Skip to main content

Pistlar

Jarlhettur

Birtist upphaflega í janúar 2008.

Menn með járnhetti vega að Ólafi konungi Haraldssyni. Flateyjarbók, GKS 1005 fol.

Síðasta bók Björns Th. Björnssonar sem kom út fyrir jólin ber heitið Jarlhettur. Það er dregið af röð móbergstinda sunnan Langjökuls sem margir eru hvassir og formfagrir. Orðið jarlhetta er annars ekki þekkt í íslensku máli. Heimildir um nafnið Jarlhettur eru ekki til eldri en Íslandskort Björns Gunnlaugssonar 1844. Haraldur Matthíasson kennari og ferðagarpur lýsir Jarlhettum þannig m.a.: „Lögun á hettunum er með ýmsum hætti, en mest ber á tveimur gerðum. Annars vegar eru þær, sem ganga upp í oddmjóan topp. Eru þær nefndar hér topphettur. Hins vegar eru þær, sem eru með hamrabelti fyrir ofan skriður, en þverstýfðar að ofan. Þær eru nefndar hér stromphettur. Hengiflug þverhnípt eru í mörgum hettunum, og skriður miklar eru í þeim öllum, snarbrattar og lausar.“ (Árbók Ferðafélagsins 1961, bls. 118). Á korti Björns Gunnlaugssonar er aðeins heildarheitið Jarlhettur. En nöfn einstakra tinda eru umdeild.

Hæst þeirra er Innsta-Jarlhetta (1084 m) en Stóra-Jarlhettanokkru lægri (943 m). Hún hefur á seinni tímum af sumum verið nefnd Tröllhetta og hefur það nafn ranglega verið sett á kort í Íslandsatlas 2006, Kort 45 B1, í stað hins eldra nafns. Staka-Jarlhetta (664 m) er ein hettan nefnd. (Mynd í Árbók Ferðafélagsins 1998, bls. 186-187). Þorvaldur Thoroddsen talar um „Jarlhettuna fremstu“ í Landfræðisögu sinni (III, bls. 308). Nafnið Jarlhettur er annaðhvort líkingarnafn, dregið af hettum jarla eða af orðinu járnhetta, í flt. járnhettur sem gengist hefur í munni Tungnamanna og orðið jarlhettur (sbr. Stefán Karlsson 1989:43-44). Stefán telur augljósa líkingu með Jarlhettum og járnhöttum í Flateyjarbók, m.a. á vegendum Ólafs helga, en járnhattar hafi verið venjulegustu hjálmar á síðmiðöldum, kollháir og upptypptir (sbr. KLNM VI, d. 616-617). Járnhattur (Járnhöttur) er til sem örnefni í Mývatnssveit, hraunklettur með vörðu á. Mannsnafnið Jarl kemur fyrir í Rígsþulu en var ekki notað hér á landi að fornu og ekki fyrr en á 20. öld. Það er á sænskri rúnaristu frá miðöldum og hefur verið notað á Norðurlöndum frá því á 19. öld. Ólíklegt er því að mannsnafnið Jarl eigi hér hlut að máli.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 1961. Árnessýsla. Grímsnes og Biskupstungur eftir Harald Matthíasson.
Árbók Ferðafélags Íslands 1998. Fjallajarðir og framafréttur Biskupstungna eftir Gísla Sigurðsson.
Björn Th. Björnsson 2007. Jarlhettur.
Björn Gunnlaugsson 1844. Uppdráttr Íslands (Suðvesturland).
Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni 1991. Nöfn Íslendinga.
Íslandsatlas 2006.
KLNM = Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder. VI. Hjälm. 1961.
Stefán Karlsson 1989. Jarlhettur – Járnhettir. Orðlokarr sendur Svavari Sigmundssyni fimmtugum 7. september 1989, bls. 43–44.
Þorvaldur Thoroddsen 1902. Landfræðissaga Íslands. III.