Skip to main content

Pistlar

Gottáttuhrísla

Birtist upphaflega í maí 2015.

Oftar en ekki eru örnefni dauður hlutur og fastur punktur í tilverunni. Dæmi: fjall, gil, hraun. Því er þó ekki að neita að örnefni geta verið á hreyfingu. Lækurinn líður, fjaran hverfist fram og aftur, jökullinn skríður. Sjaldnast er þó hægt að horfa á örnefni vaxa og dafna, laufgast og sölna. Eitt er þó það örnefni, ef örnefni skyldi kalla, sem gerir einmitt það. Þetta er birkitré og gengur undir nafninu „Gottáttuhrísla“. Um hana segir svo í örnefnaskrá Hallormsstaðar eftir Hjörleif Guttormsson:

Rétt ofan þjóðvegar á ytri bakka Kerlingarár er Gottáttuhrísla, gömul eik [=tré] og mjög farin að láta á sjá um aldamótin 2000. Birkitré þetta og umhverfi þess er talið hafa verið kveikjan að ljóði Páls Ólafssonar „Hríslan og lækurinn“. Þó voru raddir um að hrísla á bala ofan vegar út við Vínlæk hafi verið tilefni kvæðisins. Einar Long á Hallormsstað orðaði það svo að Páll, sem hafi komið innan úr Fljótsdal, hafi byrjað kvæðið hjá hríslunni við Kerlingará en lokið því út við Vínlæk.

Í annarri örnefnaskrá Hallormsstaðar, eftir Sigurbjörgu Pétursdóttur, segir að tréð standi við Innri-Vínlækinn. Hugsanlega gera því tvö tré tilkall til örnefnisins og nafnbótarinnar. Hvað sem því líður er nafnið einstakt og á bak við það er eftirfarandi saga:

Tilefni kvæðisins er talið, að Páll [Ólafsson skáld] hafi riðið í glöðum hópi inn ströndina meðfram Lagarfljóti áleiðis í Hallormsstað. Benedikt [Gíslason frá Hofteigi] telur, að gæðingur hans í það skiptið hafi verið hesturinn Óskasteinn. Yst í skóginum var svo áð í trjálundi. Þar blasti yrkisefnið við Páli: Ein hrísla sérstök á grasbala skammt frá læk, sem rann með ljúfum niði gegnum skóginn. Þarna sá Páll ekki aðeins fagurt landslag, heldur skáldlegt tákn um mannlega sambúð. Og þó nísti hann sársauki eins og þá var ástatt fyrir honum sjálfum. Sennilega hefur hann átt mestan þátt í að knýja kvæðið fram. Hjarta hans bundið við Eyjólfsstaði, en hann var kvæntur maður á Hallfreðarstöðum. En traust og virðing Þórunnar [fyrri konu Páls] svo mikil, að ekki kom til mála að breyta þar neinu. Í 14 ár beið Ragnhildur [seinni kona Páls] á Eyjólfsstöðum eftir að Páll flutti í Hallfreðarstaði. Það hefur verið löng bið. En þá fyrst, er Páll var orðinn ekkjumaður á Hallfreðarstöðum, gátu ástardraumar þeirra ræst.

Þessi texti er tekinn úr grein eftir Eirík Sigurðsson sem birtist í Sunnudagsblaði Tímans 6. janúar 1973. Fyrsta erindi kvæðisins um Hrísluna og lækinn er annars á þessa leið:

Gott átt þú, hrísla, á grænum bala,
glöðum að hlýða lækjarnið.
Þið megið saman aldur ala,
unnast og sjást og talast við.
Þar slítur aldrei ykkar fundi,
indæl þig svæfa ljóðin hans.
Vekja þig æ af blíðum blundi
brennandi kossar unnustans.

Ingi T. Lárusson gerði lag við þetta kvæði sem margir þekkja. Fyrstu hendingar og tóna má heyra á þessari slóð: Hríslan og lækurinn - Páll Ólafsson - Ingi T. Lárusson.

Mynd af ætluðu tré er að finna á þessari slóð á heimasíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023