Skip to main content

Pistlar

Björg C. Þorláksson og orðabókarstörf hennar

Margir sem komnir eru á miðjan aldur kannast við og hafa notað Íslensk-danska orðabók sem löngum hefur verið kennd við Sigfús Blöndal og nefnd Blöndalsbók eða aðeins Blöndal og gefin var út á árunum 1920–1924. Af formála má sjá að hann vann bókina alls ekki einn. Hans helsti samverkamaður var eiginkona hans Björg C. Þorláksson og er þá á engan hallað 

Þau hjón hófu verkið samkvæmt formála (1920–1924:vii) 23. apríl 1903 og ætluðu sér fimm ár til að ljúka því. Athyglisvert er að formálinn er ritaður í fyrstu persónu og bendir það til þess að Sigfús hafi ekki litið á verkið sem samvinnuverkefni þeirra hjóna heldur sitt eigið sem hann fékk aðstoð konu sinnar við. Árið 1908 voru fyrstu drög að orðabókinni tilbúin en vonbrigðin urðu mikil. Ljóst var að mikið verk var fram undan en þau létu ekki deigan síga heldur héldu ótrauð áfram í rúm þrjú ár. Frá þessum árum er nær ekkert til sem varpað gæti ljósi á hvernig þau Björg og Sigfús skiptu með sér verkum. Til er minnismiði frá Sigfúsi þar sem fram kemur hvernig hann hlutaði daginn niður milli verkefna og daglegra þarfa. Þar sést að hann ætlaði sér tvo tíma á dag til vinnu við orðabókina, milli sex og átta á kvöldin. Allir sem unnið hafa að orðabókargerð vita að lítið vinnst á tveimur tímum sérstaklega í lok langs vinnudags. Mikið hlýtur því að hafa hvílt á Björgu.

             Þegar 1903 kemur fram í bréfi til Eiríks Magnússonar 8. nóvember að henni þótti vinnan við orðabókina púl: „Það er svo langtum skemtilegra að fá sjer langan göngutúr í góðu veðri, tefla skák eða lesa skáldrit eftir Selmu Lagerlöf og aðra góða menn og konur en sitja við próflestur og orðabókarpúl.“

Árið 1911 taldi Sigfús handritið nokkuð gott en enn vantaði í það orð úr talmáli. Hann fékk því leyfi frá störfum í 14 mánuði og nýtti þá til að fara yfir safn Björns M. Ólsens. En mikið var samt lesið af útgefnum ritum á þeim árum sem fóru í hönd og allt fram að prentun og hefur Björg mjög líklega átt stóran þátt í þeim lestri. Hún skráði árið 1927 niður helstu æviatriði sín og skrifaði við árin 1903–1920: ,,unnið að staðaldri að hinni stóru íslensk dönsku orðabók, ásamt Sigfúsi Blöndal.“ Í dönskum texta sama skjals kveður hún enn fastar að orði: ,,Arbejdet saa at sige daglig paa den store islandsk-danske Ordbog – i Regelen flere timer ad Gangen.“ Skjalið er varðveitt í Seðlabanka Íslands.

            Hvergi kemur fram hvort Björg átti þátt í að vinna seðlasafnið til prentunar. Þegar að útgáfu orðabókarinnar kom var hennar þáttur ómetanlegur við öflun fjár til verksins. Hún fékk þá snjöllu hugmynd ,,að orðabókin ætti að eiga sig sjálf“ og að allt fé sem inn kæmi fyrir sölu bókarinnar skyldi renna í sérstakan sjóð, Hinn íslensk-danska orðabókarsjóð. Hún sigldi til Íslands 1919 til þess að tala fyrir útgáfunni, fékk Alþingi til að leggja fram hluta þess fjár sem til útgáfunnar þyrfti á móti Dönum og gerði samning við Jón Ófeigsson, einn þriggja aðalsamverkamanna Sigfúsar, og prentsmiðjuna Gutenberg.

            Jón Helgason prófessor skrifaði um Sigfús sjötugan 1944, fór lofsamlegum orðum um orðabókarverkið og þá miklu vinnu sem slíkt verk útheimtir en minntist ekki orði á Björgu og hennar hlut. Sama gildir um það sem finna má í bréfum til Sigfúsar. Björgu voru sendar vinsamlegar kveðjur í lokin. Jón Ófeigsson mat þó dugnað Bjargar í þessum síðasta þætti mikils og má lesa það í bréfum til Sigfúsar sem varðveitt eru á Landsbókasafni–Háskólabókasafni. Án dugnaðar hennar er hætt við að útgáfan hefði dregist á erfiðum tímum.

            Þegar orðabókin var í höfn sneri Björg sér að eigin hugðarefnum. Hún var þá skilin við Sigfús en vinátta þeirra hélst þar til Björg féll frá 1934. Í ljóðabók hennar, Ljóðmælum, sem prentuð var árið sem hún lést er kvæði sem lýsir vel hug hennar til orðabókarvinnunnar. Kvæðið ber titilinn Orðabókinni miklu lokið, eftir 20 ára starf. Kvæðið lýsir biturð en þó undir lokin von um betri tíð og var líklega ort skömmu eftir að fyrri hluti bókarinnar kom út 1920. Annað erindið er svona:

            Ó, þrautirnar unnar, sem Skapanorn mér skóp,
            er skráfesti’ hún urðarrúnir mínar!
            Þó orðabókin þegi um anda míns óp,
            um aldir þögul ber hún minjar sínar.

Allrasíðasta lotan hefur reynt á og Björg verið fegin að sleppa undan orðabókarokinu. Vinna við orðtöku getur verið þreytandi og hún hefur komið í veg fyrir að Björg gæti sinnt hugðarefnum sínum. Þegar hún eygði lokin hefur komið í hana óþreyja, löngun til nýrra átaka. Hún átti eftir að vinna sigra á sínu fræðasviði. Hún var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi  1926 en hún nam við Sorbonne-háskólann í París. Hún gaf út nokkrar bækur, skrifaði og þýddi greinar. En hún lést eins og áður er getið 1934, sextug að aldri, sár og leið og ósátt við lyktir orðabókarmálsins sem of langt mál yrði að rekja hér.[1]

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

[1] Umfjöllun þessi byggir á grein eftir sama höfund í Andvara 2002, bls. 178–195 undir heitinu Andans kona og orðabókarpúl. Þar má lesa mun nánar um þátt Bjargar í lokalotunni, viðtökum við bókinni og eftirmálum um eignarrétt. Þar má einnig finna frekari heimildir.