanir, orðræðuagnir og aðrar málnotkunarlegar tökur í norrænum málum og finnsku.