Skip to main content

Hringver

Birtist upphaflega í september 2005.

Bæjarnafnið Hringver hefur verið til á þremur bæjum á landinu: 1) Í Viðvíkursveit í Skagafirði. 2) Í Ólafsfirði. 3) Á Tjörnesi. Elsta heimild um þetta bæjarnafn er frá árinu 1296 í rekaskrá Hólastóls (Ísl. fornbréfasafn II:316, 318), þar sem talað er um Hringversreka á Tjörnesi. Elsta heimild um Hringver í Viðvíkursveit er frá 1449, í jarðaskrá Hólastaðar (Ísl. fornbréfasafn V:36). Hringver í Ólafsfirði er nefnt sem eyðijörð frá Kvíabekk í bók Ólafs Olaviusar og hefði farið í eyði 1721 af grjótskriðu (Ferðabók II. Reykjavík 1965, bls. 37).

Margeir Jónsson á Ögmundarstöðum skrifaði greinarkorn um Hringver í Viðvíkursveit (Bæjanöfn á Norðurlandi. Rannsókn og leiðréttingar. Akureyri og Reykjavík 1933, bls. 17–20). Hann telur hæpið að síðari liður nafnsins, ver, merki ‘sjór’ þar sem bærinn liggi langt frá sjó og lítið sjáist til sjávar frá honum. Honum þykir sennilegast að viðskeytið ver sé komið af sögninni verja ‘skýla’ og það komi prýðilega heim við landslagið í kring (19). Margeir segist aftur á móti láta ósagt hvort Hringver í Ólafsfirði eða Tjörnesi sé eins myndað „en grun hefi jeg á, að bæirnir liggi í hlje fyrir norðan veðrum.“ (19–20).

Guðmundur skáld Friðjónsson á Sandi skrifaði í blaðið Íslending VII, 10. tbl. (1921), að ver muni þýða að uppruna ‘stað sem verið er í’ til öflunar fæðu eða heyja, þ.e.‘engjalendi’. Hann skrifar ennfremur: „Hringver á Tjörnesi styður þessa tilgátu. Bærinn stendur á sjávarbakka svo að segja og allmjög áveðra. En sunnan og neðan við bæinn er svo kölluð Hringvershvilft, sem er ágætis engi. Þessi hvilft ætla ég, að sé verið, sem bærinn dregur nafnið af. ... Sé svo, að hringmyndaða dældin, sem ég nefndi, nálægt Hringversbænum, hafi verið kölluð fyrrum ver, getur nafnið hafa fallið niður og í staðinn komið hvilft, af því að það nafn var algengara og auðskildara. Þó er þetta tilgáta ein.“ (Ritsafn. Erindi og ritgerðir. Akureyri 1956. VII:111).

Guðmundur vitnar í Ljósvetninga sögu sér til stuðnings, þar sem segir: „En Þorkell hafði fátt hjóna ok einn húskarl, ok var hann brautu til vers [svo í handriti, breytt í verks í útg.].“ ... „En húskarl Þorkels vann þar sem heitir at Landamóti at heyverki.“ (Ísl. fornrit X:48–50).

Guðmundur Friðjónsson notar orðið hringver í kvæði sínu Vordís:
„Til hillinga-eyjanna hrifinn ég sé,
er Háloga konungi þjóna,
við hringver og hyldýpi lóna.“ (Ritsafn V:406).
Ekki verður þó beint ráðið af textanum hver merkingin er.

Guðrún Kvaran hefur skrifað um orðið ver og rakið líklega merkingu þess (Íslenskt mál 12–13:197–202). Mörg eru dæmin af Suðurlandi, þar sem merkingin er oftar en ekki ‘mýrlent svæði’. Í orðabók Guðmundar Andréssonar frá 1683 er merkingin gefin ‘Oræ, Locus’ eða ’staður’, t.d. í fiskiver og eggver (253). Guðmundur var Norðlendingur og því e.t.v. vanur merkingu orðsins í Hringver. Annar Norðlendingur, Hallgrímur Scheving, segir í orðasafni sínu í uppskrift Páls Pálssonar, að merkingin sé ‘grasdæld, umgirt hrauni’, en það er merkt Suður- og Austurlandi hjá þeim.

Vel má vera að merking Hringvers sé svipuð og nafnsins Kringlumýri, sem allalgengt er sunnanlands a.m.k. og merkir ‘kringlótt lítil mýri’.

Birt þann 20.06.2018