Skip to main content

Pistlar

einmánuður

Einmánuður er síðasti mánuður vetrar og tekur við af góu. Hann hefst á þriðjudegi á bilinu 20.–26. mars og stendur þar til harpa tekur við á bilinu 19.–25. apríl. Nafnið kemur fyrir þegar í fornum bókmenntum, m.a. í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu. Þar segir um skiptingu ársins (1949: 239):
 

Frá jafndægri er haust, til þess er sól sezt í eykðarstað. Þá er vetr til jafndægris. Þá er vár til fardaga. Þá er sumar til jafndægris. Haustmánuðr heitir inn næsti fyrir vetr, fyrstr í vetri heitir gormánuðr, þá er frermánuðr, þá er hrútmánuðr, þá er þorri, þá gói, þá einmánuðr, þá gaukmánuðr ok sáðtíð, þá eggtíð ok stekktíð, þá er sólmánuðr ok selmánuðr, þá eru heyannir, þá er kornskurðarmánuðr. 


Páll Vídalín lögmaður greinir frá einmánuði í bók sinni um skýringar við fornyrði lögbókar og segir (1849–1854: 576):
 

Það sýnist mér líkast, að einmánuður heiti svo að því, að hann er þá einn eptir vetrarins, en tvímánuður, af því þá eru tveir eptir af sumrinu. 


Tvímánuður var fimmti mánuður sumars (22.–29. ágúst). Páll Vídalín segir enn fremur (577):
 

Eins get eg að tvímánuður hafi sitt nafn fengið til varnaðar búmönnum, að þá væri tveir einir mánuðir til vetrar, og bæri því nauðsyn til, að gæta sumar-útréttínga. Einmánuður þar í mót til huggunar í vetrarstríði bænda, að sumarið færi þá í hönd að einum mánuði liðnum. 


Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (II: 551) kemur fram að yngismenn áttu að fagna einmánuði eins og yngismeyjar hörpu og fyrsti dagur einmánaðar var víða um land nefndur yngismannadagur.

Margar vísur eru til um einmánuð rétt eins og um þorra og góu. Allnokkrar má finna í bók Árna Björnssonar Saga dagannaog m.a. þessa (1993: 604):
 

Þorri vondur vakti hret
vindasöm hún Góa.
Einmánuður eftir lét
öllum vætu nóga.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 27. mars 2019
Heimildir
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Edda Snorra Sturlusonar. 1949. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan, Reykjavík.
  • [Jón Árnason.] 1966. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. II. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík, Bókaútgáfan Þjóðsaga.
  • Páll Vídalín. 1846–1854. Skýríngar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag.