Skip to main content

Pistlar

Breiðavík

Birtist upphaflega í mars 2007.

Að undanförnu hefur bæjarnafnið Breiðavík í fyrrum Rauðasandshreppi verið fyrirferðarmikið í fréttum fjölmiðla og máli manna. Það er þó ekki málefni drengjaheimilisins sem hér er til umræðu heldur beyging bæjarnafnsins sem menn eru ekki á eitt sáttir um. Fjölmiðlamenn hafa fremur beygt nafnið með þessum hætti: Breiðavík, um Breiðavík, frá Breiðavík, til Breiðavíkur, þ.e. hafa fyrri lið nafnsins óbeygðan, meðan ýmsir aðrir telja að beygja eigi þannig: Breiðavík, um Breiðuvík, frá Breiðuvík, til Breiðuvíkur, þ.e. að beygja fyrri lið sem lýsingarorð. Víkur með þessu nafni eru a.m.k. 5 í landinu (miðað við gamla hreppaskiptingu): 1) á Snæfellsnesi (Snæf.), 2) í Rauðasandshreppi (V-Barð.), 3) í Tjörneshreppi (S-Þing.), 4) í Borgarfjarðarhreppi eystra (N-Múl.) og 5) í Helgustaðahreppi (S-Múl.). Þær koma ekki allar fyrir í fornritum eða fornbréfum en dæmi úr fornum ritum sýna að þær hafa haft óbeygðan fyrri lið nafnsins. Skal það nú sýnt með nokkrum dæmum:


Úr fornritum:
Landnámabók: „ór Breiðavík“ (Snæf.) (Íslenzk fornrit I:111nm., 128); „Þórir lína hét maðr, er nam Breiðavík“ (N-Múl.) (Íslenzk fornrit I:302).
Eyrbyggja: „til Breiðavíkr“ (Snæf) (Íslenzk fornrit IV:51).

Úr Fornbréfasafni:
„J breida wik“ (S-Þing.) (1296), (Íslenzkt fornbréfasafn II:317, 319); „Breydavijk alla med gognum“ (S-Þing.) (1318), (Íslenzkt fornbréfasafn II:431).
„j mille breidavijkr sydre“ (N-Múl.) (1354), (Íslenzkt fornbréfasafn III:97); „sker áá breidavik“ (S-Þing.) (1406), (Íslenzkt fornbréfasafn III:710).
„... skipade herra Johannes [þ.e. Jón Gerreksson] med gudz nad biskup j skalhollti halfkirkiv j breidavijk“ (V-Barð.) (1431), (Íslenzkt fornbréfasafn IV:469). (Útgefandinn, Jón Þorkelsson (1897) skrifar: í Breiðuvík).
„aa knerri i breidauik“ (Snæf.) (1425), (Íslenzkt fornbréfasafn IV:320).
„hia Þorlaki j Breidavik ...“ (V-Barð.) (1571), (Íslenzkt fornbréfasafn XV:535). Reikningakver Eggerts Hannessonar árin 1570-71.

Af þessu má sjá að fram á 16. öld virðist óbeygða myndin Breiðavík vera einráð í heimildum.

Árið 1710 skrifa Árni Magnússon og Páll Vídalín í Jarðabók sinni á þessa leið um Breiðavík í V-Barð.:
1) „Þessa Lambahlíð á hálfkirkjan í Breiðavík. Þessi hlíð er gagnlaus, nema þá Breiðavíkurmenn vilja voga þángað fje sínu...“ (VI:310).
2) „úr ... Breiðavík“ (VI:335).
En hinsvegar: „Eggver og fuglveiði í Látrabjargi og Látranúp ... sem er á milli Látra og Breiðuvíkur“ (VI:311).

Þegar kemur lengra fram á 18. öld virðist myndin Breiðuvík fara að vinna á, t.d. er í Vatnsfjarðarannál yngsta um árið 1772 talað um skipreika: „annar í Breiðuvík í Barðastrandarsýslu“ (Annálar 1400-1800 V:371 (1961)).

Í sóknalýsingum Bókmenntafélagsins frá um 1840 eru Breiðuvíkur-myndir orðnar algengari, t.d. í lýsingu sóknarinnar á Snæfellsnesi, en þó stendur eftirfarandi eftir sr. Friðrik Jónsson, prest á Stað á Reykjanesi, um Breiðavík í V-Barð.: „vestur í veiðistöður Brunna, Látur, Breiðavík og Kollsvík“ (Sóknalýsingar Vestfjarða I:71 (1952)). Aðrir prestar hafa hinsvegar Breiðuvík í aukaföllum. Í sóknarlýsingum úr Múlasýslum frá sama tíma er myndin orðin (Stóra)-Breiðuvík (N-Múl.) í nefnifalli.

Trausti Ólafsson frá Breiðavík sem ritaði örnefnaskrá hefur Breiðavík í aukaföllum. Í Vísi, sunnudagsblaði, 29. ágúst 1943, er grein um Látrabjarg eftir Pétur Jónsson frá Stökkum. Þar er talað um Breiðavíkursókn og Breiðavíkurbjarg og landamerki Breiðavíkur. Breiðavíkurbjarg er á uppdrætti eftir Samúel Eggertsson (í sama blaði).

 

Breiðavík í Rauðasandshreppi, V-Barð.. Atlaskort LMÍ.


Í bókinni Ljós við Látraröst. Ásgeir Erlendsson á Hvallátrum segir frá, en Einar Guðmundsson skráði og út kom 1999, er alltaf notuð myndin Breiðavík að því er séð verður, t.d. bls. 12, 13, 34, 103. Hvallátrar er í næsta nágrenni. Ásgeir var fæddur 1909 og var alla tíð á Látrum.

Í Árbók Barðastrandarsýslu 1952 eru fréttir úr Rauðasandshreppi, þar sem talað er um byggingu á „dvalarheimili í Breiðavík“ (87) sem Snæbjörn J. Thoroddsen í Kvígindisdal skrifaði. Sami höfundur skrifar Breiðavíkursókn, Breiðavíkurkirkja, bænhúsið í Breiðavík í Árbókinni 1953 (132, 134). Í Árbókinni 1954 stendur til Breiðavíkur (109), og sama er að segja um Árbækurnar 1957-58 og 1968-74 að þar er myndin Breiðavík víða í aukaföllum. Þórður Jónsson á Látrum skrifar í Árbók 1975-79: „„Drengjaheimilið að Breiðavík“ sem svo var í upphafi kallað“ (94).

Í bókum ýmissa manna sem skrifað hafa um Vestur-Barðstrandarsýslu er alfarið talað um Breiðavík. Þannig segir Pétur Jónsson frá Stökkum í Barðstrendingabók, sem Kristján Jónsson á Garðsstöðum gaf út 1942: „Norðaustan við Breiðavíkina gengur þverhnípt fjall í sjó fram. Heitir það Breiður. ... En yfir Breiðinn liggur svo vegur frá Breiðavík í Kollsvík.“ (98).

Magnús Gestsson safnaði efni í bók sem hann nefndi Úr vesturbyggðum Barðastrandarsýslu (1973) og hefur þar mörg dæmi um Breiðavík, t.d. „Jón bóndi í Breiðavík“ (91). Hann gaf einnig út bókina Látrabjarg 1971 þar sem hann hefur myndina Breiðavík (líka Breiðavíkurbjarg) nema þar sem hann talar um Breiðuvík á Snæf. þar sem hann nefnir Grímsstaði í Breiðuvík (31).

Jóhann Skaptason sýslumaður, sem var Þingeyingur, skrifaði Árbók Ferðafélags Íslands 1959 um Barðastrandarsýslu. Hann skrifar í Breiðavík (121) og til Breiðavíkur (122).

Nú gætu menn sagt sem svo að þessir menn sem allir eru látnir hefðu verið þeir síðustu sem þannig töluðu og skrifuðu, en svo er ekki. Á heimasíðu ferðaþjónustunnar í Breiðavík sem rekin er af hjónum sem bæði eru úr nágrenninu, er gegnumgangandi myndin Breiðavík: Ferðaþjónustunnar Breiðavík, í Breiðavíkurbænum, veiði í Breiðavík og 66 km fjarlægð frá Breiðavík.

Það hefur lengi verið venja hér á landi að halda í heiðri hefðbundin bæjanöfn og m.a. til þess hefur örnefnanefnd starfað í ein 70 ár að þeirri hefð sé haldið. Á síðustu árum hafa Sameinuðu þjóðirnar einnig látið sig varða örnefni og er ett af grundvallaratriðum sérfræðinganefndar um þau mál að beita sér fyrir örnefnavernd. Það er því í anda þess að nafnfræðasvið Árnastofnunar mælir með því að gömul og gróin beygingarmynd, sem fram að þessu hefur varðveist þar vestra, haldist en sé ekki kastað fyrir róða.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023