Skip to main content

Pistlar

Handritið hennar Dóru systur

AM 436 12mo er í litlu broti og með smærri handritum í safni Árna Magnússonar; 93 blöð skrifuð með einni hendi á sautjándu öld. Árni hefur sjálfur skrifað fremst að það sé „ættartölubók systur minnar Halldóru Ketilsdóttur“ og á seðli sem fylgir handritinu skrifar hann: „frá systur / Dóru Ketils / og segir hún / megi eiga það (ef) ég vilji. Er ekki merkil(egt)“. 
Halldóra sem Árni kallar Dóru systur var í raun móðursystir hans, fædd um 1640 og lést 1727. Á heimili foreldra hennar, Ketils Jörundssonar prófasts í Dölum og Guðrúnar Jónsdóttur, afa sínum og ömmu, ólst Árni Magnússon upp. Í gömlum heimildum kemur fram að Ketill hafi verið ágætur söngmaður og átt börn sem voru framúrskarandi að söngþekkingu enda er í handritinu vísa sem staðfestir þekkingu á tónfræðilegum hugtökum eins og lyklum (þ.e. merki í nótnaskrift sem ákveður fasta tónhæð), diskanti (yfirrödd án tillits til raddtegundar) og lýsir kennslu í rödduðum söng. Handritið hefst á ættfræðilegum upplýsingum en þar er einnig lítið ágrip um lækningar, um fornyrði lögbókar, um sköpun barnsins í móðurkviði, Grobbíans rímur, um borðsiði í bundnu máli, um drauma, teikning af völundarhúsi, Heilræði Catonis í íslenskri þýðingu, tóbaksvísurnar „ Tóbak góm grætir “ og „Tóbak rödd ræmir“ sem eignaðar hafa verið Hallgrími Péturssyni; þó ekki með fullum rökum. Í handritinu eru einnig upplýsingar um hvernig nýta má lauk, einiber, baldursbrár, súru, næpu, blóðberg, vallhumal, hvannarót, svo og oleum, mustarð og hunang til ýmiss konar gagns. Loks er í handritinu fræðsluljóð Hallgríms Péturssonar Mun Guð marga til dómsins kalla, svokallað bergmálskvæði eða dvergmál þar sem settar eru fram trúfræðilegar spurningar og þeim svarað með rímorði, eflaust ætlað börnum eða unglingum. Kvæðið er í fjórða bindi útgáfu Ljóðmæla Hallgríms Péturssonar sem kom út hjá stofnuninni árið 2010.

Nánar er fjallað um handritið í afmælisriti Menningar- og minningarsjóðs Mette Magnussen, 38 Vöplur.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023