Skip to main content

Pistlar

Belgsdalsbók AM 347 fol. - Efnisyfirlit, tölusetning og bókargerð

AM 347 fol., Belgsdalsbók, er lagahandrit frá miðri 14. öld. Það er 27,3 x 20 cm og 98 blöð. Meginhluti þess (blöð 1‒84) er með einni hendi en þó hefur annar skrifari bætt við allmörgum stuttum lagagreinum. Hinn síðarnefndi hefur að því er virðist einnig skrifað fyrirsagnir í handritinu, sem eru rauðritaðar. Blöð 85−94 eru að öllum líkindum með hendi aðalskrifara handritsins en þau hefur hann skrifað síðar á ævinni. Öftustu fjögur blöðin eru með enn annarri hendi en skrifuð á svipuðum tíma.

Handritið hefst á síðustu lagagreinum Kristinréttar Árna biskups Þorlákssonar en fremstu blöðin hafa glatast. Stærsti hluti handritsins inniheldur Jónsbók, réttarbætur Eiríks Magnússonar Noregskonungs frá 1294, sem eru lagabreytingar við Jónsbók, og Kristinna laga þátt Grágásar. Á blöðum 4v til 8r er að finna efnisyfirlit, sem er að mörgu leyti einstakt í íslenskum miðaldahandritum.

Efnisyfirlit Belgsdalsbókar hefur verið í handritinu frá upphafi og er því eitt af hinum elstu sinnar tegundar í íslenskri handritahefð. Flest efnisyfirlit í íslenskum handritum eru frá 15. öld eða síðar. Ólíkt öðrum norrænum og evrópskum lagahandritum frá miðöldum eru aðeins örfá íslensk lagahandrit með efnisyfirliti, og þau ná venjulega aðeins yfir lagabálka eins texta, í flestum tilvikum Jónsbókar. Efnisyfirlitið í Belgsdalsbók nær ekki aðeins yfir einn texta handritsins heldur þá alla. Það myndar eina samhangandi heild. Einstakir textar eru ekki aðgreindir með stórum upphafsstöfum eða lýsingum, heldur er hver texti og undirkaflar texta með sína fyrirsögn, eins og „her hefr kristinn rett vm kristile tru“ (bl. 4v) sem er yfirskrift fyrir Kristinrétti Árna biskups, eða „her hefr hinn fyrsta hlut islenzkrar bokar ok heiter þesse þingskapa balkr“ (bl. 4v); „íslenzk bók“ er tilvísun til Jónsbókar. Af efnisyfirlitinu má ráða að skrifarinn hafi íhugað vandlega efnisskipan og byggingu handritsins. Þetta sést m.a. á færslunni sem vísar til formála Jónsbókar: „her seger skipan lögbækirnnar ok huert efni er ihuerium capitula. Her hefr prologinn með lögbalka skipan ok seger huerr balkr öðrum skal næstr vera“ (bl. 4v). Hið sama má m.a. sjá í lagagrein framan við réttarbætur Eiríks konungs Magnússonar. Bæði í efnisyfirlitinu og rauðrituðu fyrirsögninni fyrir textanum stendur: „her skylldu rettar[bætr] j koma“ (bl. 7v og 64v) og gefur til kynna að réttarbæturnar séu innskot í textann í samræmi við leiðbeiningar konungs.

Notkun arabískra tölustafa í Belgsdalsbók er annað dæmi um aðferð sem var sjaldgæf í íslenskum handritum frá þessum tíma. Bæði í efnisyfirlitinu og kaflaheitum eru notaðar arabískar tölur, sem sjást varla í íslenskum handritum fyrr en undir lok 16. aldar. Á meginlandi Evrópu koma arabískar tölur til sögunnar á 9. öld, en verða þó ekki algengar í handritum og skjölum fyrr en í lok 14. aldar. Áður voru rómverskir tölustafir notaðir. Það er því ekki fráleitt að gera ráð fyrir að tölusetningu handritsins hafi verið bætt við löngu síðar, eins og raunin er með mörg önnur íslensk lagahandrit. Fyrsti dálkur efnisyfirlitsins styður þá hugmynd, þar sem tölunum hefur verið bætt við á spássíu, utan leturflatar. En í þeim dálkum sem á eftir fara eru tölurnar við enda viðkomandi línu, innan leturflatar dálksins, með rauðum og bláum línufyllingum frá fyrirsögn til tölustafa. Litirnir og pennastrikin benda til þess að tölusetningin sé frá sama tíma og efnisyfirlitið. Sterkustu rökin fyrir því að tölusetningin sé frá ritunartíma handritsins er fyrirsögn á bl. 5r, „Um eptir prof huerr .9. capitulum“, þar sem arabíski tölustafurinn er óaðskiljanlegur hluti af fyrirsögninni.

Arabískir tölustafir sömu gerðar koma einnig fyrir víðar í handritinu. Í mörgum tilvikum hefur tölustöfunum verið bætt við með svörtu bleki framan við kaflafyrirsagnirnar, bæði innan leturflatar og á spássíu, og lítur út fyrir að skrifarinn hafi bætt þeim við seinna. Í mörgum fyrirsagna Kristinna laga þáttar Grágásar sést þó að tölustafirnir voru skrifaðir á sama tíma og texti handritsins, því að þeir eru með sama rauða blekinu og með sömu hendi og fyrirsagnirnar sjálfar.

Skrifarar Belgsdalsbókar fylgdust augljóslega með nýjustu aðferðum í handritagerð á meginlandi Evrópu og höfðu hugmyndir um hvernig bæri að skipa efni niður í handritum og koma því á framfæri. Efnisyfirlitið var ef til vill ekki hluti af upprunalegu fyrirkomulagi við handritsgerðina, þar sem því er skotið inn á milli fyrsta og annars efnisþáttar, á milli Kristinréttar Árna biskups og Jónsbókar, en það tekur til allra efnisþátta eins og þeim er upprunalega skipað niður í handritinu. Vitnisburður handritsins gefur til kynna að það hafi verið sá sem skrifaði fyrirsagnir í  handritinu sem gerði efnisyfirlitið, og að hann hafi gert það eftir að hafa skrifað flestar kaflafyrirsagnir. Hann byrjaði á því að setja það upp án tölusetningar, eins og venjan var á þessum tíma, en ákvað eftir einn dálk að tölusetja með arabískum tölustöfum, sem var splunkuný aðferð frá meginlandinu. Því næst bætti hann samsvarandi tölum við kaflafyrirsagnirnar sem hann hafði þá þegar skrifað í öllu handritinu. Á blöðunum sem hann skrifaði sjálfur, og eru aftast í handritinu, er tölusetning upprunaleg með rauðu bleki.

Í sameiningu komu skrifarar Belgsdalsbókar textum sínum á framfæri sem einni heild og reyndu að gera þá skiljanlega í því formi. Efnisskipan Belgsdalsbókar kann að endurspegla upphaf aðferðar sem finna má í flestum íslenskum lagahandritum frá miðri 14. öld, sem er að hafa saman í einni bók bæði veraldlega og kirkulega lagatexta og koma þeim á framfæri sem einni samhangandi heild, og fylgja þar með nýjustu tísku í handritgerð frá meginlandi Evrópu.

Birt þann 1. janúar 2017
Síðast breytt 24. október 2023