Skip to main content

Pistlar

Eddukvæði og fræði

Þann 10. maí síðastliðinn var opnuð í Húsinu á Eyrarbakka sýning á eftirgerð handritsins AM 748 I b 4to sem geymir Skáldskaparfræði. Sýningin er liður í verkefninu Handritin alla leið heim sem stofnunin gengst fyrir í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar.  

Það var fóstra handritsins, Charlotte Böving leikkona, sem opnaði sýninguna ásamt Gísla Sigurðssyni og hér má lesa pistil sem hún skrifaði af þessu tilefni.

Saga handritsins AM 748 I-II 4to er sláandi dæmi um afdrif skinnbóka eftir að þær komust í hendur Árna Magnússonar. Árni fékk handritið frá Halldóri Torfasyni í Gaulverjabæ árið 1691, sem hafði að öllum líkindum þegið það í arf eftir föður sinn, Torfa Jónsson, en til Torfa má ætla að handritið hafi komið frá Brynjólfi Sveinssyni Skálholtsbiskupi sem var hálfbróðir föður hans, Jóns Gissurarsonar. Árni Magnússon tók bókina í sundur: í fyrri hlutanum (I) hélt hann saman eddukvæðum og merkum ritgerðum um skáldskaparfræði, en í þeim seinni (II) Skáldskaparmálum Snorra Eddu og ættartölu Sturlunga enda var sá hluti bersýnilega yngri eða frá um 1400. Ekki er ljóst hvort fyrri hlutinn var frá öndverðu innan spjalda sömu bóka.

Þegar kom að afhendingu AM 748 I 4to til Íslands árið 1996, var brugðið á það ráð að taka það handrit einnig í sundur: eddukvæðin urðu eftir í Árnasafni í Kaupmannahöfn, en seinni hlutinn sem geymdi skáldskaparfræðina var afhent Íslendingum.

Vel er hægt að hugsa sér að eddukvæðin hafi átt að mynda nokkurs konar inngang að þeirri umfjöllun um skáldskaparfræði sem á eftir fer í handritinu. Kvæðin eru nú sjö og varðveitt á einu sex blaða kveri, en það vantar bæði framan við, aftan við og innanúr kverinu, og ljóst að upphaflega hafa fleiri kvæði verið í handritinu. Þau sem eftir standa eru: Hárbarðsljóð (vantar upphaf), Baldursdraumar, sem hvergi eru varðveittir nema hér, Skírnismál (vantar niðurlag), Vafþrúðnismál (vantar upphaf), Grímnismál, Hymiskviða og upphaf Völundarkviðu. Söfn eddukvæða eru aðeins varðveitt í tveimur handritum, Konungsbók eddukvæða og AM 748 I a, og því hefur þetta handrit úr Gaulverjabæ mikla sérstöðu í safni Árna.

Seinni hluti handritsins geymir mjög áhugaverða samsetningu ritgerða um skáldskaparfræði og líklega hefur átt að nota þann hluta bókarinnar við skipulega uppfræðslu í skólum. Skrifarinn notar rauða og græna liti í titlum efnisgreina sem auðveldar mjög notkun handritsins og á spássíum eru einnig merkingar. Upphaf seinni hlutans er skert en hann hefst á nokkrum línum um stílbrögð úr óþekktri ritgerð (sem stundum er kölluð Fimmta málfræðiritgerðin). Í fjórðu línu er málfræðiritgerð Ólafs Þórðarsonar hvítaskálds (stundum nefnd hin Þriðja) kynnt með rauðu letri. Skrifarinn tengir ritgerðina og það sem á eftir kemur með merkilegri klausri um höfunda efnisins:

Hér er lykt þeim hlut bókar er Ólafur Þórðarson hefir samansett og upphefur skáldskaparmál og kenningar eftir því sem fyrirfundið var í kvæðum höfuðskálda og Snorri hefir síðan samanfæra látið. 

Strax í kjölfarið fylgir svokölluð Litla Skálda, sem er stutt en áhugaverð greinargerð um skáldskaparmálið, þá kafli um Fenrisúlf, og loks merk gerð Skáldskaparmála Snorra (ásamt Þulum í aukinni gerð). Skáldskaparmál eru hér mjög frábrugðin þeirri gerð sem jafnan er prentuð í nútímaútgáfum og er reist á texta Konungsbókar Snorra Eddu. Blöðunum lýkur á Íslendingadrápu eftir Hauk Valdísarson sem hvergi annars staðar er varðveitt. Kvæðið segir frá hetjum í upphafi Íslandsbyggðar, þar á meðal Gunnari á Hlíðarenda og Gretti Ásmundarsyni. Ekkert er nú vitað um skáldið né tilurð kvæðisins en það er þó sennilega ekki ort fyrr en á seinni hluta 12. aldar. Efni AM 748 I 4to er þannig einstaklega áhugavert og geymir lykiltexta sem annars hefðu glatast. Og einnig nöfn þriggja höfunda, þeirra Ólafs Þórðarsonar, Snorra og hins óþekkta Hauks.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018