Skip to main content

Pistlar

freigáta

Vefurinn málið.is var opnaður um miðjan nóvember 2016. Hann hefur á rúmum þremur mánuðum orðið býsna vinsæll. Þar er hægt að slá inn eitthvert leitarorð og síðan birtir vefgáttin upplýsingar um það orð og þær eru sóttar í sex mismunandi gagnasöfn (hið sjöunda kemst brátt í gagnið).

            Teljarar á leitarsíðunni málið.is sýna að fjögur orð voru jöfn í sjötta til níunda sæti á skrá um algengustu leitarorð í febrúarmánuði: orðin freigátakýrleyti og reiðtygi. Segja má að þessi orð geti talist vandrituð og/eða vandbeygð, hvert með sínum hætti, og orðin freigáta og reiðtygi eru ekki meðal algengustu orða í íslensku svo að upplýsingar um merkingu eru eflaust einnig mörgum gagnlegar. Því ætti ekki að koma á óvart að fólk leiti sér fróðleiks um einmitt þessi fjögur orð.

            Fyrsttalda orðið úr fereykinu, orðið freigáta, er valið sem orð febrúarmánaðar 2017.

            Freigáta er nafnorð í kvenkyni og merkir „herskip sem ber flugskeyti, ætlað til kafbátaleitar og fylgdar öðrum skipum“ að því er segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Íslensk orðsifjabók bætir nokkru við merkingarskýringuna og tilgreinir merkinguna „lítið (vélknúið) herskip; †seglskip (þrísiglt)“. Krosstáknið framan við orðið seglskip táknar að sú merking sé nú úrelt. Samkvæmt orðsifjabókinni er orðið freigáta þekkt í íslensku frá 18. öld og þar segir að þetta sé tökuorð, líklega sótt til dönsku, fregat, sem sé ættað úr rómönskum málum, sbr. á ítölsku fregata en á spænsku og portúgölsku fragata

            Orðið freigáta var t.d. notað í Skírni árið 1849 en þar kemur fyrir „ein freigáta, sem hjet Gjefion“ sem Danir notuðu í stríði við Þjóðverja. Þar fór þó illa; „freigátan varð að gefast upp, þá er hún var orðin svo lest, að menn gátu ekki lengur haldið upp vörn á henni“. (Sagnorðið lesta merkir „brjóta“, „skemma“, „laska“, sbr. limlesta.)

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 20. júní 2018