Skip to main content

Hestur

Birtist upphaflega í mars 2010.

Örnefnið Hestur er víða til á Íslandi, sem bæjarnafn, fjallsheiti og heiti á klettum, hólum og hæðum. Fjórir bæir á landinu heita Hestur. Einn er í Grímsnesi í Árnessýslu, annar í Andakíl í Borgarfirði og tveir á Vestfjörðum, í Önundarfirði og við Hestfjörð í Ísafjarðardjúpi. Allir standa bæir þessir undir fjöllum.

Hestur í Grímsnesi og Hestur í Andakíl standa undir fjöllum sem bæði heita Hestfjall. Þau eru ekki ósvipuð, ekki ýkja há en hækka þó mjög í annan endann og rísa þar vel upp af láglendi í kring. Um bæði þau fjöll er þess getið að geysimikið útsýni sé af þeim um nærliggjandi sveitir (Grímsnes 2002:466; Árbók 2004:68).

Í Önundarfirði er hátt fjall og tignarlegt sem heitir Hestur og við rætur þess stendur bærinn, samnefndur. Bær þessi kemur við Gísla sögu Súrssonar, því að Vésteinn Vésteinsson bjó „undir Hesti“ eins og það er orðað. Um skeið brá fyrir nafninu Hafurshestur. „Aðrir vilja það heiti Hafurshestur“, segir Árni Magnússon í Jarðabók sinni (VII:111), en það styttist og myndin Hestur mun einráð er kom fram á 19. öld. Á síðustu áratugum 19. aldar ólst Magnús Hjaltason upp á Hesti og í hjáleigunni Efrihúsum og bjó við illt atlæti að eigin sögn. Hann lærði þó snemma að skrifa og hóf ungur að rita dagbækur og fleira sem varðveist hefur. Halldór Laxness nýtti sér skrif Magnúsar við ritun skáldverksins Heimsljóss um Ólaf Kárason Ljósvíking (Árbók 1999:353, 356).

Milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar í Ísafjarðardjúpi er annað fjall nefnt Hestur, ekki síður tignarlegt, og undir því stendur líka samnefndur bær. „Erfitt er að klífa Hestinn, og gerðu það fáir“, segir í örnefnaskrá Hests. Nes gengur út frá Hestinum og heitir ysti hluti þess Folafótur, í daglegu tali nefnt Fótur, og þar er bær með sama nafni. Hafa menn talið sig sjá líkindi með því bæjarnafni og Fæti undir Fótarfæti þar sem Ólafur Kárason ólst upp (Landið þitt II:62–63). Koma vestfirsku Hestarnir tveir þannig óbeint við sögu íslenskra bókmennta.

Hestur við Hestfjörð í Ísafjarðardjúpi. Snæfjallaströnd í baksýn. Ljósmynd: Guðmundur Hafsteinsson. Myndin er tekin á nýársdag 2010 kl. 13:18 eða u.þ.b. 18 mínútum fyrir hádegi að sólartíma. Sólin kemst því ekki hærra á loft en þetta um áramótin á norðanverðum Vestfjörðum.

Fleiri fjöll heita þessu nafni. Á Snæfellsnesi lifir sögn um tröllkonu er var á ferð með þungar klyfjar á hesti sínum. Er hún var komin vestur fyrir Sátufjall í Eyjarhreppi lagðist klárinn niður undir böggunum og fékkst með engu móti til að standa upp aftur. Kerling átti þann kost einan að skilja hann eftir, og er þar síðan fjall er heitir Hestur er sér víða til, alþekkt vegna lögunar. Sjálf varð hún að steini á vesturbrún Kerlingarfjalls, við Kerlingarskarð. Upp af bænum Tungu í Hörðudal er Tungufjall. Syðst í því er Hestur, „feiknamikið fjall, aðalfjallið, ekki ósvipað hesti í laginu“ (örnefnaskrá Tungu). Í landi Fremri-Hvestu í Arnarfirði er allstórt fell sem heitir Hestur. Klettafjall ofan við bæinn Höfða í Jökulfjörðum heitir Hestur. Upp af Látravík á Hornströndum er annar Hestur, klettabrík sem liggur norðaustur frá Kýrskarði og Hestskarði (Árbók 1994:177). Í brún Efrafjalls upp frá Bakka í Ölfusi er klettabelti sem nefnist Hestur.

Við Héðinsfjörð vestanverðan er langur fjallhryggur sem nefnist Hesturinn eða Hestfjall, ekki hátt fjall en bratt, víða ófært mönnum. Yst í fjallinu varð flugslys vorið 1947 þar sem fórust 25 manns (Árbók 2000:232–233). Þar sem hæst ber á brún Hvassafellsfjalls í Eyjafirði heitir það Hestur (1207 m) (Árbók 1991:136, 141). Þar uppi er víðsýnt enda er þessi hæstur þeirra fjalla sem hér eru talin. 

Ýmsir hólar, klettar og steinar heita þessu nafni, sumir sagðir með hestlagi, aðrir ekki. Nokkrir þeirra eru í sjó frammi og umflotnir. Þeir eru fleiri en svo að öllum verði gerð skil hér, aðeins nefnd nokkur dæmi. Á merkjum Barðsness við Norðfjarðarflóa og Sandvíkur er þunnur klettakambur í sjó fram, með hestlagi og heitirHestur (Árbók 2005:88, 92). Tveir stórir steinar eru framan við lendinguna á Ásmundarstöðum á Melrakkasléttu og eru upp úr um fjöru; annar þeirra heitirHestur. Fyrir landi Hringsdals á Látraströnd var klettadrangur nefndur Hestur en er nú hruninn. Fyrir landi Fjarðar á Múlanesi, A-Barð., er Hestur, nokkuð stór hólmi umflotinn, með háum klettum. Við sjó í landi Traða í Hraunhreppi á Mýrum er Hestur, aflangur steinn vaxinn þangi.

Á merkjum Búrfells og Reynhóla í Miðfirði er Hestur, nokkuð langur hóll, dálítið söðulbakaður og ekki ósvipaður hesti í laginu. Einnig heitir Hestur hæð í fjallsbrún á merkjum Orrahóls og Svínaskógs á Fellsströnd. Hestur, allmikil hæð, sem hallar af til allra átta, er í Hörgslandsþorpi á Síðu, V-Skaft., og hamrastrýtan Hestur er í landi Stórólfshvols austan Hvolsvallar.

Birt þann 20.06.2018
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1991. Reykjavík.
Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Reykjavík.
Árbók Ferðafélags Íslands 1999. Reykjavík. 
Árbók Ferðafélags Íslands 2000. Reykjavík.
Árbók Ferðafélags Íslands 2004. Reykjavík. 
Árbók Ferðafélags Íslands 2005. Reykjavík.
Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók. VII. Kaupmannahöfn 1918−1921.
Grímsnes. Búendur og saga. 2. b. Ritstjóri Ingibjörg Helgadóttir. 2002.
Íslenzk fornrit VI. Vestfirðinga sögur. Reykjavík 1943. 
Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt Ísland II. Reykjavík 1981.
Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.