Skip to main content

Pistlar

Blikdalur

Birtist upphaflega í júní 2010.

Stundum er talað um Esju sem „bæjarfjall“ Reykvíkinga, og víst er að hún mun það fjall sem flestir landsmanna hafa fyrir augum daglega. Allmargir dalir ganga inn í fjallið og verða sums staðar einungis mjó höft milli botnanna. Inn í Esju vestanverða skerst Blikdalur – eða Bleikdalur – lengstur dalanna.

Nafn dalsins hefur nokkuð verið á reiki, ýmist nefndur Blikdalur eða Bleikdalur og skýringar settar fram í samræmi við það. Eftir dalnum rennur Blikdalsá sem hefur verið nefnd Ártúnsá eftir að niður úr dalnum er komið. Elsta heimild um nafn dalsins er máldagi Saurbæjarkirkju á Kjalarnesi frá því um 1220 í Íslensku fornbréfasafni: „Bru scal hallda a blic dals a . þar milli fialls oc fioru . ær sa vill sem j saurbæ byr . ... Þar liggia tiundir til millum blikdals ar oc æilifsdals ar. nema af eyri. oc ur myrdal. ef þar bua landeigendr“ (DI I, 402). Fleiri máldagar kirkjunnar eru til og þeir hafa sama orðalag og árheitið á sama veg.

Kjalnesinga saga segir frá því er Esja, fóstra Búa Andríðssonar, bjó ferð hans norður til Hrútafjarðar og fylgdi honum á leið: „Síðan reið Búi leið sína, ok er hann kom inn fyrir Blikdalsá, fann hann þar smalamann ór Saurbæ“ (bls. 25).

Í Jarðabók Árna Magnússonar er ævinlega talað um Blikdal. „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal“ segir um Brautarholt, og Saurbær á fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu „í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur“ (III, 362, 375). Ýmsar jarðir aðrar þar í kring eiga selstöðu á (eða í) Blikdal í löndum kirkjustaðanna.

Skúli Magnússon fógeti skrifaði lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu á árunum 1782–1784 og mun hafa lokið henni í ársbyrjun 1785. Lýsingin er birt á dönsku í ritröðinni Bibliotheca Arnamagnæana í útgáfu Jóns Helgasonar. Þar segir um Brautarholt og Saurbæ (bls. 113): „Sidstmelte Gaarde tilhører en Dal, nævnes Blikdal, som løber indudi Fieldet mellem den høie Esie og Esiehalsen med Sætterbol og god Græsgang.“ Lýsingin er til í tveimur gerðum og báðum handritum fylgir uppdráttur sem Skúli hefur látið gera. Rithönd Skúla sjálfs er ekki á uppdráttunum og mun hann því hafa notið aðstoðar teiknara en eflaust haft sjálfur forsögn um gerð þeirra (Kortasaga Íslands, bls. 193). Á uppdrættinum, sem bæði er birtur í Kortasögu Íslands (bls. 192) og prentaður með sýslulýsingunum, stendur „Bleikdal“ svo ekki verður um villst, og má nú velta því fyrir sér hvers vegna ekki er samræmi milli texta Skúla og kortsins hafi hann haft hönd í bagga við gerð þess. Lýsing Skúla fógeta er birt í íslenskri þýðingu Magnúsar Finnbogasonar í fyrsta bindi af Landnámi Ingólfs, og þar er dalurinn nefndur Bleikdalur, athugasemdalaust (bls. 136). Í öðru bindi sama rits er lýsing Kjósarsýslu, rituð 1937, eftir Björn Bjarnarson í Grafarholti. Hann segir að Esja sé „klofin af Blikdal, (nú rangnefndur Bleikdalur), er gengur all-langt austur í fjallið, óbyggður“ (bls. 97). Björn skýrir nafn dalsins þannig: „Blikið („blinken“), sem dalurinn hefir fengið nafn af, er hinn ævarandi skafl í dalbotninum, er blasir við á siglingu inn Faxaflóa.“

 

Hluti af korti Skúla Magnússonar fógeta þar sem sjá má nafnið „Bleikdal“ þrátt fyrir að í texta Skúla standi Blikdalur

Sr. Halldór Jónsson, sem var prestur á Reynivöllum 1900–1950 og þjónaði einnig Saurbæjarkirkju, ritaði endurminningar sínar í tveimur bindum og nefndi Ljósmyndir. Fyrra bindið, „Húsvitjun“, fjallar um bæina í sóknunum tveimur og þar koma fyrir Bleikdalsá og Bleikdalur (bls. 105 og 116).

Egill Jónasson Stardal, frá Stardal í Kjalarnesheppi, skrifar um Esju og nágrenni í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 (bls. 83–112) og talar um Blikdal. Í sömu bók skrifar Ingvar Birgir Friðleifsson um jarðsögu Esju og nágrennis. Hann notar nafnið Blikdalur en segir (bls. 154): „Innar í Blikdal tekur við ljósleitt og grænsoðið móberg ... Háhitavirknin náði norður yfir Blikdal og gaf berginu þennan ljósa lit. Hugsanlega hefur dalurinn áður nefnst Bleikdalur vegna litarins.“

Tveir rótgrónir heimamenn af Kjalarnesi, Jón Ólafsson bóndi í Brautarholti og Ólafur Kr. Magnússon frá Völlum, lengi skólastjóri á Klébergi, tala báðir um Blikdal í ritinu Kjalnesingar, sem út kom 1998 (bls. 7 og 15). Ólafur hefur þó myndina Bleikdal (og Bleikdalsá) innan sviga.

Í örnefnaskrá Saurbæjar segir að Blikdalur sé „alltaf kallaður Bleikdalur í daglegu tali“, sömuleiðis Bleikdalsá, en Blikdalur er engu að síður notað í skránni. Blikdalur er og á uppdrætti sem varðveittur er í örnefnasafni, eftir ókunnan höfund.

Að þessu yfirliti loknu verður ekki betur séð en Blikdalur sé upphaflegt nafn dalsins en Bleikdalur síðar til komið, elsta dæmið á korti Skúla Magnússonar á síðari hluta 18. aldar. Nöfnin virðast lifa hlið við hlið úr því, en á nokkrum nýlega útgefnum kortum hefur myndin Blikdalur orðið fyrir valinu. En óleyst er gátan um tilurð nafnsins – er það skaflinn í dalbotninum eða hinn ljósi litur bergsins sem er þar að baki eða eitthvað allt annað? Það er verðugt íhugunarefni á gönguferð um þetta ágæta útivistarsvæði.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1985.

DI = Diplomatarium islandicum. Íslenskt fornbréfasafn I–XVI. Kmh. 1857- Rvk. 1972.

Halldór Jónsson: Ljósmyndir I–II. Reykjavík 1953–1954.

Haraldur Sigurðsson: Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848. Reykjavík 1978.

Íslenzk fornrit VI. Kjalnesinga saga. Reykjavík 1959.

Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess I–III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1935–1940.

Skúli Magnússon: Beskrivelse af Gullbringu og Kjósar sýslur (1785) udg. af Jón Helgason. Kbh. 1944. Bibliotheca Arnamagnæana 4. b.

Þorsteinn Jónsson: Kjalnesingar. Ábúendur og saga Kjalarneshrepps frá 1890. Reykjavík 1998.

Örnefnaskrár í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.